Gerður í Flónni -frjáls eins og fuglinn

Gerður Pálmadóttir.

Gerður Pálmadóttir eða Gerður í Flónni er með allra frumlegustu og skemmtilegustu konum á Íslandi. Hún hefur ákveðnar skoðanir, hefur ætíð farið ótroðnar slóðir og það er ekki trúlegt að það muni breytast. „Nú er ég frjáls eins og fuglinn, ekkert starfsfólk, engin binding, get gert allt sem ég vil hvar sem ég vil,“ segir hún glaðlega þegar blaðamaður Lifðu núna hittir hana á kaffihúsi í Hafnarfirði. Hún sest og segir svo „Annars hefur mér alltaf fundist mest gaman að því sem ég er að gera hverju sinni, ég dett inn í verkefni og týnist þar.

Mér finnst ekkert að því að eldast, mun betri kostur en hinn, en það er hundfúlt að sjá hvað kertið er farið að styttast í annan endann. Tíminn líður svo ótrúlega hratt. Annars held ég að það væri alveg sama þó úthlutunin væri 130 ár það kæmist ekki nema brot af verkefnalistanum í framkvæmd. Það er einfaldlega alltaf of stutt úthlutun fyrir hvert og eitt mannslíf.“

Hún Skjóða er yndi

Um þessar mundir er Gerður með verkefni sem ber nafnið Hulduheimar í þróun en það hefur verið á bið frá

Barnabörnin Ernir Þór og Gerður Lind komin í vinnu hjá ömmu.

því árið 1993. Hulduheimar eru samofnir íslenskri náttúru og menningu, þeir eru uppspretta óteljandi þjóðsagna og ævintýra og halda áfram að vera það um alla tíð. Hávamálin skila þar grunnlínum siðmenningar og norrænu goðin hafa skilið þar eftir sinn arf. Allar verur og vættir Hulduheima lifa sem eitt með náttúrunni og hafa það markmið að endurtengja vitund og tengsl mannanna við hana. Leiðindaskjóða, kölluð Skjóða var send til mannheima með það að takmarki. Öll þekkjum við Skjóðu, en fæstir vita hvað hún er hrikalega skemmtileg og góð. Hún er sú sem aðstoðaði krakkana sem Grýla hefur tekið til sín og hótað að éta, en það var bara blöff. Grýla er náttúrutröll og henni ofbýður ruslavæðing mannanna sem snertir allt líf alveg eins í Hulduheimum sem í mannheimum, og því ætlar hún sér að kenna mannfólkinu að skilja að það sjálft er partur af náttúrunni og saman verða allir að umgangast hana með varúð og umhyggju. Hulduheimar eru risaverkefni sem snertir allt landið, en það er ekki tímabært að skýra það allt núna, enda enn í þróun. En velkomið að kíkja á facebook síðu Hulduheima

Allir voru eins- Flóin fæðist

Með sölubás á Lækjartorgi

Gerður útskrifaðist úr Versló 1966 og úr grafíkdeild Myndlistar- og handíðaskólans 1980. Samhliða skólanum seldi hún fatnað á torginu, aðallega frá Hollandi og gamla lagera frá íslenskum fataverksmiðjum t.d. skyrtur úr VÍR, það urðu allir að eignast VÍR skyrtu, kraganum var vippað í burtu á staðnum, kragalaus skyrta, töff.

Hvað kveikti þá hugmynd að selja á Lækjartorgi? Málið var að mér fannst allir vera eins, sama snið, sami litur, sami taktur, hrikalega grátt og frekar dapurlegt og ekkert annað að fá. Ég var í sumarvinnu á auglýsingastofu þar var Hollensk stelpa í sumarvinnu og hún var í gömlum geggjuðum skyrtum og hermannabuxum, þetta fékkst hvergi hérna. Það gekk ekki, svo ég skellti mér á puttanum með Íscargo til Rotterdam og keypti inn á mörkuðum og þar sem enginn markaður var hér mætti ég á torgið með góssið á einni slá. Ég var á torginu alla laugardaga og oftar en ekki eins og frostpinni, hrikalega kalt, en það var gaman. Ég kynntist öllum í bænum. En með vorinu þiðnaði ég upp og ákvað að flytjast undir þak og þá fæddist Flóin í Hafnarstræti 16, þar sem SÍM er í dag. Flóin varð eins og félagsmiðstöð, fullt hús fata frá spennandi tímabilum og bústýra þar var Helga Mogensen með Hönnu dóttur sína í dúkkuvagni og ég. Ég sá um innkaupin með mín börn, Pálma og Svönu sofandi aftur í bílnum og fatnaði staflað ofan á þau. Vandamál? Ekki til. Þegar eitthvað vantaði var það bara saumað og séð til að það passaði við það sem fyrir var, þannig þróaðist eigin hönnun og framleiðsla undir merkinu Flóin.

