Flestir þeirra sem mjaðmabrotna eru komnir yfir fimmtugt eða níu af hverjum tíu. Raunar var meðalaldur kvenna sem komu á Landspítalann, á árunum 2008 til 2012, með mjaðmabrot 83 ár en karla 82 ár. Þetta er meðal þess sem kemur fram í meistaraprófsritgerð Sigrúnar Sunnu Skúladóttur hjúkrunarfræðings.
Konur í meiri áhættu
Rúmlega þúsund manns komu á Landspítalann með mjaðmabrot þessi fjögur ár. Konurnar voru tvöfalt fleiri en karlarnir. Sigrún Sunna segir að líklegasta skýringin á því sé að konur fái frekar beinþynningu en karlar. „Þær eru því í meiri áhættu ef þær detta,“ segir hún.
Flestir úr póstnúmeri 105
Flestir sem leituðu til Landspítalans vegna mjaðmabrots voru af höfuðborgarsvæðinu og flestir úr póstnúmeri 105. Annað merkilegt sem kom fram í rannsókninni var að flestar komur á bráðdeild vegna mjaðmabrota voru á milli klukkan tólf á daginn og fram til klukkan fjögur. Flestir komu á þriðjudögum og mun fleiri brotnuðu yfir vetrarmánuðina en sumartímann. Hjúskaparstaða skiptir líka máli því margfallt fleiri ekkjur og ekklar mjaðmabrotna en þeir sem eru giftir eða í sambúð.
Konur bíða í styttri tíma
Sigrún Sunna segir að skjóta og góða þjónustu þurfi til að stilla verki og draga úr líkum á fylgikvillum þeirra sem mjaðmabrotna og er skurðaðgerð þá árangursríkust. Í rannsókninni kom fram að karlar bíða lengur eftir skurðaðgerð en konur, þær biðu að meðaltali í 18,9 klukkustundir en karlarnir í 21,5.
Heilsufar karlanna verra
Dánartíðni kvenna innan þriggja mánaða frá aðgerð var 11 prósent en karlanna helmingi hærri eða 22 prósent. „Dánartíðni karla er í skoðun en það sem komið hefur fram í gögnunum okkar er að karlar eru frekar fjölveikir en konur. Þegar karlmenn brotna virðist því heilsufar vera verra í grunninn en kvennana sem aftur eykur líkur á verri afdrifum í kjölfar skurðaðgerðarinnar,“ segir Sigrún Sunna.
Breytingar á spítalananum
Sigrún Sunna segir að nú sé unnið að breytingum á verkferlum á Landspítalanum. „Það er verið er að gera breytingar á verkferlum og hjúkrunarmeðferðum sem snúa að þessum skjólstæðingahóp á fleiri en einu sviði. Til dæmis er verið að huga að styttingu og nýtingu biðtíma til dæmis til þess að bæta næringarástand fólks, huga að sýkingarvörnum og betri verkjastillingu,“ segir hún.