Ertu alltaf með höfuðverk?

Listinn virðist ótæmandi af hverju maður fær hausverk. Streita, kvíði, álag á augu, kuldi, hiti, rifrildi við fólk sem hvorki fýlar Monty Python, Bítlana né Liverpool, ákveðin lykt, lýsing, ofnæmi….listinn er endalaus.

Nú getur þú bætt við einu atriði til viðbótar við þennan lista: skortur á d-vítamíni. Sem betur fer er aðvelt að redda því.

Fyrst örlítið nánar um vísindin. Á vefsíðunni Inc.com er vitnað í nýlega rannsókn frá finnskum háskóla sem rannsakaði tengsl höfuðverkja við skort á d-vítamíni. Niðurstaða hennar er sú að d-vítamínskortur getur aukið hættuna á að þjást af krónískum höfuðverk. Krónískur höfuðverkur er skilgreindur þannig að viðkomandi fái hausverk að minnsta kosti einu sinni í viku.

Þátttakendur í rannsókninni sem voru með lægstu d-vítamín gildin voru tvisvar sinnum líklegri til að þjást af krónískum höfuðverkjum en þeir sem voru með hæstu d-vítamín gildin í blóðsýnum. Krónískur höfuðverkur mældist oftar hjá þátttakendum yfir myrkustu vetrarmánuðina þegar sólin náði að útvega minna magni af d-vítamíni en að sumri til.

Jyrki Virtanen, sem fór fyrir finnsku rannsókninni, segir að með mikilli einföldun megi segja að taugafrumur í heila, sem stjórna skynjun á sársauka, séu næmar fyrir d-vítamíni. Með enn þá meiri einföldun má því segja að taugafrumurnar „láti vita af sér“ með hausverknum þegar magn d-vítamíns er of lítið í líkamanum.

En, dokið við! Það er meira!

Fleiri einkenni d-vítamínsskorts eru slappleiki í vöðvum, hærri blóðþrýstingur, þunglyndi, hjartasjúkdómar og – sérstaklega hjá karlmönnum – krabbamein í blöðruhálskirtli og ristruflanir.

Þetta er ánægjulegur lítill listi.

Það er samt ein ástæða til viðbótar sem ætti að fá þig til að huga alvarlega hvort þú sért að fá nógu mikið d-vítamín.

Eldra fólk með of lítið magn af d-vítamíni í blóðinu getur þjáðst af minnisglöpum og skertri athyglisgáfu fyrr á ævinni en þeir sem teljast vera með eðlilegt magn af d-vítamíni. Það eru margar rannsóknir sem styðja þessa fullyrðingu, hér er tengill á eina.

Sýnt hefur verið fram á að um 70-90% þeirra sem eiga við vitræna skerðingu að etja fái ekki nægjanlegt magn af d-vítamíni.

Því lægra sem d-vítamín mælist í blóðinu því erfiðara áttu þeir, sem rannsakaðir voru, með að muna almennar upplýsingar, rata um sitt nánasta umhverfi og koma hugsunum sínum í orð.

Því miður er ekki auðvelt að tryggja að fá nógu mikið af d-vítamíni á hverjum degi. Feitur fiskur, mjólkurvara, egg og sum morgunkorn geta reddað því, en mjög fáir fá nógu mikið magn af d-vítamíni með fæðunni einni saman.

Þú þarft ekki að taka margar d-vítamín pillur til að leysa þetta. Það er hægt að taka of mikið af d-vítamíni og því er betra að ráðfæra sig áður við lækni. Stundum er mælt með 4000 IU sem daglegu viðmiði, en það er þó einstaklingsbundið. 2000 IU á dag er örugglega líka nóg, en heilbrigðisyfirvöld hafa gefið út að það sé nóg að taka 600 IU. Aftur, leitaðu endilega ráða hjá lækni þínum með þetta – og láttu athuga hjá þér d-vítamínið næst þegar þú ferð í blóðprufu.

Hafðu þetta allavega í huga: Næst þegar þú færð tíðan hausverk, prófaðu að taka d-vítamín og sjáðu hvað gerist. Og þó þú fáir ekki oft hausverk, taktu samt d-vítamín.

Þýtt og endursagt: Inc.com

Ritstjórn maí 4, 2023 17:04