Bernskuminning Wilhelms Wessman:
Ég kynntist farmor Anne-Marie fyrst þegar hún kom í heimsókn til Íslands sumarið 1953 og bjó hjá okkur í Engihlíð 7, en Engihlíðin var fyrsta stoppistöðin af sjö í Reykjavík þar sem ég átti heimili, meðan ég bjó í foreldrahúsum. Ég er fæddur á Höfn í Hornafirði og bjó þar fyrstu tíu ár ævi minnar. Þetta sumar tókust með okkur ömmu vinátta og kærleikur sem hélst meðan hún lifði. Eftir að hún kom heim sendi hún mér oft bréf með frímerkjum sem hún safnaði handa mér. Ég náði mjög góðu valdi á dönsku ungur, sem gerði það að verkum að tungumálaerfileikar háðu ekki samskiptum okkar.
Farmor notaði mörg skrítin orð sem ég átti í fyrstu erfitt með að skilja, en skýringin var sú að danskan hennar var frönskuskotin, en á bernskuheimili hennar var töluð franska á sunnudögum. Árið sem ég var sautján ára var ég í Kappmannahöfn og bjó þá hjá Róbert föðurbróðir mínum í húsi sem afi og farmor byggðu og var rétt hjá Kastrup Fort á Amager.
Á sólríkum sunnudegi sátum við farmor á bekk undir gamalli eik á Fortet, sem þá var löngu orðinn almenningsgarður. Þar sagði hún mér sögu sína.
Hún var getin utan hjónabands og var dóttir fátækrar verkakonu sem vann aðallega við þvotta allt sitt líf. Faðir hennar var Lipmann, sem var fyrirstéttarfólk í Kaupmannahöfn þess tíma og bjó á Fredriksberg Alle 22
Farmor var tekin í fóstur strax eftir fæðingu af föður sínum sem hún var látin kalla „frænda“. 17 ára kynntist hún Wilhelm afa sem kom til Kaupmannahafnar í kringum 1890 ásamt bræðrum sínum tveimur til að fá skipsfar til Bandaríkjanna, en bræðurnir ætluðu að gerast innflytjendur. Þannig stóð á ferðum þeirra að skömmu áður hafði ættarhöfðingi Wessman´s fjölskyldunnar hálsbrotnað og látist í heimreiðinni að Strömsal í Östra Broby á Skáni, sem var ættarsetur fjölskyldunnar um aldir. Kallinn var fullur og datt út úr hestvagni. Þegar sonur hans frétti andlát hans varð honum að orði; „Það var kominn tími til“. Eftir lát hans kom í ljós að hann hafði sóað ættarauðnum. Hann hefði áreiðanlega verið greindur með áfengissýki í dag. Ég man eftir því þegar pabbi fékk ábyrgðarbréf frá skiptaráðanda í Svíþjóð skömmu fyrir 1960 þar sem hann fékk greiddan sinn hlut af arfinum frá Strömsal, en hann var heilar 53 krónur sænskar! Þegar faðir hennar (frændinn) komst að því að hún felldi hug til afa sem þótti ekki nógu fínn pappír fyrir hana, Svíi af eignalausri fjölskyldu, setti hann henni afarkosti. Sem voru: að slíta öllu sambandi við afa eða yfirgefa Fredriksberg Alle 22 og koma þangað aldrei aftur. Hún valdi afa.
Þegar afi deyr 1932 kaupir Róbert föðurbróðir húsið af farmor, en hún stofnar verslun í Söborg hverfinu í Kaupmannahöfn, verslun sem skilgreind væri sem „kaupmaðurinn á horninu í dag“. Verslunin gekk vel. Eftir hernám Þjóðverja 9. apríl 1940 fór að síga á ógæfuhliðina. Erfitt var að fá vörur og þýsku hermennirnir vesluðu fyrir ávísanir á peninga sem þýska herstjórnin gaf út og viðtakandi gat síðan fengið skipt í danska peninga í bönkum, en þeir innleystu síðan ávísanirnar hjá Deutsche Bank. Þegar leið á stríðið hætti Deutsche Bank að innleysa ávísanirnar og sátu þá viðtakendur uppi með skaðann,en þýsku hermennirnir kröfðust þess af verslunareigendum að þeir tækju við þessum gervipeningum og hikuðu ekki við að beita valdi ef þeir töldu þess þörf. Þetta varð til þess að amma gafst upp og lokaði versluninni. Hún sagði mér líka frá frændum mínum tveimur sem tóku þátt í neðanjarðarhreyfingunni á stríðsárunum. Annar slapp undan Gestapo og barðist með breska hernum til stríðsloka og var fagnað sem hetju við heimkomu. Hinn sat í fangabúðum nasista allt stríðið og minnir saga hans í mörgu á sögu Leifs Müllers „ Býr ekki Íslendingur hér“
Þegar hann kom heim niðurbrotinn á sál og líkama var enga hjálp að fá, menn áttu bara að herða upp hugann og vinna úr þessu sjálfir. Það varð honum um megn og með árunum seig á ógæfuhliðina og hann endaði sem útigangsmaður í Kaupmannahöfn.
Þegar fjölskyldan varð þess áskynja að ég var farinn að taka þátt í næturlífi Kaupmannahafnar var ég tekinn á beinið og sagt að vara mig á honum. Hann vissi hver við værum í fjölskyldunni og það væri okkur ekki samboðið að hafa samneyti við hann. Ég hitti hann í tvö eð þrjú skipt og gaf honum fyrir öli. Ég spyr sjálfan mig í dag hvort honum var sýnd meiri andleg grimmd af hendi nazista eða fjölskyldunnar.
Þetta var í síðasta sinn sem við farmor hittumst, hún lést skömmu síðar.