Góðar gjafir

Nú er að renna upp sá tími er allir keppast við að gleðja vini og ættingja með gjöfum. Þótt flestum þyki sælla að gefa en þiggja fylgir líka ýmislegt annað sem valdið getur streitu og kvíða. Sumir skipuleggja mjög vel allar gjafir sem þeir gefa. Ákveðið er fyrirfram hversu mikið hún má kosta og valið eftir því sem viðkomandi veit um þiggjandann. Aðrir kjósa eitthvað sem myndi gleðja þá sjálfa og hafa ekkert sérstakt til viðmiðunar annað en það sem þeir hafa efni á.  Handverksfólk og föndrarar eru svo heppnir að geta búið til eitthvað fallegt. Þannig persónulegar gjafir eru mjög líklegar til að skipta öllu máli.

Æ algengara verður að fólk gefi upplifanir, út að borða, leikhúsmiða, tónleikaferð eða samverustund með gefandanum. Það eru skemmtilegar gjafir líkt og þær sem gefa áfram. Ákveðin upphæð gefin til góðgerðasamtaka eða kaup á tiltekinni hjálp handa fólki í neyð veita þiggjandanum þá umbun að vita að hann hafi látið gott af sér leiða.

Gefið til samfélagsins

Margir í hópi þeirra sem kallaðir hafa verið „þeir sem eiga allt“ kjósa sér svona gjafir, velja jafnvel sjálfir þau góðgerðasamtök sem þeir kjósa að veita liðsinni. Flestir Íslendingar gefa líka til góðgerðamála fyrir jólin, annað hvort í formi peninga, kaupa á happdrættismiðum eða einhverju öðru. Neytendur kunna einnig að meta fyrirtæki sem láta gott af sér leiða og velja þess vegna að kaupa sínar gjafir hjá þeim sem láta hluta ágóðans renna til góðra málefna.

Þessi leið til að gefa hefur orðið æ algengara hjá vestrænum fyrirtækjum. Það er gott til að vita að kaupsýslumenn eru meðvitaðir um samfélagslega ábyrgð og vilja leggja sitt af mörkum til samfélagsins eða til að efla góðvild í heiminum. Vald fyrirtækja, einkum þeirra sem selja vinsæl vörumerki er mikið. Hægt er að vekja athygli á og efla meðvitund fólks um umhverfismál og fleira um leið og keypt er nauðsynjavara. En á sama tíma gefur þetta fólki einnig tækifæri til að velja vörur og þjónustu þar sem þeirra eigin hugsjónir og stefnumál.

Neytendur dagsins í dag eru velupplýstir og eiga auðvelt með að velja réttu fyrirtækin. Þeir geta refsað og verðlaunað eftir atvikum og þannig haft mikil áhrif á framleiðsluferli vöru. Íslenskir neytendur sýndu til að mynda með afgerandi hætti álit sitt á verksmiðjubúskap sem auglýsti vistvæna vöru í Brúneggja-málinu. Þegar gjafir eru valdar er meðvituð neysla af þessu tagi mjög sterk því með henni má leggja sitt af mörkum til að skapa betri og ábyrgari hegðun meðal forsvarsmanna fyrirtækja.

Fimm atriði eru einkum mikilvæg þegar gerð eru ábyrg innkaup. Þau eru:

  1. Mannréttindi. Er varan sem keypt er framleidd við ómannúðlegar aðstæður þar sem fólk fær ekki greidd sanngjörn laun og jafnvel börn eru notuð til að tryggja ódýrt vinnuafl. Mannsal og nútímaþrælahald er algengt í verksmiðjum bæði á vesturlöndum og í þriðja heims ríkjum. Sameinuðu þjóðirnar hafa beitt sér gegn þessu og finna má áreiðanlegar upplýsingar um fyrirtæki sem nota slíkar verksmiðjur.
  2. Umhverfismál. Er fyrirtækið sem framleiðir vöruna meðvitað um umhverfið og leitast við að tryggja að allar mengunarvarnir séu í lagi? Mörg fyrirtæki hafa orðið uppvís af alvarlegum umhverfisglæpum og hægt er að kanna hvort svo sé með það vörumerki sem maður hyggst kaupa.
  3. Dýravernd. Er varan sem um ræðir prófuð á dýrum eða dýr misnotuð við framleiðslu hennar? Þetta á einkum við um snyrtivörur en á einnig við í lyfjaiðnaði og víða eru dýr notuð í námum við erfiðar aðstæður.
  4. Samfélagsleg ábyrgð. Hefur þetta fyrirtæki orðið uppvíst af óábyrgri framkomu gagnvart því samfélagi sem það starfar innan eða þegnum þess þjóðfélags? Til er í dæminu að stórfyrirtæki kjósi að loka útibúum sínum og flytja sig ef betra býðst. Þau skilja þá oft eftir byggingar sem ekki eru nothæfar og mikið atvinnuleysi skapast í kjölfarið.
  5. Félagsleg ábyrgð. Hvernig aðstæður skapar fyrirtækið starfsmönnum sínum og sýnir það félagslega ábyrgð við ráðningar? Sum stórfyrirtæki flytja starfsfólk milli svæða og gefa ekki heimamönnum tækifæri til að sækja um störfin. Vinnuaðstæður og umhverfi er einnig óviðunandi.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.