Flóin made in Iceland

Fötin í Flónni voru spennandi og hver og einn skapaði sína eigin ímynd, ef eitthvað passaði ekki beint þá var bara notað leðurbelti til að taka það saman. Allir þorðu og gátu verið þeir sjálfir. Það opnuðust nýjar dyr og vídd í íslenska tískuheiminum á þeim tíma og það vissi nánast hvert mannsbarn á Íslandi hver Gerður í Flónni var.

En hönnunin og fataframleiðslan jókst, það var toppurinn þegar kúnnarnir komu og vildu fá sér eitthvað áður en þeir fóru til útlanda, það gladdi. Það var farið á sölusýningar erlendis með eigin fatalínu og við náðum frábærum árangri. En Ísland var ekki tilbúið til þess að fjármagna framleiðsluna þannig að tískufatnaði „made in Iceland“ var gert erfitt um vik og við náðum ekki að afgreiða. Það var sárt.

Ég trúði á virði íslenskrar framleiðslu og tók „kaupum íslenskt“ herferðina mjög alvarlega, en sá fljótlega að við kæmumst ekki langt á því, við yrðum að „selja’ íslenskt“ annað væri bara harakiri því markaðurinn var svo lítill. Hér yrði að hanna en framleiða og selja annars staðar.

Auglýsing frá Flónni tekin í Sundhöll Reykjavíkur

En það þurfti að leita þekkingar og möguleika annars staðar til þess að ryðja braut íslenskrar hönnunar svo árið 1989 var búslóðinni skellt í gám og haldið til Hollands.

Höndlað á Schiphol flugvelli

Ég hef alltaf unnið við sköpun í einhverju formi og hélt áfram á þeirri braut í Hollandi enda markmiðið að vinna áfram að íslenskri framleiðslu til útflutnings. Sú vinna tók mig um allan heim og þar safnaðist mikil reynsla í rekstri og framleiðslu. Sömuleiðis fæddust alls kyns tækifæri, fyrirtæki stofnuð, þróuð og seld, eitt tók við af öðru.

Á þessari vegferð var okkur var boðið verslunarpláss á Schiphol flugvellinum sem verið var að byggja og opnaði 1995. Þetta var tækifæri sem ekki var hægt að hafna, besti staður í Hollandi, biðlisti eftir plássum þarna og þau eru aldrei auglýst, svo það varð úr.“

Það var mikil hátið á Schiphol við opnunina og allir kúnnar okkar fengu fjörusteina frá Íslandi, orkusteina náttúrunnar sem vöktu ótrúlega mikla athygli og umræðu um Ísland að sjálfsögðu og fólk jafnvel kom og pendúlaði orkuna áður en það valdi sér stein og alla daga síðan kom fólk alls staðar að og sýndi steininn sinn sem það alltaf hafði með sér.   

Gerður segir að búðin hafi haft sérstöðu að því leyti að þar hafi verið hægt að kaupa allt frá ódýrum minjagripum upp í dýr listaverk. ARTitIS var mjög vinsæl einmitt vegna þessa óvenjulega blandaða vöruúrvals.

ARTitIS var sérlega skemmtilegt verkefni og búðin vinsæl, en eftir 15 ára rekstur árið 2009 var ákveðið að kveðja hana og hún því seld. Annað frábært verkefni var Westergasfabriek, gamla gasverksmiðja Amsterdam sem hafði verið í endurbyggingu í 12 ár en var nú tilbúin. Þegar baráttan um tilveru verksmiðjunnar lauk og ákveðið var að þar kæmi Miðstöð lista, skapandi greina og viðskipta lögðum við inn pöntun á rými, og viti menn, þessum 12 árum síðar varð það að veruleika, ég fékk úthlutað plássi þar og þar var opnað glæsilegt hönnunar- og listagallerí.

Hjartað er á Íslandi

Ég vann markvisst að því að selja allan bindandi rekstur því ég vildi vera meira á Íslandi, þar er hjartað, þar er fjölskyldan, börnin og barnabörnin og bestu vinirnir, enda flutti ég aldrei ég bjó bara annars staðar.

