Nanna Rögnvaldardóttir átti sér aldrei neina skáldadrauma. Hún hafði heldur aldrei talið að lifibrauð sitt lengst af ævinni hefði hún af margvíslegum skrifum og ritstjórn en sú varð engu að síður raunin. Nú er komin út hennar fyrsta skáldsaga, Valskan. Þar er rakið ævintýralegt lífshlaup formóður Nönnu, konu sem lifði móðuharðindin og var um margt langt á undan sinni samtíð.
Á matreiðslubókum þínum sést vel hve ritfær þú ert og þar er að finna fróðleik og frásagnir um margt tengt mat sem dýpkar uppskriftirnar. Hafði þér aldrei dottið í hug fyrr að skrifa skáldsögur eða annað efni?
„Ég veit svo sem ekki hvers vegna en ég gekk aldrei með neina skáldadrauma og átti ekkert í skúffunum,“ segir Nanna. „Ég hafði aldrei neina löngun til þess. Í þrjátíu og sex ár vann ég sem ritstjóri, mest í öðru efni, en skáldsögur komu líka inn á borð og það var aldrei þannig að ég hugsaði þetta gæti ég nú gert betur. Ég man að einu sinni var ég að velta fyrir mér hvort ég ætti að prófa að skrifa eitthvað en þá fann ég að mig vantaði svo hugmyndir. Það voru ekki orðin eða stílbrögðin sem mig vantaði ég vissi bara ekki um hvað ég ætti að skrifa. Þegar ég byrjaði á söguna um Valgerði Skaftadóttur þá hafði ég grind. Ég vissi nokkurn veginn hvernig ævi manneskjunnar hafði verið og hvað mundi gerast málið var bara að finna leiðir til að segja frá því og fylla í götin. Það var mjög auðvelt, í rauninni, í þessu tilviki alla vega.“
Yfirmaðurinn hafði meiri trú henni en hún sjálf
Nanna réðst ung kona í vinnu hjá bókaforlaginu Iðunni og þá var ekki á dagskrá að fara að setja eitthvað á blað eða leiðbeina öðrum í skrifum.
„Nei, nei, nei, nei,“ segir hún og hristir ofurlítið höfuðið. „Ég var bara ráðin inn til að svara í síma og skrifa út reikninga. Sjálfstraustið hjá mér á þeim árum var ekki meira en svo að ég var mjög efins um að ég réði við það. En ég var svo heppin að vinna hjá manni sem treysti mér alltaf meira en ég gerði sjálf. “
Ýtti hann þér kannski stundum út fyrir þægindarammann?
„Já, mjög oft og mjög langt. En einhvern veginn hafðist þetta nú og sjálfstraustið óx eitthvað.“
En svo ferðu að skoða formæður þínar og forfeður. Var það eitthvað sem þú hafðir alltaf?
„Já, ég þekkti mjög vel forfeður mína í Skagafirðinum. Ég er að mestu leyti Skagfirðingur. Reyndar af einni ætt, Djúpadalsætt, ég er sjö sinnum af henni og ég vissi allt, hélt ég um það fólk. Ég er að vísu búin að komast að því núna eftir að ég fór að grúska að það er ýmislegt sem ég ekki vissi. Elínborg Lárusdóttir skáldkona, sem er líka af þessari ætt, hafði skrifað fjögurra binda skáldsögu um eldri kynslóðir Djúpadalsættar sem enn er verið að lesa. Horfnar kynslóðir heita þær bækur og ég las þær náttúrlega og þetta allt kveikti hjá mér áhuga á forfeðrum og formæðrum og lífinu á fyrri tíð. Ég hafði alltaf verið áhugasöm um það og lesið mikið af gömlum bókum. Þegar ég uppgötvaði Valgerði og hennar fólk ætlaði ég bara að skrifa ævisögu.“
Margt má lesa úr litlum upplýsingum
En efnið náði tökum á Nönnu og smátt og smátt fór að verða nauðsynlegra og skemmtilegra að skálda í eyðurnar. Það er vel þekkt að áhuginn á fortíðinni og hvaðan menn koma vex með árunum. Kannski er hann líka óvenjulega mikill hér á landi. Sumir telja að fortíðin sé vafin grárri móðu og erfitt sé að finna einhverjar upplýsingar. En Nönnu virðist hafa tekist að finna ótrúlega miklar upplýsingar. Var það erfitt?
„Nú er margt orðið svo miklu auðveldara,“ segir hún. „Skjöl og gögn eru mikið komin á netið. Söfn eru auðvitað nauðsynleg og allt það en ég nenni lítið að sitja á söfnum og grúska. Kirkjubækur eru á netinu, sóknarmanntöl, dómabækur og skiptabækur. Ég komst að því þegar ég fór að grúska í skiptabókum Norður-Múlasýslu að allar eigur Skafta, sem var faðir Valgerðar, eru taldar upp þar. Allar 107 bækurnar, fötin hans eru talin upp.“
Þú hefur engu að síður náð ótrúlegum smáatriðum tengdum ævi Valgerðar. Kirkjubækur eru yfirleitt þöglar um annað en fæðingar- og dánardaga eða er ekki svo?
