Á þessu ári kemur út önnur þáttaröð um gullna tímabilið eða The Gilded Age. Þetta er bandarískt búningadrama og gefur Downton Abbey, Upstairs, Downstairs, All Creatures Great and Small, The Forsyte Saga og fleiri slíkum ekkert eftir. Það er enginn annar en Julian Fellows sem skrifar handritið en líklega hafa fáir náð jafnmikilli leikni og hann í að endurskapa andrúmsloft fyrri tíma í gegnum einstaklega áhugaverðar persónur.
Fyrsta röðin sló í gegn á síðasta ári enda eru það engar smáleikkonur sem bera þættina uppi, Christine Baranski, Carrie Coon, Cynthia Nixon og Jeanne Triplehorn. Nokkrar ungar og mjög svo áhugaverðar leikkonur fengu líka gott tækifæri til að sýna hvað í þeim býr en The Gilded Age hverfist nefnilega fyrst og fremst um konur. Louisa Jacobson, Denée Benton, Taissa Farmiga og Donna Murphy eru hreint frábærar í sínum hlutverkum. Þess má geta að Louisa á ekki langt að sækja hæfileikana en hún yngsta dóttir Meryl Streep.
Seint á nítjándu öld var mikill uppgangstími í Bandaríkjunum. Þetta voru árin þegar bandaríski draumurinn rættist fyrir marga og margur iðnjöfurinn varð til úr engu. George Russell er einn þeirra. Hann byggir einstaka höll fyrir fjölskyldu sína á horni Fimmta strætis og Sextugustu og fyrstu götu en peningar og völd veita ekki aðgang á háaðlinum í New York. Það gerir Agnes Van Rihjn bróðurdóttur sinni, Marian, fullljóst þegar hún kemur til að búa hjá henni og systur hennar, Ödu, eftir að faðir hennar deyr. „Það eru þeir gömlu og þeir nýju,“ segir hún.
Frábær persónusköpun
Eiginkona George, Bertha Russell, er hins vegar metnaðargjörn og ætlar ekki að sætta sig við að vera hornreka. Unga fólkið, Marian, Gladys og Larry Russell, Carrie Astor og Oscar Van Rihjn líta málin hins vegar öðrum augum. Þau vilja verða vinir og helst ekki taka þátt í þessum átökum milli hins gamla og hins nýja. Peggy Scott er þeldökk, vel menntuð og hæfileikarík stúlka. Hún kemur frá Brooklyn og fyrir tilviljun kemur hún Marian til hjálpar og Agnes býður henni starf sem einkaritara hjá sér í kjölfarið. Hún þráir að verða blaðamaður og rithöfundur en þótt hvítar konur hafi þarna þá þegar fengið einhver tækifæri, samanber Louise May Alcott og fleiri, á hið sama ekki við um konur af öðrum hörundslit.
Allt þetta er auðvitað frjór jarðvegur fyrir spennandi atburðarrás og áhorfendur eiga sínar uppáhaldspersónur. Julian Fellows hefur einstakt lag á einmitt þessu að búa til persónur sem hafa bæði styrkleika og veikleika, eru einhvern veginn svo raunsannar að fólk verður áhugasamt um örlög þeirra, fer jafnvel að þykja vænt um þær. Fjölskyldan, jafnt og þjónustufólkið á Downton Abbey var beinlínis orðið heimilisvinir hjá mörgum áður en serían hætti og hugsanlega verður það eins með þessa nýju þætti þótt þeir gerist í hringiðu stórborgarinnar vestan hafs.
Ólíkt Chris Van Dusen sem skrifaði handrit að Bridgerton-þáttunum kýs Julian Fellows að sýna veruleikann eins og hann var á þessum árum. Rasismi er ríkur og svartir og hvítir lifa nánast algjörlega aðskildu lífi. Við kynnumst þeirri hlið mála mjög vel í gegnum sögu Peggy. Hún og Marion ná vel saman því báðar eru utangarðs, metnaðarfullar og langar að skapa sér sjálfstætt líf en hvorug er í aðstöðu til þess þótt af ólíkum ástæðum sé. Vinátta þeirra er sérstök en verðmæt fyrir báðar. Nú og svo má ekki gleyma þjónustufólkinu. Rétt eins og í Downton Abbey er líf þeirra samofið örlögum húsbændanna en í eldhúsinu eru líka viljasterkir karakterar með eigin markmið og stefnu í lífinu. Það er því nokkuð ljóst að Julian Fellows hefur enn og aftur náð að skapa eitthvað sem á eftir að draga milljónir að sjónvarpstækjunum.
Mannlegt eðli alltaf eins
Ekki er úr vegi að rifja upp nokkra af þeim þáttum sem flokka má sem búningadrama og nefndir hafa verið hér að ofan. Segja má að þeir endurspegli að mannlegt eðli er alltaf eins og samskipti fólks og örlög frábærra persóna verða okkur alltaf hugleikin.
Saga Forsyte-ættarinnar byggði á skáldsögum Johns Galsworthy og voru framleiddir á árunum 1967-1969. Þeir voru sýndir hér í árdaga sjónvarpsins og voru geysivinsælir. Leikurinn var endurtekinn hjá BBC árið 2002 þegar tvær nýjar þáttaraðir voru gerðar eftir bókunum. Þess má geta að John Galsworthy var meðal handritshöfunda fyrstu þáttaraðanna og hann hlaut Óskarsverðlaunin fyrir bækurnar.
Dýrin mín stór og smá eða All Creatures Great and Small eru þættir einnig byggðir á bókum. Dýralæknirinn Alf Wright hóf að skrifa eftir að hann dró sig í hlé frá dýralæknastarfinu og valdi sér höfundarnafnið James Herriot. Bækur hans urðu feykivinsælar og fyrstu þættirnir litu dagsins ljós hjá BBC árið 1978. Þeir voru einnig sýndir hér og eins og ávallt með gott efni var leikurinn endurtekinn. Í fyrra hóf RÚV að sýna fyrstu seríu í nýrri þáttaröð gerðri eftir bókunum. Sería þrjú er í framleiðslu í Bretlandi og án efa munu bæði tvö og þrjú rata hingað. Þetta er vandað efni, fyrst og fremst um mannleg samskipti, heilindi og náungakærleik þótt dýr leiki auðvitað líka hlutverk í þeim.
Upstairs, Downstairs eða Húsbændur og hjú eins og þeir hétu í íslensku þýðingunni fóru fyrst í loftið í Bretlandi árið 1971. Þeir voru ólíkt hinum ekki byggðir á bókum en handritshöfundar voru margir. Þetta voru frábærir þættir um þær þjóðfélagsbreytingar sem Bretland gekk í gegnum á árunum 1903-1930 og lýstu á einstaklega mannlegan hátt samskiptum húsbænda og hjúa en einnig því gríðarlega umróti sem einkenndi þennan tíma. Iðnbyltingin er í fullum gangi með þeim tækifærum sem hún veitti lægri stéttum til aukinnar fjölbreytni í atvinnu en hafði einnig margvísleg alvarleg þjóðfélagsmein í för með sér. Sársaukinn sem félagslegt óréttlæti skapaði er mjög vel endurspeglaður í þessum þáttum, einkum í þeim er gerast í fyrri heimstyrjöldinni. Þar þurrkaðist út nær heil kynslóð ungra manna í Bretlandi og óhjákvæmilega hafði það margvísleg áhrif á tíðarandann. Síðasta þáttaröðin var gerð árið 1975 en hér á landi voru þeir í sýningu fram undir áratugamótin.
Steingerður Steinarsdóttir blaðamaður Lifðu núna skrifar.