Gerður hefur verið óstöðvandi við að koma íslenskri menningu á framfæri á alls kyns máta, árið 1995 var jólaþema Schiphol, Hulduheimar (De verborgene Wereld) og árið 2008 var haldið stór-þorrablót fyrir Hollendinga í Westergasfabriek.

Ég hef verið mikið heima síðasta ár og upplifi að of lítið hefur breyst hvað grunninn varðar, á yfirborðinu virkar allt vel og glansmyndin er falleg, en samkenndin er eins og svell í misjöfnu veðri, óbrjótandi sterk og síðan ofboðslega veik og brothætt, við þurfum að finna jafnvægi þá fyrst verðum við sterk.

Hrein gróðamarkmið hafa náð stýrinu í samfélaginu, en slík stýring hefur allt aðrar áherslur en að byggja upp hamingjusamt og sátt þjóðfélag. Mér finnst Íslendingar að öllu jöfnu stórduglegt og skemmtilegt fólk, skorpu fólk auðvitað það er í blóðinu, þannig ná þeir að fara fram úr öllum björtustu væntingum eins og sjá má t.d. í íþróttunum – alveg stórkostlegt. Allir gera sér ljóst að sá árangur hefur náðst með samvinnu og væntumþykju. „Team“vinna, ef við tækjum upp það vinnulag í rekstri samfélagsins væru okkur allir vegir færir.

Öllum verði tryggður grunnlífeyrir

Gerður hefur alltaf haft gríðarlegan áhuga á samfélagsmálum –Eitt af því sem hún brennur fyrir eru borgaralaun. Raunar vill hún ekki kalla þetta borgaralaun heldur grunnlífeyri sem öllum yrði tryggður frá vöggu til grafar. Ég er sannfærð um að ef allir fengju óskilyrðisbundinn grunnlífeyri myndu kraftar leysast úr læðingi sem myndu hafa stórkostlega jákvæð áhrif á framkvæmdagetu og bjartsýni fólks almennt, minna stress meiri gleði, meiri framleiðni. Ég tel að óskilyrðisbundinn grunnlífeyrir verði hluti af framtíðar samfélaginu. „Margir sem setja sig á móti, gera það að því ég tel vegna þess að þeir hafa ekki kynnt sér um hvað málið snýst og hvernig það gengur upp. Allir þurfa ákveðinn grunnlífeyri til að geta fúnkerað í samfélagi sem við öll tilheyrum, nauðug viljug. Allir verða að hafa til hnífs og skeiðar. Ef fólki yrði tryggður fastur grunnlífeyrir myndu fleiri nýta krafta sína þannig að þeir nytu sín til fulls í samfélaginu.

Það gæti tekið sér tíma í að íhuga hvað það vildi í raun gera í lífinu og gæti gert svo miklu meira ef það er að vinna í sömu átt og hugurinn stefnir í stað þess að festast í vinnu sem það neyðist til að taka einungis sér og sínum til framfærslu. Það er oft ásættanleg vinna en alls ekki alltaf ánægjuleg. Grunnlífeyrir myndi efla frumkvöðlastarfsemi vegna þess að fólk hefði ákveðin lífeyri á meðan það væri að koma undir sig fótunum og þróa hugmyndir sínar og hnoða sitt eigið framtíðarmynstur. Grunnlífeyririnn myndi leysa af hólmi flókið bótakerfi í samfélaginu og tryggja fólki sem vinnur ólaunuð störf, svo sem að gæta eigin barna, foreldra sinna og eða er í sjálfboðaliðavinnu, fasta innkomu. Eins og staðan er í dag má ekkert út af bregða hjá fólki, þá er það komið í fjárhagserfiðleika og jafnvel á vonarvöl. Fólk má ekki skilja, veikjast eða eiga veika ættingja sem þarf að sinna, þá hrynur fjárhagurinn.

Grunnlífeyrir er samtryggingakerfi, réttur, en ekki ölmusa. Það er ekki nokkur heilbrigður maður sem leggst í iðjuleysi þó svo að grunnlífeyrir sé tryggur, manninum er það eiginlegt að vilja framkvæma, taka þátt í verkefnum í samneyti við annað fólk, sem og að vinna við sitt áhugafag, bæta við sig þekkingu og reynslu að eigin ósk.

