Lifðu núna renndi í gegnun stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og tók út þau atriði sem gætu haft áhrif á kjör þeirra sem eldri eru.
Ríkisstjórnin ætlar að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og gera það gagnsærra og skilvirkara. Þar þarf að meta árangur núverandi kerfis með hliðsjón af veikasta fólkinu og skoða þá þætti sem eru ekki hluti af því, t.d. ferða- og uppihaldskostnað, tannlækningar og sálfræðiþjónustu.
Skortur á hjúkrunarrýmum veldur auknu álagi á sjúkrahúsin og skerðir lífsgæði aldraðra. Fyrir liggur að þörf fyrir uppbyggingu er veruleg á næstu fimm árum. Ráðist verður í stórsókn í uppbyggingu og mun hún birtast í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Hluti fyrirhugaðs Þjóðarsjóðs gæti nýst í þetta verkefni. Einnig verður hugað að því að styrkja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila en áhersla verður einnig lögð á aðra þjónustuþætti, svo sem heimahjúkrun, dagþjálfun og endurhæfingu.
Frítekjumark atvinnutekna aldraðra verður hækkað í hundrað þúsund krónur strax um næstu áramót. Gjaldskrá vegna tannlækninga aldraðra og örorkulífeyrisþega verður uppfærð til að lækka kostnað þessara hópa.
Þá er boðuð skattalækkun tekjuskatts í neðra skattþrepi og það getur vissulega komið tekjulágum eldri borgurum til góða. Annað sem getur haft áhrif á tekjur eldra fólks er að fjármagnstekjuskattur verður hækkaður í 22% í upphafi kjörtímabils í því markmiði að gera skattkerfið réttlátara óháð uppruna tekna. Samhliða verður skattstofn fjármagnstekjuskatts tekinn til endurskoðunar.