Eitt af mörgum áhugamálum Sigurbjörns Helgasonar er fuglasmíði en þessa iðju hefur hann stundað í yfir 30 ár. Mest ber á íslenskum vaðfuglum og svo hreinum ævintýrafuglum, í öllum stærðum og gerðum, í hans smiðju. Hann hefur lagt eitt herbergi heimils þeirra Fríðu S. Haraldsdóttur í Bólstaðarhlíðinni undir þetta skemmtilega áhugamál en fuglar hans sem og önnur listaverk prýða fallegt heimili þeirra. Þar er að finna ólíka fugla, málverk og falleg listaverk úr íslenskum steinum sem hann hefur unnið.
Sigurbjörn er menntaður myndmenntakennari frá MHÍ og starfaði sem slíkur í grunnskólum Reykjavíkur þar til hann fór á eftirlaun árið 2019.
Hönnunarsafn Íslands
Sigurbjörn var beðinn um að flytja hluta af vinnustofunni sinni í safnabúð Hönnunarsafns Íslands tímabundið á síðasta ári sem hann og gerði. Þar fékk hann það verkefni að smíða fugla, stóra og smáa, á meðan gestir og gangandi gætu fylgst með. Hvernig kom það til?
,,Sigríður Sigurjónsdóttir forstöðumaður Hönnunarsafnsins hafði séð fugla eftir mig á Safnasafninu í Eyjafirði. Í kjölfarið falaðist hún eftir því hvort ég vildi flytja hluta af vinnustofunni minni í safnabúð Hönnunarsafnsins í þrjá mánuði. Mér fannst það alveg sjálfsagt og um miðjan september 2020 var ég fluttur þar inn og var með verkstæðið opið fjóra daga vikunnar frá klukkan 12:00 – 17:00 til áramóta. Ég var auðvitað aðeins með hluta af verkstæðinu mínu því eins og gefur að skilja þá hefur safnast mikið og gott safn af verkfærum á langri ævi.
Veirufaraldurinn setti þó sitt strik í reikninginn en ég mætti alla daga og fólk kom og gat fengið að fylgjast með vinnunni minni. Það var búið að fyrirhuga námskeið í tengslum við þessa opnu vinnustofu en af því varð ekki vegna ástandsins. Í staðin var hægt að útbúa föndurstreymi þar sem ég kenndi fólki að búa til pappírsfugla. Það gekk vonum framar og ég fékk góð viðbrögð og það urðu til margir skemmtilegir pappírsfuglar hjá þeim sem lögðu sig fram um að horfa á myndbandið og fara eftir þeim leiðbeiningum sem þar komu fram.“
Íslenskir vaðfuglar og ævintýrafuglar
Hvaða fugla smíðar þú einna helst?
,,Ég hef mest smíðað íslenska vaðfugla og svo hreina ævintýrafugla í öllum stærðum og gerðum og málað þá síðan eins og mér hefur þótt fara best. Ég hef alla tíð haft mikinn
áhuga á íslenskri náttúru í sinni víðustu mynd og ekki síst fuglum. Ég hef smíðað hrafn, skarf, uglu og fleira. Vaðfuglarnir eru heillandi flokkur fugla en hér á landi verpa ellefu tegundir vaðfugla að staðaldri. Ég hef smíðað marga þeirra eða fugla eins og óðinshana, stelk, spóa og sérstakt dálæti hef ég á jaðrakaninum svo eitthvað sé nefnt en vaðfuglarnir eru bæði fallegir og skemmtilegir. Þeir eru félagslyndir og ferðast saman í stórum og smáum hópum, þyrpast í æti saman og hvílast á þéttskipuðum flóðsetrum. Það er auðvelt að þekkja þá í sundur á stuttu færi og þeir eru svo algengir að hver og einn getur komist í sjónmál við þá flesta yfir sumarið.
Það eru þó ævintýrafuglarnir mínir sem ég nýt ekki síður að smíða. Efniviðurinn hverju sinni ræður för og hann og ímyndunaraflið mitt ræður útkomunni. Þeir eru ófáir slíkir fuglarnir sem hafa orðið til í smíðastofunni minni.“
Hvaða efnivið notar þú helst?
