Hver skyldi hafa trúað því að Helgi P., töffarinn úr Ríó tríó, sé orðinn eldri borgari. Enn ein sönnunin á því að þetta hendir okkur öll ef við erum heppin að halda heilsu. Þess vegna er það sem Helgi er að bjóða sig fram til formanns LEB, nú þegar Þórunn Sveinbjörnsdóttir hefur setið í tvisvar sinnum tvö ár, þ.e. út þann tíma sem hún var kjörin og hættir því samkvæmt reglum sambandsins. “Ég hef unnið mikið fyrir Gráa herinn við að vekja athygli á því sem blasir við eldra fólki og við Þórunn höfum þess vegna unnið mikið saman varðandi þau málefni,” segir Helgi. “Ég ákvað því að slá til þegar þessi formannsbreyting lá fyrir. Ég vil halda áfram að fá fólk til að átta sig á að þessi mál snúa ekki bara að okkur sem höfum náð efri árum. Þau snúast um allt samfélagið og ekki síður um yngri kynslóðirnar. Þau sem yngri eru verða að átta sig á því að það þarf að laga þessa hluti því annars lenda þau bara í sömu ógöngum. Grái herinn hefur verið að vekja athygli á stöðunni sem hefur verið að mótast með sístækkandi hópi eldri borgara. Staðan verður svo áberandi þegar nýjar kynslóðir koma inn á sviðið og ráðamenn hafa margir látið eins og hópurinn hafi dottið niður af himninum og verið afar illa undirbúnir.
Við höfum verið að benda á verulegar tekjuskerðingar sem þessi hópur hefur orðið fyrir. Lífeyrissjóðakerfinu hefur vaxið fiskur um hrygg og þá hefur ríkissjóður gripið til þess ráðs að draga úr greiðslum sem fólk hefur átt að fá út úr almannatryggingum á móti. Þrátt fyrir tilraunir til að setjast niður og semja hefur ekkert gengið og um það snúast deilurnar og málið er nú komið fyrir dóm. Við viljum mótmæla því að ríkið hafi heimild til að neita að greiða það sem því ber enda hafi lífeyrissjóðskerfið verið sett á laggirnar sem viðbót við Almannatryggingakerfið. Við samþykkjum ekki að ríkið hafi leyfi til að seilast í peninga sem hafa safnast fyrir af launum okkar. Til þess að fá úr þessu skorið fórum við með málið fyrir dóm.”
Helgi bendir á að hægt sé að breyta slíkum skilmálum gagnvart einum hópi ef einhver stórkostlega vá steðji að þjóðfélaginu því þá þurfi allir að axla byrðar. “Í málaferlunum erum við að benda á að það þurfi að sýna fram á að einhver slík vá blasi við en ekki bara af því þarna séu svo miklir peningar. Ríkið tekur tæpa 40 milljarða á ári úr þessum sjóði. Þetta er stóra málið en svo eru fleiri mál sem liggja þungt á eldra fólki. Til dæmis atvinnuþátttaka eldri borgara. Okkur þykir of stífar reglur gilda um atvinnuþátttöku þessa hóps. Við sættum okkur ekki við ríkjandi hugarfar um að eldra fólk sé úr leik. Það kemur ekki síst niður á eldri konum sem þykja orðnar gamlar um 55, 60 ára. Það er ótækt og er hugarfar sem við verðum að snúa við. Og nú ætlar þessi fjölmenni hópur að hafa hátt og ítreka bréfið sem formenn Fálaga eldri borgara í landinu sendu stjórnmálaflokkunum sem var hvatning til þeirra að hafa fólk, sem komið er á eftirlaun, í öruggum sætum í næstu kosningum,” segir Helgi Pétursson sem nú býður sig fram til formanns Félags eldri borgara.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.