Ottó Guðjónsson lýtalæknir er hávaxinn og laglegur með sérlega þægilega nærveru. Um hann er sagt að hann fari aldrei of hratt að settu marki en haldi stefnunni stíft. Hann er fæddur í New York en ólst upp á Íslandi, fór í sérnám í Bandaríkjunum eftir að hafa klárað læknisfræðina við Háskóla Íslands. Hann er sjálfur orðinn miðaldra og hefur gífurlega reynslu í sérgrein sinni, fyrst frá Bandaríkjunum þar sem hann starfaði í 18 ár og svo hér á landi.
Ákvörðunin að flytja heim auðveld
Eftir læknisfræðina á Íslandi fór Ottó í sérnám í almennum skurðlækningum í New York. Síðar bætti hann lýtalækningum við og var með stofu á Long Island þar sem hann starfaði á einni elstu klíník í lýtalækningum í Bandaríkjunum. Þar var mjög stór brunadeild svo Ottó fékk líka þjálfun í brunalækningum. Hann var því alls í New York í 18 ár áður en hann flutti til Íslands aftur. Eiginkona hans, Guðbjörg Sigurðardóttir, var með í New York en þar eignuðust þau þrjú börn, tvær stúlkur og einn dreng. “Við vorum búin að ræða það að nú væri kominn tími til að flytja heim þegar árásin á tvíburaturnana var gerð árið 2001,” segir Ottó. “Eftir það var ákvörðunin auðveld,” segir hann en hann flutti heim 2002.
Munurinn á lífi læknis í Bandaríkjunum og Íslandi
“Lífið í New York er á miklu meiri hraða en á Íslandi,” segir Ottó. “Þar eru allir alltaf á fleygiferð og sem dæmi þurfa margir að verja í 1-2 klukkutímum á leiðinni til og frá vinnu. Eftir að komið er heim eftir langan vinnudag þarf fólk að nærast og þá er kominn tími til að fara að sofa til að vakna nógu snemma til að ná aftur í vinnu daginn eftir. Þetta er sannarlega öðruvísi á Íslandi og er lúxus sem við búum við og er mjög vanmetinn,” segir Ottó. “Það verður ekkert úr deginum í New York og lífið líður fram hjá fólki og áður en það veit af er það orðið gamalt og þreytt. Á Íslandi getum við unnið fullan vinnudag, farið í ræktina og átt samt eftir tíma til að verja að vild. Mér þótti lífið í NY mjög skemmtilegt á meðan á því stóð en í dag prísa ég mig sælan að vera með bækistöðvar á Íslandi. Ég vissi allan tímann að þetta þyrfti að taka enda.” Ottó minnist atvika eins og þegar þeim hjónum var boðið til veislu um áramót og hann ákvað að halla sér aðeins í sófanum á meðan Guðbjörg var að hafa sig til. Það næsta sem hann vissi var að það var kominn morgunn og þau fóru aldrei í boðið. Þá hafi hann verið orðinn örmagna og Guðbjörg ákvað að vekja hann ekki. “Svona líf þolir maður á meðan maður er ungur en það tekur sinn toll.”
Af hverju fjölgar fegrunaraðgerðum?
Ottó hefur lifað þrjár meiriháttar krísur á læknisferli sínum. Sú fyrsta var hryðjuverkin í New York 2001, önnur var kreppan 2008 og svo nú síðast covid faraldurinn. Hann segir sammerkt með krísunum þremur að fegrunaraðgerðum fjölgaði, eins einkennilegt og það er. “Ég tengi það m.a. því að við svona áföll fari fólk að hugsa meira inn á við, hugsa um heilsuna og mataræðið og bæta lífið eins og frekast er kostur og þar kemur útlitið við sögu. Þetta á sérstaklega við um fólk sem komið er á miðjan aldur því þá er það orðið þroskaðra og farið að endurmeta lífið og forgangsraða meira. Eftir því sem við eldumst gerist margt, eitt er að við höfum meiri tíma og tækifæri til að setja sjálf okkur í fyrirrúm. Þegar við erum yngri er svo margt sem gleypir tímann okkar en á miðjum aldri rennur upp skemmtilegur tími þar sem við getum frekar dekrað við sjálf okkur.” Ottó bætir við að þegar við höfum verið rækilega minnt á hverfulleika lífsins, eins og hafi gerst í þessum þremur krísum, breytist hugsunarháttur margra. “Við vorum neydd til að hugsa og endurmeta, ekki síst fólk á mínum aldri. Fólk staldrar við og hugsar “hvað langar mig að gera” og þá eru aðgerðir sem bæta útlitið nærtækar. Nú eru margar þessara aðgerða minniháttar inngrip en geta bætt líf fólks verulega.” Í því sambandi nefnir Ottó augnlokaaðgerðir sem margir fara í um miðjan aldur.
Algengar aðgerðir Ottós
Ottó segir að algengustu aðgerðir sem hann geri séu brjóstaaðgerðir, svuntur og augnlok. “Algengt er að konur fari í aðgerð á maga, svokallaða svuntuaðgerð, eftir barnsburð. Fólk velur slíka aðgerð líka ef það hefur grennst mikið.” Aðrar aðgerðir sem Ottó gerir eru andlitslyftingar og fitusog og svo minniháttar inngrip eins og bótox og fylliefni.
Munur á fjölda kvenna og karla
Ottó segir að enn sé mjög mikill munur á fjölda kynjanna þegar kemur að fegrunaraðgerðum þótt körlum hafi fjölgað undanfarið. “Ég lendi stundum í vandræðum þegar ungir menn koma til mín með væntingar um að geta litið út eins og Ronaldo en eru óánægðir með bringu sína. Þetta er dæmi um óraunhæfar væntingar því ekki er hægt að bera sig saman við mann sem æfir daglega í nokkra klukkutíma á dag eða myndir sem er búið að vinna þannig að þær sýna ekki sannleikann.”