,,Ég nota það efni sem ég finn hverju sinni á ferðum mínum um landið eins og t.d. rekavið, girðingarstaura, fallegar eða sérkennilegar spýtur eða í raun er það svo að þegar ég sé eða finn eitthvað bitastætt þá tek ég það með mér heim og úr verða einhverjir fuglar – vaðfuglar eða ævintýrafuglar. Ég hef unnið úr birki, furu og eik sem og notað að auki ýmis horn eins og t.d. hreindýrshorn og buffalahorn.“
Fuglar hafa færri fætur!
Er þetta skemmtilegt áhugamál?
,,Já, mjög skemmtilegt. Ég er aldrei að fást við það sama og í raun er alltaf spennandi að sjá hvað kemur út úr hverjum spýtukubb. Útkoman kemur mér alltaf á óvart.“
Hvers vegna urðu fuglar fyrir valinu hjá þér frekar en önnur dýr?
,,Ég segi nú oft í gamni að þeir hafa færri fætur en önnur dýr! Nei, í raun og veru hef ég alla tíð haft mikinn áhuga á fuglum og það eru komin yfir 30 ár síðan ég smíðaði minn fyrsta fugl. Við hjónin erum mikið áhugafólk um íslenska náttúru og höfum áhuga á öllu því sem snertir náttúruna hvort það eru jurtir steinar eða dýr. Fuglarnir hafa kannski staðið mér næst og ég kunni fljótlega skil á flestum fuglum og hef alla tíð notið þess að skoða þá. Svo hef ég mikla unun af því að hanna hluti svo þetta tvennt fullnægir þeirri þörf minni.“
Hvað tekur það þig langan tíma að smíða einn fugl?
,,Það fer alveg eftir því hvað ég er að gera hverju sinni. Litlu fuglarnir taka um það bil tvo daga í vinnslu með öllu s.s. að smíða þá og líma og láta límið þorna. Stóru fuglarnir taka mun lengri tíma og það getur tekið allt upp í nokkrar vikur frá því ég byrja með spýtu í hendinni og þar til fuglinn er fullkominn. Ég byrja alltaf á því að teikna fuglinn áður og hanna fjaðrir og fleira í pappír fyrst áður en ég byrja á smíðinni. Þó er það svo að þegar ég byrja með einn spýtukubb verður útkoman oftast allt önnur en ég ætlaði í upphafi.“
Eftirlaunaárin
Sigurbjörn er kominn á eftirlaun og hefur rýmri tíma en áður til að sinna þessu áhugamáli sínu. Breytir það miklu?
,,Já, það gerir það að sjálfsögðu. Nú þarf ég ekki að vakna snemma á hverjum morgni til vinnu heldur get ég notað tímann til þeirra hugðarefna sem mér sýnist hverju sinni. Ég smíða þegar ég nenni og staðreyndin er auðvitað sú að það eru svo margir fuglar sem á eftir að smíða þannig að mér veitir ekki af því að halda mér að verki! Annars er það svo að ég hef mjög gaman af mörgum hlutum og öðrum en fuglunum mínum eins og t.d. allri útiveru, að spila golf, og að ganga hvort sem það er í borg eða á fjöll. Við hjónin sækjum mikið í listir og menningu og njótum lífsins eins og við getum. Þegar ég fór á eftirlaun þá var ég svo lánsamur að barnabörnin mín vantaði félagsskap tímabundið áður en þau komust inn á leikskóla. Það voru góðir dagar og ég naut hverrar mínútu. Það er nefnilega rétt eins og margir hafa sagt að það er allt annað að eignast barnabarn en sín eigin börn. Þá var maður ungur og hafði kannski hvorki tíma né orku til að fylgjast með öllum þessum litlu hlutum sem eiga sér stað í þroska barnsins eins og maður hefur núna þegar maður er kominn á eftirlaun. Þroski þessa litlu anga er eitt stórt kraftaverk.“
Hefur þú hug á að halda námskeið í fuglasmíð fyrir áhugasama?
,,Það hefur nú ekki komið til tals og ég hef ekkert slíkt á prjónunum. Það er þó aldrei að vita hvað gerist. Það veit enginn sína ævina fyrr en öll er. Ef áhugi er fyrir hendi og réttur tími þá veit enginn hvað gerist.“
Halldóra Sigurdórsdóttir skrifar.
Myndirnar á safninu eru teknar af Vigfúsi Birgissyni.