Fjöldi eldri karlmanna sem eignast börn hefur aukist mikið í Danmörku. Þetta kemur fram á vef danska ríkisútvarpsins. Þar segir að fleiri og fleiri karlar sem eru komnir yfir fimmtugt og sextugt eignist börn. Það má sjá svipaða þróun hér ef tölur Hagstofunnar eru skoðaðar, en fjölgunin er þó mun minni hér en í Danaveldi. Sextugir karlar sem eignast börn eru fáir hér á landi.
Fimmtugum feðrum fjölgar um 65%
Meðalaldur karla í Danmörku þegar þeir verða feður, er 33, 5 ár. En stöðugt fleiri karlar eignast börn síðar á ævinni. Frá 1986 – 2015 jókst fjöldi feðra á aldrinum 50-59 ára um 162%. Fjöldi feðra sem eignuðust börn rúmlega sextugir á þessu sama tímabili jókst um 176%. Árið 1986 eignuðust 23 karlmenn á aldrinum 50-59 ára börn hér á Íslandi, en í fyrra árið 2015 voru feður sem eignuðust börn á þessum aldri 38. Það er 65% aukning í barneignum eldri karlmanna. Fyrir nær þrjátíu árum, árið 1986 var einn faðir sem eignaðist barn þegar hann var sextugur, en þetta ár var enginn íslenskur faðir skráður eldri en það þegar hann eignaðist barn. Árið 2015 voru hins vegar 7 íslenskir feður sem eignuðust börn þegar þeir voru á aldrinum 60-69 ára.
Sextugir karlar lifa lengur en áður
Danska ríkisútvarpið ræðir við Lísbeti B. Knudsen félagsfræðing við háskólann í Álaborg um ástæður þessa. Hún segir að fleira og fleira fólk, skipti um maka á lífsleiðinni og oft vilji menn eignast barn með nýjum maka. Hún segir að það sé líka auðveldara núna fyrir sextuga karla að eignast börn, því þeir lifi lengur en áður.
Eldri feður kunna að hafa meira að gefa
Kenneth Reinicke sem er vísindamaður við Háskólann í Hróarskeldu og rannsakar stöðu karla, segir að eldri feður geti haft meira að gefa en yngri feður, því þeir hafi reynslu af því að vera feður. Á móti komi að eldri feður muni ekki eiga jafn mörg ár með barninu sínu og yngri feðurnir.