Gráhærðir ferðamenn fjölmenna til Tenerife

Þeir eru áreiðanlega fáir hér á Íslandi sem þekkja ekki einhvern sem hefur farið til Tenerife í vetur, eða ætlar að fara til Tenerife í vetur, til að stytta skammdegið. Heilu flugvélafarmarnir lenda með stuttu millibili á flugvöllum eyjarinnar þessar vikurnar, sneisafullar af fölum ferðamönnum sem mjög margir eru komnir yfir miðjan aldur. Tenerife er lítil eyja og flugvellirnir eru bara tveir.  Helsti kosturinn við Tenerife er veðrið og svo eru baðstrendurnar þar mjög góðar.

Það er ekki slæmt að leigja sér hjól til að skoða sig um, en kannski full mikil umferð á stígunum

Sumir ferðamennirnir eru búnir að fara til Tenerife ár eftir ár og mjög margir þeirra velja að vera á hótelum á Amerísku ströndinni eða Adeje ströndinni.  Þar er hótel við hótel og allt sniðið að þörfum ferðamannsins, sem getur dólað sér þarna í algerri gerviveröld. En það sem gerir það þess virði, er auðvitað veðrið, sólin og sjórinn, en hitastigið er yfirleitt öðru hvoru megin við 20 gráðurnar. Margir eru tilbúnir til að borga fyrir það og óneitanlega er þetta rólegt líf, alger slökum og á við dvöl á heilsuhæli. Það er í það minnsta skoðun blaðamanns Lifðu núna, sem dvaldi nýlega á Tenerife í tvær vikur – nánar tiltekið á Adeje ströndinni.

Þar var áberandi, hversu margir ferðamannanna voru komnir á efri ár, misjafnlega mikið þó. Enda er unga fólkið kannski bundnara heimavið á þessum árstíma. Með börnin sín í skólum og sjálft í vinnu. En blaðamaður rakst á nokkra Íslendinga sem eru komnir á eftirlaunaaldur og fara jafnvel árlega til Tenerife eða Kanarí. Kanaríeyjarnar eru sex talsins og er Tenerife þeirra stærst. Hún er þó ekki stærri en svo, að hægt er að aka umhverfis hana á nokkrum klukkutímum. Strætisvagnasamgöngur eru líka góðar og ekkert mál að fara í strætó um alla eyjuna. Það kostar sáralítið. Það var líka áberandi hvað verð á mat er miklu lægra en við eigum að venjast.

Tónlistarhúsið í Santa Cruz. Eftir arkitektinn Santiago Calatrava

Þó ferðamannastraumurinn sé gríðarlegur á eyjunni, er hægt að komast útfyrir hringiðu ferðamanna með því að leggja leið sína upp í fjöll.  Þar er hægt að komast í skemmtilegar gönguferðir og fara í lítil þorp, sem eru oft byggð eins og í tröppum, því undirlendi er lítið á Tenerife. Blaðamaður Lifðu núna brá sér í strætó til höfuðborgar eyjunnar og sótti þar heim tónlistarhúsið sem er nokkurs konar Harpa þeirra Tenerife búa og mjög nýstárlega bygging.  Langflestar íslensku ferðaskrifstofurnar bjóða uppá ferðir til Tenerife og það gera að sjálfsögðu líka erlendar ferðaskrifstofur. Blaðamaður hitti eldri konu sem kom frá London með ferðaskrifstofunni Thomas Cook og var mjög ánægð með hana.  Þá eru ferðaskrifstofur á Norðurlöndunum sem bjóða uppá Tenerife ferðir. Það er ástæða til að bera saman verð og gæði allra þessara ferða.

 

 

Ritstjórn febrúar 6, 2017 15:50