Atvinnutekjur sem fólk aflaði myndu bætast við grunnlífeyririnn en hann væri öryggisnetið sem fólk hefði þegar eitthvað kemur uppá í lífinu eða ef það langaði að breyta um stefnu í lífinu. Finna sér nýja vinnu eða fara í nám. „Fólk er oft að vinna við eitthvað sem það hefur engan áhuga á en hefur aldrei tækifæri á að þroska sig í þá átt sem það langar. Grunnlífeyrir myndi breyta því.

Þarf að breyta launastrúktúrnum

Með grunnlífeyri, sem námsmenn auðvitað hefðu, afnemum við líka þá kröfu að einhver eigi skilið svo og svo há laun af því hann hafi eytt mörgum árum í nám og sé búinn að leggja svo mikið á sig, heldur myndi eftirspurn eftir vinnu viðkomandi við sitt sérsvið vera eini ákvarðanavaldurinn hvað varðar upphæð launa.

Það þarf líka að breyta launastrúktúr innan fyrirtækja. Það er að mínu mati rangt að miða launamál við lágmarkslaun, það hefur reynslan sannað, endalaus barátta. Tilvera fyrirtækis þarf að miðast við hvað það telur sig geta greitt öllum sem þar vinna, ekkert fyrirtæki gengur án samstarfs. Fólk á vissulega að fá borgað í samræmi við ábyrgð og starfsframlag en viðmiðun launa á að vera við hæstu launin sem öll önnur laun miðast við, þannig að þegar hæstu laun hækka hefur það hækkunaráhrif á öll laun fyrirtækisins og heldur alltaf sama hlutfalli.

Aðbúnaður þeirra sem ekki eru einfærir í sínu lífi er annað sem er Gerði hugleikið. Henni finnst hörmulega búið að þeim hópi í þjóðfélaginu. Faðir hennar fékk Alzheimersjúkdóminn rúmlega fimmtugur og Gerður var ein fyrsta manneskjan sem talaði opinskátt um sjúkdóminn. Fram að þeim tíma hafði hann verið falinn, trúlega vegna þess að fólk skildi ekki hvað var að og tengdi það við elliglöp eða andlega truflun. Árið 1985 var hún í forystu fólks sem stofnaði Félag áhugafólks og aðstandenda um Alzheimersjúkdóminn og skylda sjúkdóma. Tilgangurinn var að fræða almenning um Alzheimer og berjast fyrir réttindum sjúklinganna. „Þegar að pabbi veiktist var enga aðstoð að fá og það hafði enginn skilning á þessum sjúkdómi sem hann glímdi við. Það var mikið þess vegna sem ég fór, mér fannst grimmdin og harkan vera allsráðandi á Íslandi. Ég man að einhverju sinni sat ég yfir honum inn í Hátúni. Ég var að hlusta á  útvarpsþátt um Mafíuna og ég man að ég  hugsaði, hver er munurinn á þeim sem ráða hér á landi og Mafíunni á Ítalíu? Ég gat ekki séð að hann væri annar en að þar rann blóð en hér ekki.

Fátækravæðing í gangi

Breytingar til hins betra eru illsjáanlegar í dag, það er gífurleg fátækravæðing í gangi. Þessu verður að snúa við. Ef við legðum meiri alúð við samkennd og mannvirðingu myndum við forða fólki frá því að lenda í óyfirstíganlegum erfiðleikum, við myndum leysa vandann á grundvelli hvers og eins. Maður verður fyrst gamall þegar maður getur ekki bjargað sér og þá þurfum við faðm til að lenda í.

Það er áhugavert að sjá hvernig samrými eldra og yngra fólks gæti þróast en því hefur verið komið á í Hollandi þ.e. er leiða saman gamalt og ungt fólk í sama húsnæði, og dásamlegt að sjá nú er verið að byrja á því hér, eins og auglýst var hjá Velferðasviði Reykjavíkurborgar, stórt skref og sérlega ánægjulegt.

Samrýmið er þannig að eldra fólkið leigir því yngra á hagstæðum kjörum en á móti aðstoðar það eldra fólkið við það ýmis viðvik og aðstoð. Með þessu móti eru menn að brúa kynslóðabilið og koma í veg fyrir einangrun þeirra sem eldri eru. Það er eitthvert líf í húsunum og einhver annar sem gengur um en þú sjálfur.

Maður er manns gaman það eru gömul sannindi og ný.“

 

Ritstjórn janúar 19, 2018 13:36