Hversu mikið leggur þú á hreinsikerfi líkamans?

Nútímalífsstíll skapar mikið álag á þau líffæri sem sjá um að hreinsa líkamann. Nýru, sogæðakerfi, lungu, milta, ristill og lifur eru þar öflugust og sjá um að vinsa ýmis eiturefni úr fæðu og skila þeim út úr kerfinu. Margar matvörur í dag innihalda efni sem eru okkur alls ekki holl og áfengi er beinlínis eitur. Ef þessi líffæri virka ekki eins vel og æskilegt er finnum við fljótlega fyrir því. Ýmsir sjúkdómar taka að herja á og þreyta og orkuleysi er viðvarandi.

Til allrar lukku er hægt að gera margt til að hjálpa hreinsunarkerfinu að vinna vel. Meðal annars með því að sleppa því alveg að smakka vín. Etanólð í áfengi er eitur og lifrin sér um að brjóta það niður og hreinsa það úr blóðinu. Meðan áhrifa áfengis gætir er lifrin á yfirsnúningi og ekkert annað kemst að. Langvarandi og mikil drykkja hreinlega eyðileggur lifrina. Nýlega mátti lesa þau válegu tíðindi í grein eftir Sigurð Ólafsson í Læknablaðinu að skorpulifur væri í stórsókn hér á landi. Það er því full ástæða til að hvetja fólk til að draga verulega úr neyslu áfengis eða jafnvel hætta henni alveg.

Lifrarsjúkdómar valda fjárhagstjóni

Í niðurstöðum alþjóðlegrar rannsóknar á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar sem birt var árið 2022 er fullyrt að lifrarsjúkdómar hafi veruleg áhrif á efnahagslíf á Vesturlöndum. Bæði séu tapaðar vinnustundir af þeim orsökum mjög margar en einnig aukið álag á heilbrigðiskerfi landanna. Lifrarsjúkdómar á borð við skorpulifur og krabbamein séu einnig orsök ótímabærra andláta fólks á besta aldri. Sérstaklega eru konur útsettar fyrir þessum sjúkdómum því etanól sest að í fituvefjum og það tekur konur mun lengri tíma að brjóta það niður og losa það úr líkamanum en karla. Á sama tíma og lifrarkrabbamein og skorpulifrartilfellum fjölgar meðal kvenna beina áfengisframleiðendur auglýsingum sínum í auknum mæli að þeim. Í Bandaríkjunum er hafin herferð gegn slíku undir kjörorðinu: Don’t Pink My Drink eða Ekki lita drykkinn minn bleikann. Forsvarskonur átaksins segja að það hafi gengið fram af þeim þegar auglýst var bleikt kampavín, frábært í baby shower, eða barnasturtu. Kvennaboð sem snýst um að gleðja barnshafandi vinkonu.

Ráð og tillögur

Áfengisneysla hefur einnig slæm áhrif á nýru, sogæðakerfi og slímhúð líkamans. Etanól er krabbameinsvaldur og talið valda sjö tegundum krabbameina. En margt má gera fleira til að efla hreinsunarkerfi líkamans annað en að hætta að drekka. Hér koma nokkur ráð og tillögur:

– Drekktu hreint og tært íslenskt vatn og forðastu aðra drykki.

– Reyndu að forðast að drekka áfengi ofan í lyf.

– Eldaðu allan mat frá grunni og forðastu mikið unnin matvæli.

– Borðaðu trefjar. Fimm skammtar af ávöxtum og grænmeti hvern dag er góð regla og ákaflega hollt fyrir ristil og þarma.

– Dragðu úr neyslu sykurs af fremsta megni.

 

Ritstjórn júlí 6, 2024 07:00