Þegar við hjónin vorum ung, horfðum við stundum á eldri pör sem sátu nálægt okkur á veitingastað og hétum því að við ætluðum aldrei að verða eins og þau. Þetta fólk sat andspænis hvort öðru og borðaði matinn sinn án þess að segja eitt einasta orð. Ég sagði þá við manninn minn. „Við verðum ekki eins og þau, þetta verður aldrei svona hjá okkur“. En aldrei skyldi maður segja aldrei.
Þannig hljóðar upphaf greinar á vefnum sixtyandme.com, eftir konu að nafni Pamela Lamp. Og greinin heldur áfram.
Þegar við héldum uppá þrjátíu ára brúðkaupsafmælið okkar á veitingastað með hvítum dúkum, notalegri tónlist og matseðli sem var fullur af frönskum eðalréttum, urðum við uppiskroppa með umræðuefni. Enn einu sinni.
Við héldum uppi yfirborðslegum samræðum á meðan við fengum okkur fordrykkinn. Tókum stöðuna í fjölskyldunni, ræddum um syni okkar og kærustur þeirra, nauðsynlegar viðgerðir á heimilinu þar sem við höfðum búið í hálfa öld, viðfangsefnin í vinnunni og umönnun eldri foreldra. En svo, þegar við vorum búin að panta matinn – þá vissum við ekkert um hvað við ættum að tala.
Hvernig urðum við uppiskroppa með umræðuefni?
Þegar við vorum ung, áður en við eignuðumst börn og tókum húsnæðislán, vorum við stöðugt að hugsa um eitthvað sem við gátum ekki beðið með að segja hvort öðru. Samræðurnar voru kryddaðar með upphrópunum. Geturðu ímynda þér þetta? Hvað finnst þér, er þetta ekki ótrúlegt? Við gátum talað saman yfir heilli máltíð og löngu eftir að eftirrétturinn var búinn héldum við samræðunum áfram.
Eftir að stákarnir okkar uxu úr grasi og fóru að heiman, býst ég við að við höfum bæði andað léttar. Við tókum okkur hvíld frá því að vera stöðugt á randi, milli vinnu og íþróttaleikja, matvörubúða og foreldrafunda. Loksins leyfðum við okkur að slappa ærlega af – en það varð eiginlega of mikið af því góða.
Eftir því sem vinkonur mína segja, er það hreint ekki óvanalegt að hjón hætti að hafa eitthvað til að tala um. „Það er erfitt að vera í hjónabandi og spennan endist ekki til eilífðarnóns“, heyrði ég oft sagt. Mér leið betur að heyra þetta, en mig langaði til að eitthvað breyttist.
Sálfræðingurinn sem við fórum til, var ekki þeirrar skoðunar að hjónabandið væri búið. En ég hrökk við þegar hún notaði orð eins og nægjusemi, stífni og stöðnun til að lýsa sambandi okkar. Það var eins og við hefðum búist við að hjónabandið myndi halda áfram að vera hamingjusamt, án þess að við legðum nokkun skapaðan hlut á okkur. Mér varð hverft við þegar hún líkti hjónabandi okkar við visnandi plöntu. Samband okkar þyrfti umönnun, sólskin og nærandi áburð, ástúð og eitthvert nýjabrum, eftir því sem þessi klóka kona hinum megin við borðið, sagði okkur.
Eins og mönnum hættir til, höfðum við færst yfir í það að gera hluti sem ekki þurfti að hafa neitt fyrir. Við völdum veitingahús, þar sem auðvelt var að fá borð og bílastæði. Við umgengumst þá vini sem við þekktum best, þægilegu vinina, sem líktust okkur mest.
Nýjungar geta blásið lífi í þreytt samband
Það fylgir því spenna og ástríða að prófa eitthvað nýtt og það getur vakið par til lífsins á ný.
Maðurinn minn stakk uppá því að við færum á stefnumót og gerðum eitthvað skemmtilegt. Þegar ég steig inn fyrir þröskuldinn á klettaklifursstöðinni, fann ég lykt af svita og blautum íþróttaskóm koma á móti mér. „Þú getur þetta alveg. Þetta er góð hreyfing. Ég er viss um að þú munt ólm vilja koma aftur hingað“ sagði hann. Ég var ekki alveg viss.
Á meðan ég fór í klifurbeltið og klifurskóna, fann ég fyrir fiðrildum í maganum. Ég þreifaði eftir klifurkengjum og krókum og nuddaði talkúmi milli sveittra lófanna.
Það var eins og ég væri á fyrsta stefnumóti, ég fann fyrir spennu og kvíða. Sömu tilfinningu og ég hafði haft í upphafi sambands okkar. Þegar allt sem við upplifðum var nýtt og framandi.
Á meðan ég þokaðist upp byrjendavegginn, baðist ég við að ná hreyfingunni fram og tilbaka milli handfanga og fótstiga. Hvað eftir annað missti ég takið, eða kraftinn. Ég ýtti mér frá veggnum með fótunum, renndi mér niður á gólf og klifraði upp aftur.
Við hliðina á mér, barðist maðurinn minn við að klífa mun erfiðari vegg. Við stundum, börðumst við að klifra upp og brostum til hvors annars. Þetta var skemmtilegt.
Við vorum enn í æfingagöllunum með derhúfurnar þegar við settumst niður með hamborgara og bjór og fórum yfir ævintýri kvöldsins. Við vorum ánægð með okkur sem par. Okkur hafði vantað eitthvað til að koma okkur af stað, heimaverkefni, til að finna aftur ánægjuna við að kanna og reyna eitthvað nýtt.
Við uppgötvuðum að nýjungar þurftu ekki endilega að vera stórmál. Það hjálpaði líka sambandi okkar að elda nýja rétti, skreppa á kaffihús í skemmtilegum hverfum og horfa á dýralífsþætti í sjónvarpinu. Núna erum við eldra parið á veitingastöðunum. Við erum parið sem unga fólkið tekur eftir. En við erum ekki þegjandi, við tölum saman. Við ræðum um allt sem okkur langar að gera og læra og hvernig við getum haldið áfram að þróast saman í framtíðinni.