Óraunhæfar væntingar
“Við erum eflaust að verða kröfuharðari en við vorum af því lífsgæðin eru orðin svo miklu meiri en áður,” segir Ottó. “Það er samt ekkert verra en manneskja sem kemur með óraunhæfar væntingar um árangur fegrunaraðgerðar. Við getum skammlaust sagt að eflaust geti lýtaaðgerð bætt útlit í flestum tilfellum en auðvitað geta komið tilfelli þar sem við verðum að segja að því miður sé ekki hægt að uppfylla óskir viðkomandi. Við verðum líka að vera sálfræðingar og geta lesið í það hver ástæða heimsóknarinnar er. Stundum kemur fólk af röngum ástæðum til lýtalæknisins. Og svo þegar óskirnar ganga ekki eftir var allan tímann ver af stað farið en heima setið og þá var ástæða óánægjunnar einhver allt önnur.”
Sextugt í dag er eins og fertugt í gær
Hvernig finnst þér sjálfum að eldast? “Ég finn auðvitað fyrir því að vera ekki táningur lengur en þegar öllu er á botninn hvolft kvarta ég ekki. Ég er orðinn sextugur og þegar ég skoða myndir af forfeðrum mínum á svipuðum aldri sé ég greinilega að sextugt í dag er eins og fertugt í gær. Við erum búin að breyta viðmiðum okkar mikið og erum að gera allt aðra hluti en sextugir forfeður okkar gerðu.” Ottó stundar badminton, fer á skíði og leikur golf og leggur áherslu á að vanda sig þegar kemur að lífsstíl. “Við höfum flest tækifæri til að halda okkur mun betur líkamlega en forfeður okkar gerðu og þá er engin afsökun fyrir því að láta líkamann drabbast niður.” Þar nefnir Ottó augljós atriði eins og holla hreyfingu og mataræði. Og svo leggur hann áherslu á nægan svefn. “Ef þú hvílist ekki og sefur ekki nóg tekur það sinn toll og við eldumst hraðar. Við viljum öll líta vel út fyrir okkar aldur og getum gert margt sjálf í því skyni, annað en að leggjast undir hnífinn.”
Síðari helmingur hafinn
Ottó segir að fólk sem komið er á miðjan aldur spyrji sjálft sig spurningarinnar: Hvað vil ég? “Fólk staldrar við og forgangsraðar meira en það gerði áður. Þá tekur það til við að betrumbæta sjálft sig, endurmennta, fer í heilsuátak og framkvæmir það sem það langaði alltaf til að gera. Því tengist að endurskoða útlitið og þá kemur að því að láta verða af fegrunaraðgerðinni sem það langaði alltaf í en gerði ekki. Á þessum tíma áttar fólk sig á því að síðari hlutinn er hafinn og ekki eftir neinu að bíða. Þetta getur verið eitthvað sem pirrar fólk útlitslega eins og þung augnlok eða stór brjóst sem trufla við hreyfingu. Væntingarnar verða alltaf að vera raunhæfar því við erum að gera aðgerð á manneskjunni en ekki breyta henni í einhvern annan.”
Of ungur eða of gamall fyrir lýtaaðgerðir
“Fólk þarf að vera orðið sjálfráða til að fara í slíkar aðgerðir en vaðandi þá eldri eru ekki takmörk. Það sem getur hamlað er auðvitað líkamlegt ástand eða veikindi. Auðvitað fer það eftir því um hvers konar aðgerð er að ræða. Segjum sem svo að augnlok séu farin að pirra áttræða manneskju sem gæti vel átt eftir góð tíu ár þá er aldurinn ekki fyrirstaða. Við verðum bara að laga aðgerðirnar að aldri hvers og eins.”
Ottó segir dæmi af sjúklingi sem kom til hans eitt sinn og bað hann um að fjarlægja ör á bringu sinni. “Þetta var 76 ára bóndi austan úr sveit og hann hafði farið í hjartaaðgerð,” og Ottó segir að bóndinn hafi sagt: “Sko, þetta væri nú kannski allt í lagi en þar sem ég á nú eftir góð tuttugu ár langar mig að láta laga örið því það meiðir mig svolítið,” segir Ottó brosandi og dáðist að jákvæðu viðhorfi þessa fullorðna manns. Hann nefnir annað dæmi af 75 ára gamalli konu sem kom til hans og sagði: “Ottó, þú verður að minnka á mér brjóstin því ég get bara ekkert spilað golf lengur fyrir þeim.” Þriðja dæmið nefnir hann af 72 ára gamalli ekkju sem hafði kynnst nýjum manni og langaði til að koma í svuntuaðgerð. “Konan sagði mér að þau væru alltaf á Kanaríeyjum og hana langaði svo að geta verið skammlaust í sundfötum á ströndinni. Ég aðlagaði þessa aðgerð að henni, hún varð alsæl og naut þessara efri ára með nýjum manni í sólinni.”
Myndi Ottó fara í lýtaaðgerð sjálfur?
“Já sannarlega, ef tilefni væri til. Eins og ég sagði áðan verður hver og einn að átta sig á því hvað slík aðgerð þýðir og hvað hann vill fá út úr aðgerðinni og auðvitað stilla væntingum í hóf. Myndunnar myndir í samfélagsmiðlum eiga um fram allt ekki að vera fyrirmyndin,” segir raunsæi lýtalæknirinn sem hefur breytt lífi margra.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.