Guðrún Skúladóttir fréttaþulur

Guðrún María Skúladóttir starfaði í tíu ár sem fréttaþulur og dagskrárgerðarmaður í Ríkissjónvarpinu og er mörgum eftirminnileg.  Núna segist hún vera sest í helgan stein. Þegar blaðamaður innti hana eftir hvað í því fælist sagði hún. „Ég er í Félagi eldri borgara á Álftanesi, svo syng ég í tveimur kórum, Álftaneskórnum og Kór eldri borgara á Álftanesi“. Hún er einnig starfandi í Lionsklúbbi en í honum eru 23 konur af Álftanesinu og á sumrin reynir hún að vera sem mest í golfi sem er aðal áhugamálið. „Svo erum við með húsbíl og reynum að ferðast eins og við getum. Við þurfum ekki að kvarta yfir aðgerðarleysi“, segir hún brosandi, en maðurinn hennar er Gunndór Isdal Sigurðsson.

Guðrún fæddist í Hafnarfirði, en var mikið fyrir norðan á sumrin, þar sem faðir hennar Skúli Guðmundsson var þingmaður Framsóknar í Norðurlandskjördæmi vestra þegar hún var að alast upp. Með tíð og tíma fór hún að vinna hjá Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu. En þegar hún sá auglýst eftir fréttaþul í Sjónvarpinu árið 1975 , ákvað hún að slá til og sækja um.  „Það vissi enginn í fjölskyldunni að ég hafði sótt um og svo einn daginn birtist ég bara á skjánum“ rifjar hún upp hlæjandi, en þau voru þrjú sem urðu fréttaþulir þetta ár, hún, Guðmundur Ingi Kristjánsson og Elísabet Simsen.  Guðrún var í starfinu samhliða vinnunni í ráðuneytinu, en hún mætti í Sjónvarpinu klukkan sex á kvöldin og byrjaði að fara yfir fréttirnar. Fréttatíminn var klukkan 20 og hálftíma síðar var Guðrún laus og gat farið heim.

„Ég á bara góðar minningar um minn tíma hjá Ríkisútvarpinu, kynntist þar mörgu góðu fólki, bæði fréttamönnum og tæknimönnum“ segir hún. Þegar hún er spurð hvernig það hefði verið að verða allt í einu heimsfræg á Íslandi segist hún ekki muna eftir neinu öðru en góðu viðmóti sem þekkt andlit. „Manni var auðvitað stundum heilsað af ókunnugu fólki en þá heilsaði maður bara tilbaka“ bætir hún við. Guðrún var fréttaþulur í 9 ár og stjórnaði þættinum Sjónvarp næstu viku, í eitt ár, þannig að sjónvarpsferillinn spannaði 10 ár og hún segist enn vera að hitta fólk sem man eftir henni í Sjónvarpinu. „Eftir þennan tíma hélt ég svo áfram að vinna í ráðuneytinu. Þar var ég deildarstjóri og sinnti ýmsum störfum; sá um tíma um gjaldskrár hitaveitna og rafveitna, gaf út skírteini vegna löggiltra starfsheita, vann í nokkur ár í vörumerkja- og einkaleyfadeild, vann við að móta vef ráðuneytisins, sá um frágang og birtingu laga og reglugerða og var í nokkur ár ráðherraritari.

Guðrún hefur búið á Álftanesi síðan árið 2001. Hún segist hafa hætt að vinna rúmlega sextug, þar sem hún hafi verið á 95 ára reglunni. En áður hafði hún „trappað“ sig niður og minnkað smám saman við sig vinnu.  Guðrún á tvö börn og 8 ömmustráka, heilt íþróttalið. En hvað myndi hún gera ef hún væri ung í dag, hvaða nám færi hún í?

„Ef ég væri að byrja uppá nýtt myndi ég væntanlega fara í eitthvað almannatengslatengt nám og velja starf á því sviði“ segir hún að lokum.

 

 

Ritstjórn janúar 16, 2020 07:18