Hvað er í pakkanum?  

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Ef þér í nöp við einhvern skaltu senda viðkomandi pakka milli landa. Ég fékk á dögunum tilkynningu frá Póstinum um að  mér hefði borist sending frá útlöndum. Sendandinn var kona sem ég hafði verið að leiðsegja um landið. Sennilega átti þetta að vera þakklætisvottur fyrir þjónustu sem hún hafði verið ánægð með. Í bréfinu frá yfirvaldinu segir að ég eigi að fara inn á postur.is/sendagogn, sem ég geri. Þar gef ég tollyfirvöldum umboð til þess að opna pakkann og tilkynni jafnframt að þetta sé gjöf og því viti ég ekki innihaldið. Mér er líka sagt að geymslugjald reiknist hjá Tollinum eftir 7 daga frá því tilkynning hafi verið send. Að þeim tíma liðnum á ég, sæki ég ekki pakkann, að greiða 195 krónur á dag.

  Ég taldi að málið væri í höfn eftir að hafa svarað beiðninni og ég fengi pakkann í mínar hendur. Nei. Í næsta bréfi er mér sagt að nú skuli ég láta tollyfirvöld frá afrit af reikningi sem sýni verðmæti pakkans eða senda gögn um verð á sambærilegri vöru. Nú fauk í suma. Ég sendi yfirvaldinu svarbréf þess efnis að pakkinn væri gjöf, ég hafi enga hugmynd um innihaldið né verðið og myndi ekki senda gefandanum beiðni um að upplýsa verðið á gjöfinni. Ég er þannig uppalin að slík væri talið argasti dónaskapur. Ég sagði Tollinum að hann gæti haldið pakkanum fyrir sig, hent honum eða endursent. Ekkert svar. Ný tilkynning kemur um pakka sem bíður mín.

Ég ákvað að brjóta odd af oflæti mínu og heimsótti pósthúsið fyrir norðan í gær. Ég andaði djúpt að mér og frá áður en ég fór inn. Þar fékk ég sömu spurningar um innihald og verð og ný skýrsla var fyllt út af starfsmanni sem sagði mér að gjöfin lægi á bretti í tollafgreiðslunni fyrir sunnan. Hann sagði mér að ef upplýsingarnar væru nægjanlegar myndi ég fá sms. Enn er ekkert sms komið.

Nú er liðinn rúmur mánuður frá því að ég fékk fyrstu tilkynningu í þessari vonlausu baráttu. Skuld mín við Tollinn er nú orðin tæpar 4.000 krónur og hækkar bara með hverjum deginum sem líður. Ég læt frekar taka hjá mér lögtak en að greiða þessa upphæð.

Fyrir kurteisis sakir er ég búin að senda amerísku konunni þakkarbréf og lýsa ánægju minni með gjöfina. Hún verður því sennilega nokkuð undrandi þegar hún fær pakkann endursendan frá íslenskum tollyfirvöldum.

 

Sigrún Stefánsdóttir október 3, 2021 07:00