Tengdar greinar

Fimm ástæður til að halda áfram að vinna

Ef ég spyr fólk af hverju það haldi að fólk af hippakynslóðinni haldi áfram að vinna þegar eftirlaunaaldri er náð,  væri vinsælasta svarið, peningar.  Ég efast ekki um að það sé aðal ástæðan en mig langar að skoða það betur af hverju hipparnir halda áfram að vinna.

Hvað færir vinnan okkur?

Fyrirsjáanleiki, stöðugleiki og öryggi.

Tekjurnar færa okkur fjárhagslegt öryggi en vinnutíminn og fríið færa okkur kjölfestu og fyrirsjáanleika sem heldur lífinu gangandi.

Stöðugar áskoranir.

Bestu störfin færa okkur áskoranir, halda okkur á mörkum þægindarammans og gefa okkur tækifæri til að læra.  Störf sem leyfa ákveðna sköpun opna á möguleg ævintýri, lærdóm og örvun.

Sjálfsmynd.

Við höfum ákveðna sjálfsmynd í vinnunni sem sýnir hver við erum með því hvernig við vinnum, hvað við vitum og hvað við getum.

Vinnumenningin.

Vinnuumhverfið býr til ákveðnar venjur og samskiptamáta sem saman skapa vinnumenninguna sem við tilheyrum.  Með góðum yfirmanni líður okkur eins og við séum hluti af heild sem saman stefnir að ákveðnu markmiði.

Persónulegur vöxtur.

Í vinnunni gefast næg tækifæri til að vaxa og gefa af sér.  Hvort sem það eru námskeið eða að læra nýja hluti í vinnunni. Fyrirtæki sem skapa gott námsumhverfi gefa okkur tækifæri til að halda áfram að vaxa.

Eftirlaunaaldurinn sviptir okkur örygginu

Þegar þú hættir að vinna er öllu ofantöldu kippt undan fótunum á þér í einu vetfangi.  Það er enginn fyrirsjáanleiki, stöðugleiki eða öryggi í því að horfa á  óskipulagðar vikurnar líða hjá.

Við þurfum að fara út til að sækja okkur örvun og áskoranir ásamt tilfinningunni um að tilheyra einhvers staðar.  Sjálfsmynd okkar er ekki lengur skilgreind út frá vinnunni, við erum bara eftirlaunafólk.

Við þurfum að læra frá grunni hvernig við eigum að vera eftirlaunafólk.  Ef við höfum ekki undirbúið okkur vel þurfum við að læra að finna tækifæri til vaxtar, þannig að við getum lagt eitthvað af  mörkum.

Þar af leiðandi ákveða margir að halda áfram að vinna og ná þannig að halda kjölfestunni.  Og af hverju ekki ef þú átt 10-20 góð ár eftir áður en þú verður gamall og hrumur.  En hvernig ferðu að því að halda áfram að vinna þegar eftirlaunaaldri er náð?

Sumir halda áfram að vinna í sínu fagi

Sumir vilja halda áfram að vinna að því sem þeir þekkja best og kunna.  Finna öryggi í því sem þeir eru vanir.

Þeir leita að verktakavinnu í sínu fagi, taka að sér einstaka verkefni eða reyna jafnvel að halda áfram að vinna hjá sama fyrirtæki, í fullu eða hálfu starfi eða með því að taka að sér ákveðin afmörkuð verkefni. .

Þeir hafa mikla og góða þekkingu og færni, sem þeir hafa aflað sér á löngum tíma.

Leiðbeinendur eða sjálfboðaliðar

Ef peningar eru ekki aðalmálið eru einhverjir sem ákveða að gerast sjálfboðaliðar eða leiðbeinendur til að miðla þekkingu sinni.  Eftir 40 ára starsferil höfum við upp á ýmislegt að bjóða sem getur nýst yngri kynslóðinni.  Af hverju ekki að aðstoða hana, það er óþarfi að finna upp hjólið mögum sinnum.

Þörfin til að leggja sitt að mörkunum virðist verða sterkari með aldrinum.  Kannski það sé þörf til að skilja eitthvað eftir sig.  Margar konur hafa mikla þörf til að leggja sitt að mörkum eftir sextugt og gefa til baka til samfélagasins.

Vinnan bætir tilgangi við langt líf okkar

Læknisfræðin gerir ráð fyrir að flest okkar muni lifa löngu lífi að því gefnu að við lifum heilbrigðu lífi.

Ef ég get treyst genunum mínum get ég gert ráð fyrir að verða 90 ára.  Ég hef sterka þörf fyrir að nýta öll þessi ár á sem bestan hátt, þannig að þau skipti máli fyrir mig og þá sem eru í kringum mig.  Þess vegna ætla ég að halda áfram að vinna eins lengi og ég get.

 

Þessi grein eftir Hilary Henderson er þýdd og endursögð af vefnum www.sixtyandme.com.

 

Ritstjórn apríl 8, 2021 07:24