Margir spyrja sig þessarar spurningar þegar starfslok fara að nálgast. Á vef Landssamtaka lífeyrissjóða er að finna margvíslegar upplýsingar um lífeyrismál meðal annars upplýsingar um hvernær hægt er að byrja að taka út úr lífeyrissjóði.
Það er nokkuð breytilegt eftir sjóðum en almenna reglan er að hægt sé að hefja töku ellilífeyris á aldrinum 62 til 70 ára. Ellilífeyrir er greiddur út mánaðarlega með jöfnum greiðslum til æviloka. Viðmiðunaraldurinn er ekki sá sami hjá öllum lífeyrissjóðum en flestir miða við 67 ára aldur. Hægt er að flýta eða fresta töku ellilífeyris, oftast frá 62 ára aldri og hjá nokkrum sjóðum eru engin efri aldursmörk á því, hversu lengi er hægt að fresta töku ellilífeyris. Mánaðarlegar greiðslur lækka eða hækka í samræmi við flýtingu eða frestun á töku lífeyrisins. Ef sjóðfélagi flýtir töku ellilífeyris fær hann lægri lífeyri á mánuði, en í lengri tíma og ef hann seinkar töku ellilífeyris fær hann hærri greiðslur mánaðarlega í skemmri tíma. Það ræðst af því hvað sjóðfélaginn lifir lengi hvort hann hagnast eða tapar á þeirri ákvörðun sinni að taka lífeyrinn fyrr eða seinna“.
Það þarf að sækja um ellilífeyri hjá lífeyrissjóðunum. Ef menn eiga rétt á lífeyri er nóg að sækja um lífeyri til sjóðsins sem síðast var greitt í, eða hjá þeim sjóði sem menn eiga mest réttindi hjá. Sjóðurinn sendir umsóknina síðan áfram til annarra sjóða. Lífeyrisréttindi fólks eru mismunandi og almannatryggingakerfið er fyrir þá sem eiga lítinn rétt í lífeyrissjóðnum. Um þetta segir á heimasíðu Landssamtakanna:
Réttindi þín í lífeyrissjóðum miðast við þau iðgjöld sem þú hefur greitt til þeirra á starfsævinni. Almannatryggingakerfið tryggir öllum lágmarkslífeyri, einnig þegar lítið eða ekkert hefur verið greitt í lífeyrissjóð. Öllum starfandi einstaklingum er skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði og greiða til hans ákveðinn hundraðshluta af launum sínum. Launagreiðendur greiða mótframlag í þessa sjóði fyrir hvern starfsmann. Ef einstaklingur hefur ekki verið á vinnumarkaði og þar af leiðandi greitt mjög lítið eða ekki neitt í lífeyrissjóð, hleypur almannatryggingakerfið undir bagga með hærri greiðslum. Nánari upplýsingar um almannatryggingar má finna á vef Tryggingastofnunar ríkisins, www.tr.is “