Maðurinn er einfaldlega gáfað spendýr og Sæunn Kjartansdóttir sálgreinir opnar augu lesenda sinna fyrir því að aðeins með því að sættast við og skilja dýrið í sjálfum sér getur fólk orðið heilt og lifað innihaldsríku lífi í bók sinni, Gáfaða dýrið. Þetta stórmerkileg bók og allir sem hafa áhuga á að skilja tilfinningar sínar og upplifanir betur ættu að lesa hana.
Sæunn fer í gegnum þörf okkar fyrir nánd, tengsl og umhyggju og hvernig sífellt takast á frumstæði heilinn og heilabörkurinn þar sem hugsunin og persónuleikinn býr. Streita og ótti setjast að í mannsálinni þegar umhverfið svarar ekki á þann hátt sem hún þarfnast og þá er voðinn vís. Í kaflanum, Að verða gamall, fjallar Sæunn um mismunandi viðhorf til ellinnar og hvernig samfélög koma fram við eldri borgara sína. Hún fer öfganna á milli, bendir á að sums staðar njóti eldra fólk virðingar og sótt sé í viskubrunn þess þegar á þurfi að halda en annars staðar séu eldri borgarar afgangsstærð og helst geymdir afskiptir á hliðarlínunni.
„Viðkvæmi barna gagnavart öldrun er þó smámunir miðað við óþolið sem samfélagið hefur fyrir gömlu fólki. Á sjötugsafmælinu er því ýtt út af vinnumarkaðnum, óháð heilsu og getu, og þegar hvort tveggja dvín hefur velferðarkerfið ekki áhuga á því. Skilaboðin eru skýr: Gamalt fólk er dýrt og það er fyrir.“ (Gáfaða dýrið, bls. 174)
Viska nýtt eða byrðinni kastað
En þetta hefur ekki alltaf verið svo og ekki í öllum samfélögum: „Vegna reynslu sinnar og visku nýtur „vitri öldungurinn“ virðingar og umönnunar. Hann býr yfir þekkingu sem yngra fólkið skortir og þess vegna þarfnast það hans. Jared Diamond skrifar um slíkt dæmi frá Nýju-Gíneu þar sem hann bjó meðal veiðimanna og fæðusafnara sem ekki hafa tileinkað sér ritmál. Þekkingu og reynslu kynslóðanna er miðlað frá manni til manns, til dæmis nöfnum og eiginleikum hinna ýmsu dýra- og plöntutegunda sem eru uppistaða í lífsviðurværi fólks.“ (Gáfaða dýrið bls. 175)
Það er þó alls ekki einhlítt að öldungurinn njóti virðingar. Gamlingjarnir eru ekki bara fyrir í nútímalegum vestrænum samfélögum, þeir eru byrði þar sem fátækt og mannmergð er mikil og þar þekkist jafnvel að þeim sé fórnað til að tryggja betri lífsgæði hinna yngri. Sæunn nefnir svokallað talaikoothal aðferð notuð í Tamil í Nadu-ríki á syðst á Indlandi til að svæfa gamalt fólk svefninum langa þegar börnin hafa ekki lengur efni á að halda öldruðum foreldrum sínum uppi. Hún minnir einnig á að meðal Inúíta hafi gamla fólkinu verið gert að ganga út á ísbreiðuna til að krókna og fórna sér þannig fyrir hina. Víðar hafi dráp af þessu tagi verið þekkt þótt erfitt sé að skilja milli mýtu og veruleika í sumum tilfellum. Hér á landi varð gamalt fólk iðulega niðursetningar eða hornrekur á heimili barna sinna og tengdabarna og því miður þónokkur dæmi í sögunni um að ekki hafi verið vel að þeim búið.
Eins og ferskur andblær
„Þegar ég var yngri ímyndaði ég mér að haustið í lífi mínu hefði laaangan aðdraganda og ég fengi góðan tíma til að venjast tilhugsuninni um sumarlok. En ekki aldeilis. Áður en ég vissi af var ég orðin sextug.“ (Gáfaða dýrið bls. 172)
Líklega geta allir tekið undir þetta. Lífið þýtur hjá á óskiljanlegum hraða og hið innra finnst manni maður ekkert breytast en ytra byrðið eldist og skyndilega banka upp á alls konar líkamlegir kvillar, smávægilegir og stærri og maður þarf að sætta sig við að geta ekki það sem áður veittist létt. Áhugamálin verða hugsanlega ekki eins skemmtileg eða aðlaðandi og margt svo nýstárlegt og ókunnuglegt við samtímann að maður finnur sig utanveltu og vanmáttugan. Þessi bók er þess vegna eins og ferskur andblær. Sæunni er óvenjulega berorð og hreinskilin í allri umfjöllun sinni og segir einmitt í formála að hún hafi hikað áður en hún ákvað að leggja upp í þá vegferð að skrifa þessa bók. Einmitt vegna þess að hún óttaðist viðbrögð fólks. En að halda uppi spegli sem hvorki fegrar né afskræmir er hún að opna okkur leið til betri og dýpri skilnings á okkur sjálfum. Henni er einkar lagið að koma hlutunum frá sér á auðskiljanlegan og rökrænan hátt og viðhorf hennar lýsa umburðarlyndi og gæsku, orð hennar eru laus við alla áfellisdóma eða hneykslun. Hún kennir betri leiðir til að takast á við eigin ófullkomleika og sýna sjálfum sér þá gæsku að byggja upp í stað þess að brjóta niður.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.