Elísabet II Englandsdrottning lést í dag 96 ára að aldri. Sonur hennar Karl hefur tekið við konungstign og verður Karl III Bretakonungur. Elísabet var krýnd drottning árið 1952 eftir fráfall föður síns Georgs VI. Í vor var haldið upp á 70 ára valdatíð hennar. Hún varð langlífasti þjóðhöfðingi Bretlands og hefur enginn setið jafn lengi í embætti og hún.
Heilsa drottningarinnar fór versnandi síðustu mánuði og dvaldi hún í Balmoral kastala í Skotlandi. Fréttir bárust af því um hádegisbil að læknar hefðu áhyggjur af heilsufari hennar og skömmu síðar var sagt frá því að börn hennar og barnabörn væru á leiðinni til Skotlands. Breska hirðin tilkynnti andlát hennar síðdegis.
Þjóðhöfðingjar víða um heim hafa minnst drottningarinnar með hlýju, þar á meðal Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands og Guðni Jóhannesson forseti sem sendi bresku þjóðinni samúðarkveðjur. Í lok tilkynningar sem hann setti á Facebook sagði hann. „Einn merkasti þjóðarleiðtogi seinni alda er fallinn frá. Blessuð sé minning Elísabetar II.“
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir í samtali við Morgunblaðið að andlát Elísabetar II Bretlandsdrottningar marki endalok merkilegs tímabils í sögðu Vesturlanda. Hún minnist Elísabetar, sem hún hitti árið 2019, af mikilli hlýju og segist skilja hvers vegna drottningin var jafn dáð af þjóð sinni og raun ber vitni.
Fólk sem er komið yfir miðjan aldur man ekki veröldina án Elísabetar drottningar og Hildur Helga Sigurðardóttir, fyrrverandi fréttaritari Ríkisútvarpsins í Lundúnum segist í samtali við Mannlíf telja mögulegt að breska samveldið líði undir lok, nú þegar Elísabet II Englandsdrottning er öll.