Það vekur athygli að í hópi þeirra sem lengst hafa náð í baráttunni fyrir að verða frambjóðendur flokka sinna í næstu forsetakosningum í Bandaríkjunum, eru stjórnmálamenn sem eru komnir af léttasta skeiði. Hillary Clinton er 68 ára, en Bernie Sanders helsti keppinautur hennar um útnefningu Demókrataflokksins er 74 ára. Donald Trump sem sýnist í dag einna líklegastur til að verða forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins í kosningunum seinna á þessu ári er 69 ára. Á síðasta ári vakti einnig athygli að Verkamannaflokkurinn í Bretlandi kaus Jeremy Corbyn formann flokksins með miklum meirihluta atkvæða,en hann er 66 ára.
Gamlingjabylgja í stjórnmálunum?
Þetta er þveröfugt við þróunina hér á landi, þar sem mikil umræða hefur átt sér stað á undanförnum árum um nauðsyn þess að fjölga ungu fólki í forystusveit stjórnmálaflokkanna. Helgi Hrafn Gunnarsson einn helsti talsmaður Pírata sem mælast með mest fylgi í skoðanakönnunum er til dæmis 35 ára. Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði segist ekki hafa velt því fyrir sér hvort það sé einhver sérstök gamlingjabylgja í stjórnmálunum almennt, en það séu mörg dæmi um bæði unga stjórnmálaforingja og gamla.
Ráðherrarnir ekki orðnir fertugir
„Reagan var kominn á virðulegan aldur þegar hann var kosinn og sama á við um Adenauer Þýskalandskanslara sem var kominn vel yfir sjötugt þegar hann tók við embætti“
, segir Ólafur. Hann bætir við að að í stjórn hinna vinnandi stétta, sem tók við völdum hér á landi árið 1934, hafi ráðherrarnir verið kornungir. Forsætisráðherrann Hermann Jónasson var 37ára og fjármálaráðherrann Eysteinn Jónsson var 27 ára. Gunnar Thoroddsen varð hins vegar forsætisráðherra í febrúar árið 1980 og var þá 69 ára.
Stjórnmálaforingjar á hvaða aldri sem er
Reagan var rétt tælpega sjötugur þegar hann varð forseti Bandaríkjanna árið 1981, en tuttugu árum fyrr hafði John F. Kennedy náð kjöri í sama embætti einungis 43 ára gamall og rætt var um hann sem fulltrúa nýrrar kynslóðar. „Þetta sýnir bara að stjórnmálaforingjar geta verið á hvaða aldri sem er“, segir Ólafur. „Fólk á öllum aldri hefur fulla möguleika á að bjóða sig fram til embætta og ná kjöri“.