Grétar Júníus Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar:
Þau sem stjórna hér á landi hafa verið iðin við að benda á hvað kaupmáttur launa hefur vaxið á umliðnum árum. Fullyrt er að mikið hafi verið gert til að bæta hag allra, þó sérstaklega láglaunafólks og þar með talið öryrkja og þeirra eftirlaunaþega sem minnst hafa. Á meðan þau þakka sjálfum sér fyrir árangurinn hefur minna verið gert úr því hvernig ávinningurinn hefur, að hluta til að minnsta kosti, verið hirtur af fólki í gegnum tekjutengingar og álögur. Slíkt hefur reyndar ekki hvað síst bitnað á þeim sem minnst bera úr bítum á meðan þeir efnuðust hafa grætt vel. Það versta í sambandi við þessi mál og ýmis fleiri er hve erfitt er að fá fram hvernig staðan raunverulega er, þrátt fyrir að allar upplýsingar séu til. Stjórnvöld virðast lítinn áhuga hafa á að gera bragarbót þar á.
Þegar ráðemenn þakka sjálfum sér mikinn árangur af því að bæta hag almennings eru lýsingarnar oft hástemdar. Þeir segja til að mynda ánægjulegt að sjá að allir í þjóðfélaginu hafi það betra nú en áður. Allir. En þá fylgir hins vegar gjarnan með, að þó svo að mikið hafi verið gert fyrir hina lægstlaunuðu þá sé alltaf hægt að gera betur. Hvað er að marka svona yfirlýsingar? Ef áhugi væri fyrir hendi til að bæta í raun hag allra, líka þeirra lægstlaunuðu, þá myndu stjórnvöld að minnsta kosti taka jákvætt í kröfur um að það þurfi að tryggja öllum laun sem duga fyrir framfærslu samkvæmt framfærsluviðmiðum stjórnvalda sjálfra. Svo er hins vegar ekki. Slíkar kröfur eru sagðar út út öllu korti og óábyrgar. Það er nefnilega ekki sannfærandi þegar sumir segja að það sé hægt að gera betur. Þá er oft verið að þykjast.
Það þarf að bæta upplýsingaflæðið í samfélaginu. Næsta víst er að vel upplýstur almenningur stuðlar að bættu stjórnarfari, sem kannski gæti skilað sér í því að stjórnmálamenn finni sig knúna til að standa kannski betur við loforð sín. Ábyrgð fjölmiðla í þeim efnum er mikil. Fjölmiðlar standa sig almennt vel í því að segja okkur frá því sem er að gerast. Við fáum til að mynda ágætis upplýsingar um gang kjaraviðræðna hverju sinni. Okkur er einnig gjarnan greint skilmerkilega frá erfiðleikum fólks í samskiptum þess við heilbrigðiskerfið. Og oft heyrum við af erfiðleikum heilbrigðisstarfsmanna, svo fátt eitt sé nefnt. En þetta er ekki nóg. Við þurfum meira ef við viljum geta veitt sjórnvöld það aðhald sem þau þurfa. Það nægir nefnilega ekki að fjölmiðlar segi bara frá. Þeir verða að geta sinnt eftirlitshlutverki sínu, kafað ofan í mál og greint þau til botns. Þannig getur almenningur gert hið sama, tekið þátt í rökræðum og beitt gagnrýninni hugsun.
Stjórnmálamenn komast allt of oft upp með að þvæla málum fram og aftur og flækja þau og sleppa því að ræða málefnin af alvöru. Að undanförnu hefur ekki skort fjölbreytni í þessum efnum og uppákomur þar sem ráðamönnum eða öðrum hefur tekist að tala út og suður þannig að útkoman er að mestu tómt karp eða rifrildi. Þegar upp er staðið í slíkum tilvikum situr oftast fátt eftir. Reyndar læðist gjarnan að sá grunur, að það sé einmitt megin tilgangurinn oft á tíðum.
Fyrir nokkru fullyrti fjármálaráðherrann að einungis um 1% af starfandi fólki á vinnumarkaði væri á lágmarkslaunum. Verkalýðsleiðtogar, prófessorar og fleiri svöruðu um hæl, vísuðu þessu á bug, vitnuðu meðal annars í upplýsingar Hagstofunnar, og sögðu hlutfallið miklu hærra, jafnvel allt upp í tæplega 40%.
Ef við reynum að vera jákvæð þá væri kannski hægt að skýra þennan skoðanaágreining varðandi lágmarkslaunin að hluta til að minnsta kosti með mismunandi túlkun á upplýsingum. En þetta flækir og drepur málum á dreif, sem er auðvitað heppilegt fyrir suma, enda miklir hagsmunir í húfi. Það er svo mikið til af upplýsingum í þjóðfélaginu um tekjur og eignir almennings að það er án efa einfaldasti hlutur í heimi að allt í þessu sambandi sé uppi á borðum. Raunverulegur áhugi virðist bara ekki vera fyrir hendi.
Að öðru: Fyrirhuguð brottför Breta úr Evrópusambandinu gengur brösuglega. Því hefur verið haldið fram að hluta skýringarinnar á þeim vanda sem ráðamenn í Bretlandi standa frammi fyrir megi rekja til þess hve lélegir þeir eru í því að ræða málin. Sagt er að sumir þeirra tali helst ekki við fólk, hvorki skoðanabræður né andstæðinga í stjórnmálum, og reyndar ekki við nokkurn mann yfir höfuð. En erum við eitthvað skárri? Raunverulegar rökræður um hin margvíslegu málefni, þar sem leitast er við að komast að samkomulagi um útfærslur, eru ekki beint áberandi í opinberri umræðu hér. Það er auðvelt að sýna fram á að ef áhersla væri lögð á slíkar samræður þá gæti það stuðlað að betri umfjöllun um málefni og betri stjórnsýslu að minnsta kosti flestum til hagsbóta. Þetta gerist hins vegar ekki nema stjórnvöld fari á undan með góðu fordæmi. Þar vantar hins vegar mikið upp á. Breska leiðin virðist miklu oftar verða fyrir valinu hér eins og þar.