Veðurspáin um hvítasunnuna er ekkert sérstaklega skemmtileg. Það verður fremur hráslagalegt. Það er því upplagt að búa til góðan mat og bjóða vinum og vandamönnum til veislu. Við á Lifðu núna fundum þrjár uppskriftir sem við höfum prófað og sumar raunar marg oft. Sú hin fyrsta er ættuð frá henni Evu Laufeyju Kjaran og hana er að finna á bloggsíðunni hennar. Hún er fljótleg og einstaklega bragðgóð sem forréttur eða bara ein og sér með hvítvíni eða blávatni.
Ljúffengt laxabrauð með sítrónurjómaosti
Gróft brauð. Veljið það brauð sem ykkur finnst best.
reyktur lax í sneiðum
200 gr. hreinn rjómaostur
salt og pipar
safi úr hálfri sítrónu
börkur af hálfri sítrónu
1. msk. smátt saxaður graslaukur
klettasalat
ólífuolía
hreinn fetaostur
sítrónubátar
Skerið brauðið í sneiðar og leggið í eldfast mót, dreypið ólífuolíu yfir og bakið í ofni við 200 gráður í 4-5 mínútur. Hrærið saman rjómaosti, salti, pipar, sítrónusafa, sítrónuberki og graslauk í skál. Smyrjið rjómaostinum á hverja brauðsneið og leggið klettasalatið og laxinn yfir. Myljið fetaost yfir ásamt söxuðum graslauk. Berið fram með sítrónubátum.
Lambalæri með villisveppafyllingu, fylltum kartöflum og rjómasoðnu spínati
Þessi uppskrift að fylltu lambalæri með meðlæti er frá honum Árna Þór Arnórssyni og birtist á vefnum Gott í matinn. Hún er svolítð tímafrek en vel þess virði að prófa. Blaðamanni Lifðu núna fannst hún að minnsta kosti afar vel heppnuð þegar hann prófaði hana.
Lærið
Salt og nýmulinn svartur pipar
1 stk Lambalæri úrbeinað
25 g þurrkaðir villisveppir
50 g rauðlaukur
1 stk villisveppaostur
1 msk pestó
1 stk egg
100 g ritzkex
Kartöflur
Rifinn gratínostur
3 stk bökunarkartöflur (3-4 stk)
1 dós sýrður rjómi með graslauk og lauk
125 g rjómaostur með svörtum pipar
Spínat
Salat og nýmuldur svartur pipar
200 g spínat
200 g saxaður laukur
2 msk smjör
2 dl matreiðslurjómi
Leggið villisveppina í bleyti í heitt vatn gott að gera það einum tíma áður. Maukið sveppina í blandara ásamt rauðlauknum og pestóinu. Skerið ostinn í bita og bætið í. Maukið saman ásamt eggi og ritzkexi.
Kryddið með salti og nýmuldum svörtum pipar.
Fletjið lambalærið vel út og smyrjið fyllingunni inn í, rúllið síðan lærinu upp og steikið við 120°C í u.þ.b. 40-50 mínútur.
Bakið kartöflurnar í u.þ.b. 50-60 mínútur við 175°C. Skafið inn úr kartöflunum og geymið hýðið. Hrærið kartöflunum saman við rjómaostinn og sýrða rjómann og setjið að lokum í hýðið og stráið yfir rifnum gratínosti og bakið við 180°C í 15 mínútur
Steikið laukinn og spínatið á pönnunni og bætið við rjómanum látið sjóða í 4-6 mínútur.
Dumle bláberja tart
Þessi kaka er ótrúlega góð og hana fundum við á síðunni Gerum daginn girnilegan. Kakan er bæði góð sem eftirréttur og líka ein og sér.
Botnin
2 pakkar Oreo kex orginal
100 gr. smjör
Fylling
Peli af rjóma
200 gr. 60 prósent súkkulaði
1 poki Dumle orginal
2 msk. smjör
120 gr. bláber.
Myljið kexið í matvinnsluvél, bræðið smjörið og blandið saman. Setjið í form sem búið er að klæða smjörpappír. Kælið í fimm mínútur. Á meðan botninn er að kólna, saxið þið súkkulaðið í litla bita. Sjóðið upp á rjómanum, takið hann því næst af hitanum og hrærið súkkulaðinu og karamellubitunum saman við. Bætið smjörinu út í lokin. Látið blönduna kólna, þegar hún er orðin volg hellið þið henni í oreo botninn og setjið bláberin yfir. Kælið kökuna í að minnsta kosti fjóra tíma áður en hún er borin fram.