Níræðir á tölvunámskeiðum

Stundum er því haldið fram að í nútímaþjóðfélagi sé jafn mikilvægt að vera upplýsingalæs og læs á texta, en með því er átt við að geta notað netið sem tæki til að lesa, skrifa og eiga samskipti við aðra. Tæpast er hægt að væna eldri kynslóðina um að vera ekki námfús því samkvæmt þessari grein á lifdununa.is kom fram að 81% fólks á aldrinum 65 – 74 ára notaði netið daglega – fyrirbæri sem var varla meira en hugmynd vísindamanna úti í heimi þegar það óx úr grasi. Þótt ekki liggi fyrir upplýsingar um net- og tölvunotkun fólks, sem er eldra en 75 ára, víla margir í þeim hópi ekki fyrir sér að sækja tölvunámskeið og gera sig gildandi í netheimum.

„Við erum sífellt að fá færari nemendur,” segir Ragnheiður Guðmundsdóttir, ein þriggja tölvukennara hjá Promennt ehf. á svokölluðum 60+ tölvunámskeiðum. Sjálf hefur hún kennt eldra fólki á tölvur í hartnær fimmtán ár. „Námskeiðin eiga miklum vinsældum að fagna, nemendur eru flestir á milli sextugs og sjötugs, en líka yngri og allt upp í nírætt. Og þeir eru ekkert síður áhugasamir og duglegir. Kennslan er miðuð við þarfir hvers og eins og því kemur ekki að sök þótt einhverjir í hópnum, sem yfirleitt samanstendur af sjö til tólf nemendum, kunni minna fyrir sér en aðrir, eða jafnvel nákvæmlega ekki neitt. Þegar áhuginn vaknar kemur færnin ótrúlega fljótt, aðalatriðið er að fólk hafi gaman af og sjái tilganginn með náminu, ” segir hún og nefnir sem dæmi áhugasama og fróðleiksfúsa níræða konu, sem af öðrum bar í dugnaði og var einstaklega fljót að tileinka sér tæknina.

Þurfa að yfirstíga hræðsluna

Í upphafi námskeiðanna kveðst Ragnheiður kanna hvar hver og einn sé staddur, síðan spjalli hún um tölvuna, innviði hennar og fylgihluti; mús, skjá og lyklaborð, og útskýri hvernig eigi að umgangast tölvuna og ræsa hana. Því næst lýsi hún mismunandi stýrikerfum, sem hún líkir gjarnan við skrifborð. Slíka myndlíkingu segir hún hafa gefist vel, þannig eigi fólk auðveldara með að átta sig hvar eigi að vista skjöl og koma reglu á hlutina. Aðspurð kveðst hún ekki geta dæmt um hvort eldra fólk eigi erfiðara með að læra á tölvu en unga fólkið. Nám liggi einfaldlega misvel fyrir fólki, námskeiðin séu grunnkennsla í tölvunotkun og nemendur því ekki tölvuvanir.

,,Þeir eru kannski örlítið hægari,” viðurkennir hún. „Annars finnst mér athyglisvert að sumir hafa á orði hversu þolinmóðir við kennararnir séum. Þeir segjast ekki eiga því að venjast að þeirra nánustu gefi sér tíma til að útskýra svona vel,” bætir hún við. Um væntingar þeirra til námskeiðsins nefnir hún að þeir vilji fyrst og fremst læra að afla sér upplýsinga, nota tölvupóst og komast í heimabankann. ,,Ég legg áherslu á að þeir yfirstígi hræðsluna við að gera eitthverja vitleysu, til dæmis þótt þeir ýti óvart á rangan takka eða upp á skjáinn dúkki gluggi með einhverri torskildri orðsendingu.”

Tölvulæsi á þátt í að rjúfa einangrun fólks

Ragnheiður upplýsir að gjafabréf á námskeiðin og jafnvel fartölvur hafi verið vinsælar jólagjafir handa afa og ömmu undanfarin ár, enda komi eldra fólk stundum á námskeiðin fyrir hvatningu sinna nánustu. „Tölvulæsi á mikinn þátt í að rjúfa einangrun gamals fólks. Því opnast ný sýn og ef það heldur áfram og lærir meira en undirstöðuatriðin getur það átt samskipti við vini og vandamenn á Facebook og Skype, svo fátt eitt sé talið,” segir hún. „Svo væri líka til í dæminu að ekki líði á löngu þar til gamla fólkið fáist ekki út úr húsi af því það er svo límt við tölvuna!”

Hún bendir á að tækniþróunin verði ekki stöðvuð. Þótt eldra fólk noti netið enn sem komið er í minna mæli en þeir sem yngri eru, megi velta upp hvort það sé einungis tímabundið ástand, annað verði upp á teningnum þegar kynslóðin, sem ólst upp við tölvur frá blautu barnsbeini, eldist. ,,Hugsanlega verður tækniþróunin svo hröð – að rétt eins og núna, dragist eldra fólkið aftur úr í framtíðinni,” segir Ragnheiður.

 

Ritstjórn júlí 29, 2014 10:00