Sveinn sveitarbót

Óttar Guðmundsson geðlæknir skrifar.

Árið 1209 sótti óvígur her helstu höfðingja landsins að Guðmundi biskup góða að Hólum. Fátt var um varnir og flúði Guðmundur með stóran hluta sinna manna. Nokkrir urðu eftir og voru handteknir. Í þeim hópi var hetjan Sveinn Jónsson sveitarbót. Þegar andstæðingar biskups bjuggu sig undir að hálshöggva Svein bað hann böðla sína að byrja á því að höggva af sér bæði hendur og fætur. Var það gert. Sveinn brást vel við þessum pyntingum og dauða sínum og söng Maríubænir. Lofuðu menn hreysti Sveins og trúfestu. Hann vissi í hjarta sínu að þjáningar þessa heims skiptu engu máli gagnvart eilífri sælu annars heims.

Nútímamenn skilja ekki Svein sveitarbót eða trúarhita hans. Kristin trú er löngu komin úr tísku. Heimurinn er orðinn svo fyrirsjáanlegur að engin þörf er lengur fyrir Guð. Menn sjá fyrir náttúruhamfarir og óveður og enginn þarf lengur að treysta á forsjá æðri máttarvalda. Dauðinn er ekki lengur hluti af tilverunni heldur hefur flutt sig inn á sérstakar stofnanir. Fólk afneitar eigin dauðleika. Margir prestar skammast sín fyrir ritninguna og hagræða henni svo að hún henti betur tíðarandanum. Maður eins og Sveinn sveitarbót væri hafður að háði og spé.

Nútímafólk hefði flykkst í kringum aftökustaðinn á Hólum og horft á pyntingarnar með köldu afskiptaleysi. Flestir hefðu sent upptöku af þessum atburðum á netið. Einhverjir hefðu tekið af sér gleiðbrosandi „sjálfu“ með hinum aflimaða píslarvotti. Sveinn hefði notið lítillar samúðar í netheimum. Umræðan hefði snúist um það hvort Sveinn hafi ekki kallað þessa meðferð yfir sig með þvermóðsku og „eitraðri karlmennsku.“

Helsta deilumál á yfirstandandi kirkjuþingi eru sérstakar greiðslur til presta fyrir ákveðin tilvik. Eiga skírnir og brúðkaup að vera innifaldar í föstu laununum eða utan þeirra? Menn virðast hafa litlar áhyggjur af minnkandi kirkjusókn og trúarþörf. Mestu máli skiptir að fá viðurkenningu á samfélagsmiðlum fyrir yfirgengilegt frjálslyndi.

Þegar ég heyri kristna menn skammast sín fyrir trú sína hugsa ég alltaf til Sveins og Guðmundar góða biskups. Guðmundur barðist alla sína biskupstíð við hrokafulla höfðingja sem vildu segja honum fyrir verkum. Hann lét aldrei deigan síga þótt andstæðingar hans lokuðu hann inni í gluggalausum kytrum og drægju hann yfir Kapalhraun. Guðmundur var þrátt fyrir allt mótlæti  aldrei til viðtals um uppgjöf gagnvart höfðingjastéttinni. Hann hefði sagt prestum sínum að ríghalda í gjaldskrána enda verður hjálpræði Drottins aldrei metið til fjár. Trúarlegt miðjumoð féll hinum helga manni ekki í geð.

Hallgrímur heitinn Pétursson vitjaði mín svo í draumi og fór með þessar hendingar úr Passíusálmunum:

 

Hvað gjöra þeir sem hér á jörð

hafa að spotti drottins orð,

lifa í glæpum ljóst til sanns,

lasta og forsmá þjóna hans?

Óttar Guðmundsson nóvember 8, 2021 07:00