Valentino Garavani er látinn 93 árs að aldri. Árum saman var um hann sagt að hann elskaði konur. Hann var samkynhneigður en naut þess engu að síður draga fram fegurð og kosti kvenlíkamans í hönnun sinni. Margir kollega hans voru á hinn bóginn sakaðir um að vilja þrengja að konum, draga úr sveigjum og bogalínum kvenlíkamans og gera þær sem líkastar ungum strákum. Metnaður hans var alla tíð sá að leyfa bæði konum og körlum að njóta sín í fallegum fötum.
Hann dró sig í hlé frá starfi sínu við tískuhúsið árið 2008 og við keflinu tók Pierpaolo Piccioli. Í gegnum tíðina eignaðist Valentino vináttu margra glæsikvenna. Það nægir að telja upp nöfn eins og Audrey Hepburn, Elizabeth Taylor, Jacqueline Kennedy, Jennifer Aniston, Gwyneth Paltrow og Elizabeth Hurley en fyrir allar þessar konur skóp hann glæsikjóla sem þær skörtuðu á rauða dreglinum. Ritstjórar tískutímarita hafa enda oft lýst því yfir að sú sem klæðist Valentino á Golden Globe, Óskarnum eða öðrum stórum Hollywood-uppákomum lendi aldrei á lista yfir þær verst klæddu.
Valentino rauður
Hann var ekki hvað síst þekktur fyrir hárauðan lit sem á síðum tískublaðanna er gjarnan kallaður Valentino-rauður. Kjólarnir eru einnig iðulega dásamlega skreyttir útsaumi, pallíettum, perlum og öðrum fíneríi sem auðvitað er handsaumað á. Pierpaolo hefur einnig umfaðmað rauða litinn en sett eigin svip á hönnunina.
Valentino var rómatískur og það endurspegluðu fötin hans sannarlega. Hann kunni einnig að meta glæsileg módel og meðal þeirra sem fengu fyrst að njóta sín á sýningarpöllunum hjá honum voru Naomi Campbell, Claudia Schiffer og Eva Herzigova. Þær héldu allar tryggð við hann allan starfsferil sinn og gengu á síðustu sýningu hans árið 2007 í Musée Rodin in Paris. Athygli vakti einnig þegar hin þeldökka Adut Akech gekk pallana hjá honum en hún fæddist í Suður-Súdan en varð að leggja á flótta ásamt móðir sinni og fimm systkinum undan stríðsátökum og hörmunugum. Þau komust til Kakuma í Kenía og bjuggu þar í flóttamannabúðum þar til Adut var sjö ára en þá fengu þau hæli í Ástralíu. Adut var aðeins þrettán ára þegar ástralskur fulltrúi módelskrifstofu kom auga á hana og eftir það var ekki aftur snúið. Fyrsta ganga hennar eftir tískupöllunum var fyrir ástralskan hönnuð en það nægði til að hún vakti athygli stærstu hönnuða heims.
Kunni að meta gamlar ítalskar kvikmyndir
Valentino Clemente Ludovico Garavani fæddist 11. maí árið 1932 í Voghera í Lombardi-héraði á Ítalíu. Hann hóf ungur störf í tískuiðnaðnum og lærði af ýmsum hönnuðum sem unnu í nágrenninu en þar á meðal var frænka hans Rosa. Hann hóf formlega menntun í École des Beaux-Arts og Chambre Syndicale de la Couture Parisienne á sjötta áratugnum. Hann hélt aftur heim til Ítalíu árið 1959 og á göngu eftir Via Veneto ári síðar hitti hann Giancarlo Giammetti. Eftir það voru þeir óaðskiljanlegir og arkitektinn Giancarlo aðstoðaði mann sinn oftar en ekki við störf sín. Hann fékk Neiman Marcus tískuverðlaunin árið 1967. Hann og Giancarlo ráku fyrirtæki sitt allt til ársins 1998 þegar þeir seldu það fyrir um það bil 300 milljónir dollara. Síðan hafa þeir ferðast um heiminn milli þess sem þeir hvíla sig í einu af fimm glæsiheimilum sínum sem staðsett eru í jafnmörgum löndum eða sigla um á snekkju sinni.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







