Þessa uppskrift af grilluðum silungi ásamt meðlæti er að finna á vefnum Gott í matinn. Uppskriftin er ótrúlega girnileg og sumarleg. Höfundur hennar er Erna Sverrisdóttir. Svo er bara að gera grillið klárt og hefjast handa. Uppskriftin er fyrir fjóra.
Grillaður silungur:
2 skallottulaukar, fínsaxaðir
1 hvítlauksrif, fínsaxað
8 sólkysstir tómatar, smátt saxaðir
8 grænar ólívur, skornar í þunnar sneiðar
1 tsk. kapers, skolað og saxað
1 tsk. paprikukrydd
Safi og börkur af 1 sítrónu
800 g silungur í flökum eða lax
Salt og svartur pipar
100 g fetakubbur frá Gott í matinn, mulinn eða meira eftir smekk
Ólífuolía
Handfylli af ferskri saxaðri steinselju
Grillað grænmeti á teini:
2 paprikur, skornar í bita
1 lítill kúrbítur, skorinn langsum í örþunnar sneiðar
16 kokteiltómatar
Salt
Örlítið þurrkað timian
Ólífuolía
8 grillpinnar
Kúskússalat með fetaosti:
2 dl kúskús
2 dl sjóðandi vatn
Ögn af grænmetiskrafts teningi
Handfylli af saxaðri steinselju
Handfylli af söxuðu kóríander
50 g ristaðar furuhnetur
100 g mulinn fetakubbur eða meira eftir smekk
Sítrussósa:
3 msk. ólífuolía
1 msk. hvítvínsedik
1 msk. sítrónusafi
1 tsk. fínsöxuð niðursoðin sítróna
Salt og svartur pipar
Hunang
Aðferð:
Grillaður silungur
Blandið sjö fyrstu hráefnunum saman í skál.
Leggið silungsflökin á álpappír. Saltið vel og piprið. Dreifið blöndunni yfir flökin og sáldrið svo fetaosti og steinselju yfir. Dreypið að lokum smá ólífuolíu yfir.
Grillið á heitu grilli eða bakið í ofni við 220° í um 10-15 mínútur.
Grillað grænmeti á teini
Leggið grillpinnana í bleyti. Raðið síðan grænmetinu upp á. Saltið og dreypið ólífuolíu og smá timiani yfir. Grillið á heitu grilli þar til meyrt.
Kúskússalat með fetaosti og sítrussósu
Byrjið á að útbúa salatsósuna. Pískið saman fyrstu fjórum hráefnunum. Smakkið til með hunangi, salti og pipar.
Setjið kúskús í skál. Setjið smá grænmetiskraft með. Hellið sjóðandi vatni yfir og hyljið síðan skálina með álpappír í 5 mínútur. Hrærið svo í með gaffli og hellið sítrussósunni saman við. Hrærið.
Blandið furuhnetum, kryddjurtum og fetamulningi saman við. Saltið og piprið ef þurfa þykir.