„Okkar leiðarljós er hugmyndfræðin um persónumiðaða þjónustu, en það er hugmyndafræði sem er að ryðja sér til rúms í þjónustunni við eldra fólk. Þessi nálgun er hins vegar lengra komin í þjónustunni við fatlaða. Áður byggðist þjónustan á „one size fits all“ og ekki var gerður greinarmunur á fólki, hvorki eftir aldri né aðstæðum“ segir Berglind Indriðadóttir sem ásamt fjórum öðrum konum, rekur Facebook-síðuna Farsæl öldrun. Þær vinna að stofnun Þekkingarmiðstöðvar að norrænni fyrirmynd sem ætlunin er að starfi á landsvísu en slíkar miðstöðvar eru í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Þar er safnað saman þekkingu um þjónustuna við aldraða og henni miðlað áfram til þeirra sem starfa í greininni sem og aðstandenda.
Persónumiðuð þjónusta við eldra fólk
Berglind sem er iðjuþjálfi með menntun frá Danmörku hefur að baki 16 ára starfsferil í öldrunarþjónustu á Landspítala, í öldrunarþjónustu í sveitarfélagi og á hjúkrunarheimilum. „Ég hef alltaf verið mikið í fræðslumálunum, var til dæmis gjarnan með iðjuþjálfanema í vettvangsnámi og fræðslumálin hafa alltaf verið mitt áhugasvið. Mér hefur fundist áhugavert að vera með fræðslu fyrir starfsfólk á þessum vinnustöðum“, segir Berglind sem hefur líka komið að kennslu á háskólastigi og hjá símenntunarmiðstöðvum, en þangað hefur starfsfólk öldrunarþjónustunnar sótt styttri námskeið. Hún segir að þróunin í öldrunarþjónustunni núna sé frá verkmiðaðri þjónustu, yfir í persónumiðaða þjónustu.
Umfjöllun hefur aukist verulega
Heitið á Facebook-síðunni Farsæl öldrun má rekja til framtíðarþinga sem haldin voru á sínum tíma á vegum Öldrunarráðs Íslands og nokkurra sveitarfélaga. Fyrsta þingið um farsæla öldrun var haldið í Reykjavík árið 2013 og var Berglind í undirbúningshóp fyrir þingið. Þá var Facebook-síðan sett af stað, sem vettvangur til að koma niðurstöðum þingsins á framfæri. „Svo fór ég í leiðinni að pikka upp fréttir af öldrunarþjónustunni og því sem eldra fólk er að fást við og deila inná síðuna“, segir Berglind og bætir við að í fyrstu hafi hún þurft að leita heilmikið að efni til að setja þar inn, en nú sé það orðið þannig að það sé hægt að velja úr efni, því umfjöllun um öldrunartengd málefni hafi aukist verulega. „Við erum að miðla upplýsingum um nýjungar í þjónustunni, sem verið er að taka upp bæði hér og í nágrannalöndum okkar“, segir hún. Eftir fyrsta framtíðarþingið fór stjórn Öldrunarráðs með undirbúning og framkvæmd á seinni þingunum, en Berglind starfaði þá á hjúkrunarheimili og hélt áfram með síðuna á eigin vegum.
Örlagarík rútuferð
Árið 2014, tók hún ákvörðun um að segja upp starfi sínu eftir fjögur ár á hjúkrunarheimilinu. Á ráðstefnu í Gautaborg hitti hún norskan kollega, konu sem var þar á vegum síns vinnustaðar, norsku þekkingarmiðstöðvarinnar Aldring og helse sem Berglind og samstarfskonur hennar horfa mikið til. „Við vorum að spjalla og ég að dást að þessari flottu starfsemi, þá segir hún „Berglind þú ferð bara heim og stofnar svona miðstöð“. Ég var svo á leiðinni til Osló að hitta vinkonu mína, en það var seinkun á lestinni. Starfsmaður á brautarstöðinni benti mér á að taka rútuna í stað þess að bíða. Þar hitti ég Rannveigu Guðnadóttur, en við vorum kunningjakonur og höfðum verið á námskeiði saman. Við fórum að ræða hvað væri framundan hjá okkur og ákváðum þarna í rútunni að fara að vinna saman að stofnun Þekkingarmiðstöðvar. Við fengum svo til liðs við okkur Sigrúnu Huld Þorgrímsdóttur sem er hjúkrunarfræðingur eins og Rannveig. Síðar bættust í hópinn Steinunn A. Ólafsdóttir sjúkraþjálfari og Guðrún Jóhanna Hallgrímsdóttir iðjuþjálfi.
