Jónas Kristjánsson lagði allt sitt líf höfuðáherslu á heilbrigt mataræði, hæfilega hreyfingu, hæfilega hvíld og fræðslu. Hann taldi að með því gætu menn öðlast betra líf. Það er merkilegt að maður sem var fæddur árið 1870, skyldi hafa á takteinum það sem eru almenn sannindi í heilsubylgju nútímans. Það gekk ekki þrautalaust hjá Jónasi að sannfæra landsmenn um kenningar sínar og á stundum mætti hann hatrammri andstöðu, ekki síst félaga sinna í læknastétt. Á sjötta áratug síðustu aldar átti að reka hann úr Læknafélagi Íslands. Jónas sat á Alþingi á árunum 1926 til 1930 og sagði síðar að það hefði verið leiðinlegasta tímabil ævi sinnar – alger tímasóun.
Missti móður sína
Gunnlaugur K. Jónsson forseti Náttúrulækningafélags Íslands og langafabarn Jónasar, segir að það sem hafi haft mest áhrif á hvaða stefnu líf langafa hans tók, hafi verið að hann missti móður sína 11 ára gamall. Lífsbaráttan var hörð og hún hafði borðað saltað kjöt sem rak á land í tunnu sem menn töldu að væri af skipi sem hefði farist. Hún lést skömmu síðar og Jónas hét því að verða læknir til að koma í veg fyrir að lítil börn þyrftu að missa mæður sínar að óþörfu.
Beitti sér fyrir gerð vatnsveitu
Jónas sem var skurðlæknir, var héraðslæknir í Sauðárkrókshéraði frá árinu 1911 til 1938 en þar á undan var hann læknir á Fljótsdalshéraði frá árinu 1901. Hann lagði mikla áherslu á hreinlæti og sveið að sjá hversu margar konur létust af barnsförum. Hann beitti sér fyrir að gerð var vatnsveita á Sauðárkróki og stuðlaði að stórauknu hreinlæti í sveitunum en við það batnaði heilsufar og barnadauði minnkaði stórlega. Önnur sveitarfélög tóku sér þetta til fyrirmyndar. Frægt var að í spænsku veikinni árið 1918, beitti hann sér fyrir því að Holtavörðuheiði var lokað fyrir umferð og einnig Skeiðarársandi, í samráði við héraðslækninn þar syðra og sýslumann. Veikin barst því hvoki norður fyrir heiðina, né austur fyrir sandinn.
Stofnun náttúrulækningafélaga
Jónas kynnti sér snemma náttúrulækningar bæði austan hafs og vestan og fékk óbilandi áhuga á þeim. Þegar hann hætti sem héraðslæknir vegna aldurs, varð hann helsti hvatamaður að stofnun Náttúrulækningafélag Íslands. Það var tilgangur félagsins að vinna að stofnun heilsuhælis sem beitti „náttúrulegum heilsuverndar og lækningaaðferðum“, en þær snerust um ljós, vatn, loft mataræði, hreyfingu og hvíld. Einkunnarorð félagsins þá og nú, eru „Berum ábyrgð á eigin heilsu“.
Sykur eitur í beinum náttúrulækningafólks
Heilsuhæli Náttúrulækningafélag Íslands í Hveragerði var opnað 24.júlí árið 1955, fyrir nákvæmlega 60 árum. Það var nálægt jarðhita og þar var hægt að rækta grænmeti og matjurtir. Um tíma voru vel á annan tug náttúrulækningafélaga starfandi á landinu. Þau börðust gegn innflutningshöftum, þannig að fæði fólks gæti orðið fjölbreyttara. Sykur og hvítt hveiti voru ævinlega eitur í beinum náttúrulækningafólks. Nú eru tvö náttúrulækningafélög starfandi hér á landi.
Mögnuð stofnun
Gunnlaugur segir að oft hafi Jónas langafi hans þurft að berjast fyrir sínu og hann hafi verið óþreytandi. Heilsuhælið var opnað þegar hann var 85 ára. Hann eldaði grátt silfur við ýmsa félaga sína í læknastétt og gagnrýndi til dæmis harðlega að tóbak væri auglýst í blaði Læknafélags íslands. Á móti voru óhefðbundnar lækningar hans gagnrýndar. Sjálfur hafði hann stofnað fyrsta tóbaksvarnafélag landsins á Sauárkróki árið 1929. Þegar 145 ár eru liðin frá fæðingu hans er Heilsustofnunin í Hveragerði sextug. Þetta er mögnuð stofnun og þar vinnur hópur sérfræðinga gríðarlegt starf á sviði heilsu og forvarna. „Hann fékk aldrei að njóta eldanna sem hann tendraði á sínum tíma“, segir Gunnlaugur.