Jóhanna Björk Briem horfir inn á við eftir alvarlegt slys

Fyrir þremur árum lenti Jóhanna Björk Briem í alvarlegu slysi þar sem hún var að vinna upp fyrir sig í stiga í sumarhúsi fjölskyldunnar. Þau hjónin höfðu verið í uppbyggingu á landinu um hríð og voru kappsöm að klára ýmislegt fyrir veturinn. Þau keyptu landið ekki síst til þess að geta haft hross sín hjá sér en Jóhanna er alin upp við hestamennsku.

Óþolinmæðin varð henni að falli

Fararskjótinn með ömmu er gjarnan hjólbörur í sveitinni.

Þau hjónin skutust austur þennan dag fyrir þremur árum og má segja að óþolinmæði Jóhönnu hafi orðið henni að falli. Hún segist hafa verið að drífa þetta verkefni alltof mikið af og einhverra hluta vegna hafi hún dottið úr stiganum og lent á hörðu gólfinu. „Ég man svo vel eftir sekúndubrotinu þegar ég lenti á gólfinu að ég hugsaði: vá ég lenti á báðum fótum og allt er í fína lagi.“ Raunin varð nú samt allt önnur. Jóhanna lenti svo illa að sköflungurinn á hægri fótlegg mölbrotnaði, flest liðbönd og festingar slitnuðu í hnjáliðnum og hún fór úr hnjálið. „Ég þurfti að fara í tvær aðgerðir, fyrst svokallað x-fix og síðan stóru aðgerðina. Ég fékk alveg frábæran bæklunarskurðlækni sem setti stóran gervilið í mig, skrúfur og pinna. Hann gerði þetta svo vel af sinni einstöku snilld og ég verð honum ævinlega þakklát fyrir að hafa í raun bjargað lífi mínu. Eftir á sagði hann mér að slysa- og bráðalæknirinn sem skoðaði myndirnar hefði dæmt fótlegginn ónýtan, sem var vissulega áfall og ég skildi alvarleika málsins. Á sama tíma áttaði ég mig á hvað ég var heppin að þessi skurðlæknir tók við mér. Þegar ég heyrði að endurhæfingin tæki minnst tvö ár man ég eftir að hafa hálfpartinn upplifað vonleysi, en þá kom viljastyrkurinn og þrjóskan upp í mér og ég hugsaði að ég ætlaði sko að afsanna þetta,“ segir Jóhanna og brosir. „Raunin varð vissulega sú að endurhæfingin var algjörlega tvö ár og gott betur og ég tel mig enn þá vera í endurhæfingu, því ég ætla mér að ná meiri hreyfigetu. Ég mun auðvitað aldrei verða söm í fótleggnum eftir þetta slys en með gífurlegri vinnu og hjálp margra hefur mér tekist að ná mjög góðum árangri,“ segir Jóhanna en nú eru liðin þrjú ár frá deginum örlagaríka. En hvernig fór hún að?

Ekki venjulegt fótbrot

Jóhanna við kartöfluuppskeru í sveitinni. Hún stefnir á frekari ræktun á næstu árum.

„Ég sá sjálf í gegnum buxurnar hvar lærleggurinn var fyrir innan sköflunginn,“ segir hún og hryllir sig. „Það var því strax ljóst að þetta var alvarlegt en ég gerði mér enga grein fyrir því hvað ég átti erfiða tíma fram undan. Það síaðist svo inn hægt og rólega og andlega hliðin hrundi nokkrum sinnum,“ segir hún alvarleg. „Ég átti að fara á Reykjalund eftir tvær vikur á spítalanum, en treysti mér engan veginn til þess að fara af einni stofnun yfir á aðra, var alveg komin með nóg af spítalavistinni. Ég fékk að fara heim og fékk heimasjúkraþjálfun en ég mátti ekki stíga í fótinn í sex vikur. Ég fór heim með fyrirætlan um að gera allt sem ég gæti sjálf til að ná góðum bata til viðbótar við frábæra sjúkraþjálfun og aðstoð frá öðrum meðferðaraðilum. Batinn byggir nefnilega að svo stórum hluta á manni sjálfum. Þú færð góðan stuðning og þjálfun en síðan verður þú að leggja á þig mikla vinnu. Sjúkraþjálfunin var kjarninn í meðferðinni, en það sem ég nýtti mér til viðbótar var kírópraktor, heilun, nálastungur, höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð og sjúkranudd. Auk þess var ég auðvitað sjálf að byggja upp hreyfigetuna og síðar meir bættust styrktaræfingar við,“ segir Jóhanna og leggur áherslu á: „Þar sem við erum ekki bara líkami heldur líka hugur og sál (andi), hvernig sem við viljum líta á það, þurfum við á sama tíma að huga að andlega þættinum.“

Jóhanna er augljóslega viljasterk manneskja og í gang fór uppbyggingaferli sem hefur verið gífurleg áskorun, en Jóhanna gafst ekki upp.

Lífið hélt áfram

Jóhanna segir að einmitt á þessum tíma hafi dóttir hennar og fjölskylda neyðst til að flytja út úr húsnæði sínu vegna myglu. „Það var auðvitað alveg sjálfsagt að þau flyttu inn til okkar á meðan viðgerðir fóru fram á húsnæðinu, því við búum rúmt eftir að börnin fluttu að heiman. En enginn vissi að á sama tíma yrði ég neydd í þetta erfiða verkefni sem mér var fært fyrirvaralaust.“ Jóhanna segir að hún hafi tekið nærri sér að geta ekki orðið að liði eins og þurfti heldur hafi öll hennar orka farið í hana sjálfa. Jóhanna upplifði mikið orkuleysi fyrsta árið, en svo fór orkan að aukast smám saman. „Í bataferli þarf líkaminn á allri sinni orku að halda til þess að græða það sem aflaga hefur farið,“ segir Jóhanna.