„Oftast nær er það svo en stundum stendur eitthvað aðeins meira eins hvort barnið sé ektafætt, þ.e. í hjónabandi og hvort um sé að ræða fyrsta hjúskaparbrot eða eitthvað annað. Sóknarmanntölin segja einnig frá hvernig fólk fluttist milli bæja, kunnáttu fólks þ.e. hvort það kann að lesa og svo er talað um gáfnafar eða hegðun og það er hægt að læra ýmislegt af því. Mjög margt af því sem sagt er frá í bókinni gerðist í raun og veru. Ég hef kannski gott auga fyrir því hvað er hægt að nota eins og með fötin hans Skafta, ég nefni þau fyrst í brúðkaupi Guðrúnar dóttur hans, frakkann bláa og kamelhárshattinn sem kemur oftar við sögu. Nokkrum árum seinna kemur hann að sækja Valgerði vestur í Kinn. Þar var hún búin að kynnast ungum manni og faðir hennar vill fá hana með sér heim. Þá læt ég hann hengja fötin á snaga og þau kveikja með henni einhverjar tilfinningar, hana langar heim en vill þó ekki fara þangað. Það er svo margt svona sem hægt er að nota.“
Þær áttu drauma og þrár
Nútímafólk heldur gjarnan að allt hafi verið einfaldara hér í eina tíð. Verkaskipting og hlutverkaskipting skýr. Allir vissu hvar í stétt þeir stóðu og konur áttu heima í eldhúsinu. Bókin um Völskuna, Valgerði Skaftadóttur, kennir okkur kannski helst að formæður okkar áttu sér drauma og þrár sem voru utan við hefðbundin kvenhlutverk. Við gerum kannski ráð fyrir að konur og menn gangi bara glöð inn í sín hlutverk. En söguhetja þín er kona sem sannarlega þráir annað og meira.
„Já, og það hefur áreiðanlega verið miklu algengara en við ímyndum okkur,“ segir Nanna. „Við vitum mun meira um konur sem lifðu um aldmótin 1900 og þar kemur þetta skýrt fram í bréfum þeirra. Þær áttu þessa drauma og þrár og hvers vegna þá ekki formæður þeirra sem lifðu hundrað til hundrað og fimmtíu árum fyrr? Valgerður sér kaupmennina á Vopnafirði og skipin þeirra og hana dreymir um að fara til útlanda. Svo fær hún þetta tækifæri til að fara út og læra, að vísu ekki í skóla.“
Þegar þú fórst að skrifa um þessa konu, fannst þér þú þá á einhvern hátt skilja hana, ná að tengjast henni?
„Það var ég að reyna allan tímann, setja mig í hennar spor, reyna að ímynda mér hvernig henni hafði liðið, hvers vegna hún hafi tekið þessa ákvörðun og allt það. Kannski er hún að sumu leyti svolítið ég þótt ævi okkar hafi vissulega verið mjög ólík.“
Engin illmenni
En er einhver ákvörðun sem hún tók sem þú hefðir aldrei tekið?
„Ég er ekki viss um það. Til dæmis karlmennirnir í lífi hennar, eins og hún hef ég sjálf orðið hrifinn af alls konar karlmönnum. Enginn mannanna sem koma við sögu hennar er illmenni þótt þeir reynist henni misjafnlega. Fyrsti maðurinn í lífi hennar breytist í Móðuharðindunum. Þau hafa svo mikil áhrif á hann og hver veit hvernig þeirra samband hefði orðið ef það hefði ekki komið til. Hún gerir sér að vissu leyti grein fyrir því sjálf þótt henni detti ekki í hug að fara til hans aftur. Það er greinilegt á því sem stendur í kirkjubókunum að hann hefur verið mjög vel gefinn. Sagt er um hann löngu eftir að hún fer frá honum: „Hann hefur mikið góða þekkingu og er skýr og fróður en ekki vel ræmdur.“ Hvort hann var þannig þegar þau kynntust veit ég ekki en ég reyni að láta það koma fram að hún hafi ekki orðið skotin í einhverjum vonlausum náunga. Ég geri hann sjarmerandi strák og þá kemur hann lesendum kannski meira á óvart þegar hann breytist.“
Ertu farin af stað með fleiri bækur?
„Já, ég hef gaman af þessu og ég á fleiri formæður, breyskar,“ segir Nanna og er kímin á svip. „Ég veit svo sem ekki hvað verður úr því. Það fer svolítið eftir hvernig þessari bók verður tekið. Mig langar að skrifa meira. Ég er dálítið þannig að ég fæ dellu fyrir einhverju og svo er misjafnt hvað hún endist. Nú er ég hætt að skrifa matreiðslubækur, það er ekki vegna þess að ég sé hætt að elda en ég nenni ekki að skrifa um mat meira. Matreiðslubókatíminn var annað æviskeiðið hjá mér og nú er ég að byrja á því þriðja og hver veit hvert það leiðir. Það er langt síðan ég ákvað að hætta að vinna sextíu og fimm ára og ætlaði alltaf að nota þann tíma sem þá gæfist til að skrifa eitthvað. Ég vissi svo sem ekki hvað, fyrst velti ég fyrir mér að skrifa fleiri matreiðslubækur en féll frá því og þá kom upp sú hugmynd að skrifa þjóðlegan fróðleik og eitthvað um forfeður mína og formæður. Ég datt svo ofan í þetta.“
Þetta verða lokaorðin hjá Nönnu að þessu sinni en spennandi að sjá hvort bækurnar verði fleiri um formæður og forfeður og þeirra skrautlega líf.
Steingerður Steinarsdóttir blaðamaður Lifðu núna skrifar.