Hjónaskilnaðir fólks á efri árum færast í vöxt í vestrænum ríkjum og er Ísland þar engin undantekning. Á vef bandarísku eftirlaunasamtakanna www.aarp.org segir kynlífs- og hjónabandsráðgjafinn dr. Pepper Schwartz að þótt skilnaðir frægs fólks í eldri kantinum rati í fjölmiðla með stríðsletruðum fyrirsögnum um framhjáhald, sé trúnaðarbrestur af því taginu alls ekki helsta ástæða þess að fólk skilji eftir langvarandi hjónaband.
Fullyrðing Schwartz er ekki úr lausu loft gripin því hún styðst við rannsókn AARP frá árinu 2009 á kynlífi 45 ára og eldri. Samkvæmt niðurstöðunum eru framhjáhöld tiltölulega fátíð í hjónaböndum þessa aldurshóps og þar af leiðandi sjaldan skilnaðarsök. Hvers vegna ákveða hjón til margra ára þá að skilja? Hvers vegna verður hjónabandið þeim svona óbærilegt eftir mörg hamingjurík ár einmitt þegar þau ættu að hafa allar forsendur til að njóta lífsins saman? spyr Schwartz og veltir upp algengri forsögu hjónaskilnaða.
Ástarneistinn fjarar út
Yfirleitt segir hún hjónaskilnaði ekki eiga sér dramatískan aðdraganda, oft séu hjónabönd áratugum saman að liðast í sundur samfara því að ástarneistinn fjarar út. Slík hjónabönd séu eins og blaðra sem loftið seytlar smám saman úr og tæmist loks alveg. Óvenjulegra sé að blaðran springi með ógurlegum hvelli, eins og þegar kvikmyndaleikarinn Arnold Schwarzenegger og Maria Shriver, skildu árið 2011 eftir 25 ára hjónaband, hann þá 64 ára, hún 46 ára. Þar á bæ var enda framhjáhald í spilinu, upp komst að húsbóndinn, sem alla jafna ku hafa verið lausgyrtur, hafði getið húshjálpinni barn fjórtán árum áður. Blaðran hlaut að springa með hvelli að mati Schwartz.
Einnig sé vaxandi ósamkomulag hjóna vissulega til í dæminu. Þótt flest vandamál séu að hennar sögn yfirstíganleg geti ófyrirséðar aðstæður eða hvers kyns breytingar verið eins og bensín á eldinn; nýtt starf annars hvors makans, heilsufar, persónulegur metnaður og annað þvíumlíkt nefnir hún sem skilnaðarorsök.
Schwartz gefur sér líka að frasinn „við uxum frá hvort öðru“ sé ekki innantómur heldur raunveruleg ástæða þess að margir taka þá ákvörðun að segja skilið við maka sinn þótt nokkuð sé á ævina liðið. Afar dæmigert sé að eiginmaðurinn sökkvi sér æ meira niður í vinnu sína og líf eiginkonunnar fari að snúast svo til einvörðungu um börnin og barnabörnin. Eða að konan fyllist metnaði á einu eða öðru sviði utan heimilisins á sama tíma og karlinn vill fara að slaka á, ferðast og spila golf.
Þar til dauðinn aðskilur okkur
Í fyrra upplýsti The New York Times að í fyrsta skipti væru fráskildir fimmtugir og eldri Bandaríkjamenn fleiri heldur en ekkjur eða ekklar. Gráir hjónaskilnaðir var yfirskrift greinarinnar. „Þar til dauðinn aðskilur okkur“ virðist ekki lengur eiga við sagði blaðið. Svipað virðist vera uppi á teningnum á Íslandi, a.m.k. segja tölurnar þó nokkra sögu. Á árunum 1961 – 1965 fengu 25 karlar og 13 konur eldri en fimmtug að meðaltali lögskilnað á Íslandi samkvæmt vef Hagstofunnar, 110 karlar og 77 konur árið 2001 og árið 2011 voru karlarnir 153 og konurnar 102. Þótt tekið sé tillit til fólksfjölgunar blasir við að aukningin er töluverð.
Til allrar hamingju segir Schwartz að flest hjón glími ekki við áþekkan vanda og þau Schwarzenegger og Shriver. Óneitanlega séu þó ýmsar holur í veginum á langri leið, flestir komist upp úr en sumir ekki. Því miður sé það svo að jafnvel þótt gagnkvæm væntumþykja sé fyrir hendi fái margir einfaldlega nóg af hjónabandinu. Hvers vegna? spyr ráðgjafinn og virðist loks komast að kjarna málsins í grein sinni á fyrrnefndum vef.
Fólk lifir lengur. Fyrir hálfri öld fannst fólki í óhamingjusömu hjónabandi ekki taka því að skilja við maka sinn, það þyrfti hvort sem væri bara að þrauka í nokkur ár í viðbót. Öðru máli gegnir núna þegar meiri líkur en minni eru á að 65 ára lifðu í 20 ár til viðbótar við góða heilsu – og kærðu sig ekki um að verja þeim í ástlausu hjónabandi oft með tilheyrandi leiðindum og vonbrigðum. Auk þess eru viðhorf Baby Boomers kynslóðarinnar (f. 1946 – 1964) til hjónabandsins gjörólík kynslóðarinnar á undan. Eftirstríðsárakynslóðinni fellur hlutverk skyldurækna en óhamingjusama makans einfaldlega ekki í geð.