Hvað hefur maður gert rétt í lífinu og hvað rangt?

„Ég ætla að fara í gegnum mína Íslandssögu á sýningunni. Saga hvers manns er spegill þess tíma sem hann hefur lifað og öll erum við hluti af sögunni,“ segir Egill Ólafsson söngvari sem verður með sýningu á Söguloftinu í Landnámssetrinu í Borgarnesi næstu helgar. „Ég verð dálítið bundinn við bernskuna og verð  svolítið að skoða úr hvaða efni ég er gerður. Með tímanum hefur maður öðlast fjarlægð á liðna atburði og hluti og getur því sagt frá, án þess að vera með tilfinningasemi. Ég mæli þetta af munni fram. Maður er svolítið að velta því fyrir sér hvað maður hafi gert rétt í lífinu og líka hvað maður hafi gert rangt. Svo segi ég frá mönnum og atvikum úr mínu lífi.  Segi frá skemmtilegu fólki sem hefur orðið á vegi mínum og líka miður skemmtilegu fólki,“ segir Egill. Hann lætur ekki þar við sitja heldur grípur í grítarinn inn á milli atriða og spilar og syngur  lög sem hann fléttar inn í sýninguna.  „Það má segja að ég segi sögur af samtíð, fortíð og framtíð og ferðast um í tímahulstri eigin tónlistar,“ segir hann.

Sýningin í Landnámssetrinu byggir að hluta til á nokkuð óhefðbundinni ævisögu Egils sem hann skrifaði í samvinnu við Pál Valsson og kom út fyrir síðustu jól, Egilssögur –á meðan ég man.  Páll sagði þegar bókin kom út að hún væri tilraun til að segja ævisögu manns í gegnum sögunar sem hann segir.  Egill segir að eiginkona hans Tinna Gunnlaugsdóttir, leikkona og leikstjóri hafi hjálpað sér að koma sýningunni á laggirnar. „Hún var vakin og sofin yfir þessu, Tinna hefur verið betri en enginn. Það er alltaf gott að fá sjónarhorn annanra á það sem maður er að gera og raunar alveg nauðsynlegt,“ segir Egill.

Góð aðsókn hefur verið á sýningarnar á Sögulofinu og sýningarnar með Agli verða fáar. Áhugasömum er því bent á að tryggja sér miða í tíma. „Það er hins vegar aldrei að vita nema ég komu aftur síðar ef vel gengur,“ segir hann.

 

Ritstjórn mars 3, 2016 15:19