Ég þekki þann tíma þegar fólk fór í heimsóknir til vina og kunningja á kvöldin og frídögum án þess að gera boð á undan sér. Nú eru þannig heimsóknir fátíðar, nema milli barna og foreldra“.
Þetta sagði einn viðmælenda Lifðu núna, þegar hann var spurður um þá breytingu sem hefur orðið síðustu áratugi á því, hvernig fólk umgengst og sækir hvert annað heim. Lifðu núna lagði þessa spurningu fyrir nokkra álitsgjafa sem eru komnir af léttasta skeiði. Einn þeirra ólst upp í sveit.
Ég man vel eftir því að pabbi og mamma skruppu á næstu bæi að kvöldi til að spjalla við fólk, og eins komu aðrir til þeirra. Vinir þeirra komu stundum og gistu þá í nokkrar nætur. Eins var alltaf farin að minnsta kosti ein dagsferð á ári til ættfólks með allan krakkaskarann“.
Fólk í þéttbýli hýsti almennt ekki gestina sem bar að garði.
Mig minnir að frændfólk og vinir hafi stundum litið við í kvöldkaffi hjá foreldrum mínum og á sunnudögum kom fólk líka í heimsókn, eftirmiðdagskaffi og svoleiðis.
Annar viðælandi sem ólst upp í sveit sagði að fólk hefði komið í heimsókn óboðið, bankaði upp á, og verið boðið til eldhúss í kaffi og spjall.
Sjálfsagður hlutur og þannig spannst „veraldarvefur“ þess tíma. Maður var manns gaman á annan hátt þá, en nú.
Ég man þá tíma þegar heimsóknir voru miklu frjálslegri en nú“, sagði annar.
Það átti sér bæði kosti og galla. Það var ekki endilega sammælst um þær og verið gat að ekki hentaði að fá gesti. Á hinn bóginn gat það auðgað lífið og tilveruna.
Það er af sem áður var. Um það eru allir viðmælendur okkar sammála. „Samskiptin eru mun minni og formlegri“ sagði einn viðmælenda. „Menn koma helst ekki, þá sjaldan þeir koma í heimsókn, nema hringja á undan sér eða senda tölvupóst!“ Annar sagði „Núna hittist fólk meira utan heimilis eða í kringum sameiginleg hugðarefni, innan heimila eða utan“.
Fólk fer saman út að borða, hittist á kaffihúsi og fer í ferðalög saman. Við hringjum á undan okkur ef okkur dettur í hug að fara í heimsókn og mér finnst það vera til bóta frá því sem áður var. En svo er óneitanlega gaman þegar einhver dettur inn úr dyrunum alveg óforvarendis. Það eru þá alltaf einhverjir sem maður þekkir vel.
Einn viðmælandi segir samskipti í vinahópum öðruvísi nú en var.
Ef ég tala bara út frá sjálfri mér þá er minn félagslegi heimur mun víðari og fjölbreyttari en foreldra minna. Sama er að segja um dóttur mína og yngra fólk í kringum mig. Samskiptin felast auðvitað enn í að hittast heima í kaffi, nú e.t.v. meira í matarboðum, en ólíkt því sem var þegar ég var að alast upp fer fólk núna saman í ferðalög, leigir saman orlofshús, er í leikhúsklúbbum, lesklúbbum, bíóklúbbum, gönguklúbbum, fer saman í ræktina eða eitthvað svoleiðis og hittist á kaffihúsum. Svo hittist fólk náttúrlega á Facebook og fylgist þar náið með hvert öðru. Það geri ég reyndar ekki.
Hraði og ný tækni setja svip á samskipti fólks í nútímanum. Einn viðmælandi lýsir því þannig.
Núna eru meiri samskipti í gegnum síma og netmiðla. Það er til mikilla bóta þegar fólk kannski býr erlendis eða í öðrum landshlutum. Það skiptir til dæmis máli með lítil börn að þau þekki afa sinn og ömmu, eða aðra ættingja sem ekki eru í næsta nágrenni, í útliti og um leið röddina. En það kemur ekki í staðinn fyrir að hittast augliti til auglitis. Nú á tímum eru allir svo uppteknir í alls konar tómstunda- og félagssstarfi að það gefst lítill tími til samskipta við annað fólk.
Hópurinn sem svaraði spurningum Lifðu núna um heimsóknir og samskipti: Atli Rúnar Halldórsson, Elín Siggeirsdóttir, Eyþór Elíasson, Sylvía Guðmundsdóttir og Valgerður Magnúsdóttir.