Vex í augum að annast veikt og gamalt fólk
„Við erum hver með okkar grunnmenntun og mismunandi framhaldsmenntun í öldrunarfræðum, stjórnun, opinberri stjórnsýslu og innan hjúkrunar sem og reynslu af störfum í öldrunarþjónustu“, segir Berglind „og veljum mjög markvisst hvaða efni við deilum á Facebook-síðunni. Við reynum að taka mið af íslenskum aðstæðum og styðjum þekkingarmiðlun á þessu sviði sem aðrir standa fyrir og segjum frá verkefnum sem háskólanemar hafa verið að vinna. Við vekjum athygli á fræðslustarfsemi og alls konar fundum og gefum allar kost á okkur til að fara með fræðslu inná stofnanir“. Hún segir að stundum virðist sem það sé ætlast til of mikils af starfsfólki í öldrunarþjónustunni án þess að nesta það almennilega til starfans. Það sé ein skýringin á starfsmannaveltunni á þessum stofnunum. „Fólkinu vex í augum að annast veikt, gamalt fólk, án þess að fá góða fræðslu eða leiðsögn. Það er upplýsandi að lesa viðtöl við fólk sem hefur ákveðið að hætta vinnu í öldrunarþjónustunni. Það sem það upplifir í starfinu stríðir gjarnan gegn gildum þess. Það á erfitt með að horfa uppá þessa verkmiðuðu þjónustu, þar sem eldra fólkið verður að taka því sem að því er rétt og lítið tillit tekið til einstaklingsins. Viðmótið er þannig að það gleymist að horfa á manneskjuna sem er í líkamanum sem verið er að sinna og alla hennar lífssögu og reynslu. Það sem er eitt af leiðarljósum í persónumiðaðri þjónustu er að lífið sé þess virði að lifa því á meðan lifað er, þrátt fyrir heilsubrest“.
Var vant að biðja ekki um neitt
Berglind segir að það sé tilhneiging hjá stofnunum að fara í vörn, þegar kröfur koma upp um persónulega þjónustu. Menn telji sig hvorki hafa tíma né peninga til að gera betur. En hún segir að það séu til aðferðir til að vinna persónumiðað, án þess að það þurfi að kosta meira þegar til lengdar lætur. Það sé ákveðinn stofnkostnaður við fræðslu í byrjun, en það spari síðan fjármagn þegar öllum líði betur, starfsmannavelta og veikindafjarvera geti minnkað og lyfjakostnaður einnig. Hún segir líka að viðhorf meðal eldra fólks séu að breytast. „Elsta fólkið var vant því að biðja ekki um neitt. Svo er að koma ný kynslóð notenda inní kerfið sem var vön að standa fyrir byltingum“, segir hún. Berglind vonast til þess í framtíðinni að Þekkingarmiðstöðinni vaxi fiskur um hrygg og að eftir 10 ár, verði þar starfandi 10-12 starfsmenn sem geti boðið uppá fjölbreytta fræðslustarfsemi og utanumhald um þekkingarsamfélag sem vinnur að framþróun öldrunarþjónustunnar. „Í liðinni viku fengum við styrk frá Atvinnumál kvenna sem er sjóður á vegum félagsmálaráðuneytisins og það gefur okkur byr undir báða vængi næstu mánuðina“.