Gott að minnka vinnuna smám saman

Smíðastofa Agnars lætur lítið yfir sér í bílskúr í Skaftahlíðinni í Reykjavík, en þar má finna ótrúlega fallega hluti, fuglahús, verkfærakassa, jólatré og jafnvel bekki í sumarhúsið! Höfundur þessara hluta er Agnar Svanbjörnsson, en hann starfar hjá Tryggingafélaginu Sjóvá í 60% starfi. „Ég vinn ekki á fimmtudögum og föstudögum“, segir hann. „Ég hætti að vinna í mars á næsta ári og held að það sé ágætt að trappa vinnuna smám saman niður í stað þess að hætta snögglega. Ég hef orðið var við að þeir sem gera það upplifa sumir að fótunum sé hreinlega kippt undan þeim þegar þeir hætta“.

Hefur mikinn áhuga á hönnun

Agnar segist hafa byrjað að smíða í fyrravetur enda var hann þá byrjaður að undirbúa það að fara á eftirlaun. Hann leigði sér bílskúr og byrjaði. Hann hannar hlutina sem hann smíðar að mestu sjálfur, en leitar líka fanga í bókum og blöðum. Hann hefur alltaf haft áhuga á hönnun og rak eitt sinn fyrirtæki sem flutti inn ýmsar hönnunarvörur, til dæmis frá Norðurlöndunum. Verslunin hét Gráfeldur og var í Bankastræti. Það er kannski tímanna tákn að nú er rekin þar verslun með íslenskum vörum fyrir ferðamenn. „Ég rak Gráfeld þar til ég var kominn í samkeppni við IKEA og Habitat, þá hætti ég“, segir Agnar.

Alltaf dundað við smíðar

Agnar segist fyrst og fremst hafa hugsað sér smíðarnar til að vinna við, þannig að hann hafi nóg fyrir stafni þegar hann hættir að vinna. Hann segist aðallega hafa smíðað hluti til að gefa fjölskyldu og vinum, en svo hafi hann farið að selja og nú anni hann ekki eftirspurn. Það hafi til dæmis verið mikil eftirspurn eftir jólatrjánum núna fyrir jólin og eftir fuglafóðrunarhúsunum. Hann segist alltaf hafa dundað við smíðar, alveg frá því hann var krakki. „Fyrst í sumarbústaðnum með pabba og svo þegar ég eignaðist sjálfur sumarbústað fyrir 40 árum, þurfti ég að smíða mikið sjálfur“.

Er í genunum

Afi Agnars var smiður og hann segir að faðir sinn, Svanbjörn Frímannsson, hafi verið mjög handlaginn. Eldri bróðir hans sé það einnig. „Það má segja að þetta sé í genunum“ segir Agnar, sem er sjálflærður í smíðinni. Hann hefur mikinn áhuga á að komast í kynni við fólk sem hefði áhuga á að leigja saman smíðavinnustofu. „Ég get hugsað mér að vera með öðrum á verkstæði, bæði til að lækka kostnaðinn og til að hafa félagsskap“, segir Agnar og ef þeir sem þetta lesa hafa áhuga á slíku, er þeim bent á að hafa samband við hann í síma 897-1023.

Vonast til að hafa nóg að gera

Agnar segir að starfslokin í mars, leggist vel í hann, svo framarlega sem hann nái að hafa nóg fyrir stafni. „Ég er ekkert kvíðinn ef það gengur upp“, segir hann. Hann er með sumarbústað þar sem verkefnin eru næg yfir sumartímann. Það þarf að huga að gróðri og dytta að húsinu, en á veturna er að hann að vonast til að hafa nóg að gera í smíðunum.                                                                                                                                   Smelltu á myndina hérna fyrir neðan til að sjá hvað fuglafóðrunarhúsið hans Agnars er skemmtilegt.

 

Ritstjórn desember 29, 2014 14:05