Rannsóknir hafa sýnt fram á að hreyfing hefur afar jákvæð áhrif á heilsu almennt og ekki síður þeirra sem eldri eru. Hér á landi eru rannsóknir Dr. Janusar Guðlaugssonar íþróttafræðings á þessu sviði hvað þekktastar, en hann sýndi fram á að fólk á aldrinum frá sjötugu til rúmlega níræðs, bætti verulega getu sína til að hreyfa sig, með því að fá daglega þjálfun og gera styrktaræfingar tvisvar til þrisvar í viku. En það eru ekki allir sem komast út af heimilinu til að stunda sína þjálfun.
Fólk fær þjálfun tvisvar í viku
Sóltún heima, er nýtt fyrirtæki sem tengist hjúkrunarheimilinu Sóltúni en þjónustar fólk sem býr heima hjá sér. Sóltún heima aðstoðar þá sem þarfnast hjálpar við daglegt líf, við að þjálfa sig upp líkamlega. Þannig má gera þeim kleift að auka færni sína í daglegu lífi svo þeir verði meira sjálfbjarga. Í stórum dráttum gengur þjónusta Sóltúns heima út á að aðstoða fólk við að hreyfa sig heima, tvisvar í viku í 20 mínútur í senn, eftir ákveðnu prógammi að danskri fyrirmynd. Það dregur líka úr einangrun eldra fólks, að fá heimsókn frá leiðbeinandanum tvisvar í viku þá mánuði sem þjálfunin stendur, en algengast er að það sé í þrjá mánuði. Mögulega getur þjálfunin einnig gert fólki kleift að taka aftur þátt í félagsstarfi, sem það var hætt að geta stundað. Hún getur líka aukið öryggi fólks sem á til að mynda síður hættu á að detta, eftir að hafa fengið þjálfun.
Eftirspurnin eykst
Það er ung kona sem stjórnar Sóltúni heimahreyfingu Ásdís Halldórsdóttir sem er forstöðumaður Heilsu & Vellíðan. Starfsemin hófst um mánaðamótin apríl/maí og er eftirspurnin þegar orðin meiri en hún getur annað. Ásdís segir að þjónustan sé miðuð við sextuga og eldri á öllu höfuðborgarsvæðinu, sem búa heima en þurfa aðstoð við athafnir daglegs lífs. „Það kostar um tíu milljónir á ári fyrir einn einstakling á hjúkrunarheimili“, segir hún. „Heimaþjónusta kostar líka sitt og því má spara umtalsverðar fjárhæðir með því að seinka því að fólk þurfi á heimaþjónustu eða plássi á hjúkrunarheimili að halda“. Það kostar einstaklinginn um 35.000 krónur á mánuði að fá þjálfun heima tvisvar í viku og Ásdís segir að það sé hugmyndin að leita eftir samningi við Sjúkratryggingar eða sveitarfélögin um að taka þátt í þessum kostnaði.
Þrír af fjórum hafa orðið sjálfstæðari heima
Sóltún Heima styðst við danska velferðartækni sem dönsk sveitarfélög hafa verið að taka upp. Hún heitir DigiRehab. Markmiðið er að draga úr kostnaði við dýra heimaþjónustu með því að fjárfesta í styrktarþjálfun fyrir eldri borgara á heimilum þeirra. Rannsóknir sýna að þjálfunin hefur stytt þann tíma sem fólk þarf á aðstoð að halda frá öðrum sviðum heimaþjónustunnar. Þannig hefur 12 vikna þjálfun stytt tímann sem menn þurfa aðstoð heima að meðaltali um 88 mínútur á viku og þrír af hverjum fjórum sem hafa fengið þjálfunina, hafa orðið sjálfstæðari heima. „Þetta er fjárfesting sem hefur borgað sig“, segir Ásdís. Hér má sjá hvernig þjálfunin í heimahúsum virkar.
Þegar fólk óskar eftir þjálfun heima, er byrjað á því að setja það í færnipróf sem er í kerfinu DigiRehab. Þannig er hægt að fá úr því skorið hvort viðkomandi hefur ávinning af þjálfun eða ekki. Færnipófið í fyrstu heimsókn er mönnum að kostnaðarlausu og án bindingar. Sé prófið jákvætt er útbúið þjálfunarprógramm sem er sérsniðið fyrir hvern einstakling og tvisvar í viku kemur starfsmaður heim og aðstoðar viðkomandi við að gera æfingarnar. Starfsfólk Sóltúns heima svarar í síma 5631400 og veitir áhugasömum nánari upplýsingar.