Fann sérstaka tilfinningu með fólkinu mínu og landinu mínu

 

Þeim fer fækkandi sem muna eftir lýðveldishátíðinni fyrir 70 árum. Þór Jakobsson veðurfræðingur og Arna Björk Stefánsdóttir sagnfræðingur hafa safnað minningum fólks sem var á Þingvöllum 17.júní 1944 og hyggjast gefa þær út á bók. Þær eru um það bil 80 talsins, mislangar. Það er forvitnilegt að heyra hvernig fólk sem þá var á barnsaldri upplifði þennan stóra dag í sögu þjóðarinnar.

Víst var þetta merkilegur og minnisstæður dagur. Og svo sannarlega fylgdi athöfninni sérstök tilfinning hjá mér, telpu á tólfta ári. Eins og hjá hinum vænti ég. Þrátt fyrir rigninguna, sem ég man nú reyndar ekki eftir að hafi angrað mig neitt sérstaklega, fann ég einhverja sérstaka tilfinningu með fólkinu mínu og með landinu mínu og er sú tilfinning enn mjög sterk hjá mér.

Sigríður Valdimarsdóttir.

Þegar fór að líða á daginn fóru nú fínheitin að fara af okkur, allt varð rennandi blautt, enginn var hlífðarfatnaður með, hefði ekki veitt af regnkápum og vaðstígvélum, klæðnaður hefði verið annar í dag. Mínar minningar frá þessum degi tengjast aðallega kulda og blautum fötum.

Hallfríður Georgsdóttir.

Þór Jakobsson var sjö ára þegar hann fór með foreldrum sínum og systkinum á lýðveldishátíðina og lýsir ferðinni þannig.

„Það var endalaus bílalest á veginum til Þingvalla og bílarnir óku hægt. Það þótti mjög merkilegt meðal hinna yngri í hópnum að bíllinn sem var næst á undan okkur hafði bílnúmerið R-1944. Á þessum árum var mikill áhugi hjá strákum á bílnúmerum og sport í því að dreifa sér á götur og skrá númer bíla sem áttu leið hjá. Síðan voru bornar saman bækur. Við fylgdumst með R-1944. Um síðir komumst við á leiðarenda og var þar margt um manninn. Mér fannst óskaplega margir þarna saman komnir, fólk út um allt. Hátíðarhöldin stóðu allan daginn. Það rigndi látlaust en mig minnir að ég hafi alls ekki sett það fyrir mig. Mamma bjó okkur vel út og ég var í haldgóðum hlífðarfötum. Mannmergðin var eftirminnileg en það sem ég mundi lengst og síðan allt fram á þennan dag nær sjötíu árum síðar var ÞÖGN sem sló á mannhafið. Allt í einu var grafarþögn. Allir í kringum mig stóðu kyrrir og steinþögðu. Á heimleiðinni sögðu foreldrar okkar að einmitt þá hefði Ísland orðið sjálfstætt ríki, Íslendingar orðið frjálsir og „fullvalda“.

Andartaki áður hafði Gísli Sveinsson forseti Alþingis lýst yfir stofnun lýðveldisins Íslands. Ný stjórnarskrá væri gengin í gildi. Og ég var viðstaddur, að vísu fávíst barn, sem geymdi einungis minningu um þrennt, bíl með númerinu R-1944, óskaplega margt fólk og mikla ÞÖGN. En það eru forréttindi að hafa verið með á Þingvöllum þessa mestu stund þjóðarinnar um aldir. Ég er þakklátur foreldrum mínum fyrir að hafa tekið allan barnahópinn sinn með í þetta ferðalag rigningardaginn 17. júní 1944, líka þá yngstu sem fengu ekki fullan skilning á því sem þarna fór fram fyrr en löngu seinna“.

Sjónvarpið sýnir þátt um Lýðveldisbörnin að kvöldi þjóðhátíðardagsins 17. júní, en það er þáttur sem Eggert Gunnarsson kvikmyndagerðarmaður hefur gert. Þar segja 18 hinna 80 lýðveldisbarna frá minningu sinni um 17. júní 1944.

 

 

 

 

 

Ritstjórn júní 17, 2014 00:19