Dame Maggie Smith er látin 89 ára aldri. Synir hennar Chris Larkin og Toby Stephens tilkynntu andlát hennar. Íslenskir sjónvarpsáhorfendur minnast hennar helst fyrir hlutverk greifynjunnar Violet Crawley í Downton Abbey en hún var ákaflega fjölhæf leikkona og á að baki fjölbreytt hlutverk á sviði, í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum.
Í tilkynningu frá sonum hennar segir: „Með miklum trega verðum við að tilkynna lát móður okkar, Dame Maggie Smith. Hún fékk hægt andlát á sjúkrahúsi í morgun, 27. september. Móðir okkar lét sér annt um einkalíf sitt og hún var meðal sinna nánustu og vina þegar yfir lauk. Hún skilur eftir sig tvo syni, fimm barnabörn sem elskuðu hana og eru miður sín yfir að missa þessa einstöku móður og ömmu.“
Þeir þakka einnig starfsfólki Westminster-sjúkrahússins fyrir umönnun þess og hlýju og öllum sem sent hafa þeim skilaboð og huggunarorð. En biðja einnig um að einkalíf þeirra verði virt. Þeir Chris og Toby eru báðir þekktir og virtir leikarar og hafa eins og móðir þeirra kosið að halda einkalífi sínu algerlega frá sviðsljósinu.
Sló í gegn á efri árum
Hún þótti einstaklega flott gamanleikkona og hafði sérstakan hæfileika til að koma til skila kaldhæðni. Þótt hún væri vinsæl og eftirsótt á sínum yngri árum er gaman að segja frá því að á efri árum náði hún heimsfrægð. Hún lék prófessor Minervu McGonagall í Harry Potter-myndunum, var Constance Trentham í Gosford Park og sló algjörlega í gegn í mynd Alans Bennett The Lady in the Van.
Hún átti einnig stórkostlegan leik í mörgum klassískum verkum í breska þjóðleikhúsinu. Meðal annars lék hún á móti Sir Laurence Olivier í The Lonely Passion of Judith Hearne, og hlaut BAFTA-verðlaun fyrir þá frammistöðu. Hún lék líka Heddu Gabler í samnefndu verki Henriks Ibsen, í leikstjórn Ingmars Bergmans árið 1970. Hún fékk gríðarlega mikið lof gagnrýnenda fyrir frammistöðu sína.
Maggie Smith fæddist 28. desember árið 1934. Hún ólst upp í Oxford þar sem foreldrar hennar voru búsett. Pabbi hennar, Nathaniel var meinafræðingur og móðirin, Margaret, var einkaritari. Maggie byrjaði að leika strax á unglingsárum Playhouse-leikhúsinu þar í borg. Hún lék meðal annars í revíu, Share My Lettuce, á móti sjálfum Kenneth Williams, sem seinna átti eftir að verða heimsfrægur í Carry on-myndunum. Hún fékk fljótt tækifæri í kvikmyndum og var aðeins tvítug þegar hún var tilnefnd til BAFTA-verðlaun fyrir leik sinn í aukhlutverki í Nowhere to Go.
Margtilnefnd til Óskarsverðlauna
Eftir að hún lék í uppsetningu Peters Shaffers á The Private Ear and The Public Eye, bauð Laurence Olivier henni að slást í hóp leikara hjá hinu nýstofnaða National Theatre company, árið 1962. Hún lék mörg burðarhlutverk á næstu árum í uppsetningu leikhússins, m.a. Desdemónu í Óþelló. Það var svo árið 1969 að henni bauðst að leika Miss Jean Brodie í kvikmynd sem gerð var eftir skáldssögu Muriel Spark, The Prime of Miss Jean Brodie, um kennara í Edinborg sem hrífst Mussolini og kenningum fasista. Fyrir þetta hlaut hún sinn fyrsta Óskar.
Hún fékk aftur tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í kvikmyndinni, Travels with My Aunt, en sú kvikmynd er gerð eftir bók Graham Greene. Næsta Óskarstytta bættist svo í safnið árið 1979 að þessu sinni fyrir aukhlutverk í California Suite.
Hún lék nokkuð jöfnum höndum í kvikmyndum og á sviði næstu árin og var enn einu sinni tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir hlutverk sitt í A Room With a View. Hún var eftirminnilega í kvikmynd Francos Zeffirellis, Tea With Mussolini, en myndina byggði hann að nokkru leyti á eigin minningum úr seinni heimstyrjöldinni. Hún og Judi Dench voru báðar stórkostlegar í Ladies in Lavender en þær voru miklar vinkonur utan sviðs og margir muna eftir þætti sem sýndur var á RÚV, Teboð með tignardömum eða Nothing like a Dame, en þar hittust þær Eileen Atkins, Judi Dench, Maggie Smith og Joan Plowright í garðinum við heimili Joan Plowright. Hún er fyrrverandi eiginkona Sir Laurence Olivier og þau bjuggu saman í þessu húsi. Í þættinum rifja þær upp leiklistarferil sinn og vináttu sína sem er orðin nokkurra áratuga gömul.
Maggis Smith var tvígift. Fyrri maður hennar var Robert Stephens og með honum á hún synina, Chris og Toby. Hún og Robert skildu árið 1975 og sama ár giftist Maggie, Beverley Cross. Hann lést árið 1998. Maggie var með ofvirkni í skjaldkirtli og tók lyf við þeim sjúkdómi. Hann veldur því meðal annars að augun verða útstæð. Það verður sjónarsviptir að Dame Maggie Smith en hennar síðasta mynd heitir, The Miracle Club, sem kom út í fyrra og er falleg saga fjögurra ískra kvenna sem leggja upp í ferðalag til lauganna í Lourdes í Frakklandi, hver og ein í leit að sínu kraftaverki.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.