Leitin að tilganginum og breytt hugarfar

Jóhanna fær orkuna úr náttúrunni og nýtir öll tækifæri til útiveru vel.

Frá unga aldri hefur Jóhanna haft mikinn áhuga á hreyfingu og auk þess, eins og hún segir sjálf, verið „á andlegri leið í lífinu“, í leit að dýpri merkingu og tilgangi. Jóhanna fékk líka mikinn áhuga á mataræði seinna meir en hennar ástríða hefur verið samspil hugar og heilsu, þ.e. hvernig við getum sjálf, á heildrænan hátt, stuðlað að vellíðan, bæði andlegri og líkamlegri. Menntun hennar hefur því stýrst af þessu áhugasviði. Hún er löggiltur sjúkranuddari, höfuðbeina- og spjaldhryggsjafnari og hefur einnig MA-gráðu í áhættuhegðun og forvörnum frá HÍ. Jóhanna er auk þess jógakennari frá Himalayan Yoga Institute og Amrit yoga Nidra leiðbeinandi. Öll þessi þekking hefur nýst henni fullkomlega og er líklega stór ástæða þess hversu langt hún er komin á leið sinni til bata.

Var keyrð inn í núvitund

„Að mega ekki stíga í fótinn í sex vikur keyrði mig hreinlega inn í núvitundina. Það var ekkert annað í stöðunni en að bíða eftir að dagarnir liðu, dvelja í mér og

Nú eru göngustafir með í för í fjallaferðunum.

með mér. Ég átti á köflum svo erfitt að ég fann innra með mér að ég þyrfti að koma út úr þessum hildarleik sem breytt manneskja. Ég vildi draga andlegan lærdóm af þessu verkefni, þetta var alltof erfitt til þess að svo yrði ekki. Ég vildi ná meiri sátt og skilningi á lífinu,“ segir Jóhanna. „Þannig varð ég að finna alls kyns sjónarhorn og leiðir sem myndu styðja mig í þeirri vegferð.“

BATAFERLIÐ: 

„Það merkilega gerðist þegar ég beið eftir að dagarnir liðu, fór ég að horfa yfir farinn veg og sá hvað ég hafði upplifað ótrúlega mikið í lífinu og horfði fyrst og fremst það jákvæða. Það leiddi til þess að ég fór að finna fyrir svo miklu þakklæti fyrir lífið og allt sem ég hafði. Við erum nefnilega flest frekar vön að „stíma“ áfram og vilja eitthvað nýtt og meira en áttum okkur oft ekki á því sem við höfum í lífi okkar nú þegar og hvað við getum þakkað fyrir. Þegar athyglin fer á þakklætið opnast hjartað, hugurinn lyftist og lífið verður fyllra.“

Jóhanna vann jafnframt með bók sem heitir Magic en þar er markvisst unnið með þakklætisæfingar í 28 daga sem hún segir að hafi haft virkilega jákvæð áhrif á hana. „Þar sem ég hafði litið yfir farinn veg og komið auga á allt sem ég hafði nú þegar upplifað og gert urðu áhyggjur af því sem ég gæti kannski ekki gert í framtíðinni miklu minni,“ segir Jóhanna.

Hugleiðslur gera gæfumuninn

Allir nóta sveitaverunnar.

Í sinni andlegu leit í lífinu kynntist Jóhanna Lótushúsi í Garðabæ fyrir um tuttugu árum og lærði þar Raja yoga hugleiðslu. Í gegnum tíðina hafði hún lært alls kyns hugleiðsluaðferðir en Raja yoga hugleiðslan hentaði henni best. Hún hafði sótt fundi hjá KFUK þegar hún var barn en ekki fundið svör þar. „Þannig hélt ég bara áfram að leita og prófa og það er það sem við þurfum að gera í lífinu ef við höfum áhuga á andlegum þroska, þ.e. að vera opin fyrir því að reyna nýja hluti og finna okkar réttu hillu og muna að það hentar ekki það sama fyrir alla því við erum öll einstakar sálir og mismunandi persónur. Í Lótushúsi fann ég svo mikinn sannleika í því sem ég heyrði og var í raun það sem ég hafði verið að leita að alla ævi. Við erum sálir og getum tengst hinni æðstu sál beint í gegnum hugleiðslu, svo einfalt er það. Síðan lærði ég yoga Nidra hugleiðslu þar sem við upplifum djúpa tengingu við okkur sjálf og hið æðra ef það hentar okkur. Yoga Nidra hugleiðsluna nýti ég líka mjög mikið og er að vinna við það sem ég elska sem er að leiða yoga Nidra. Mér finnst svo mikil forréttindi að fá mögulega að sá örlitlum jákvæðum fræjum hjá fólki sem geta hjálpað í lífinu.“

Dr. Joe Dispenza

Jóhanna kynntist fræðum Dr. Joe Dispenza fyrir um tíu árum. „Ég keypti bók sem hann skrifaði fyrir löngu síðan og heitir: „Breaking the habit of being yourself“ og skildi ekkert í henni til að byrja með og las hana aldrei,“ segir hún hlæjandi. „En þegar maður fer að kafa dýpra inn á við, tengjast orkunni, þá opnast fyrir alls konar annan skilning. Ég er svo hrifin af nálgun dr. Joe því hann stundar vísindalegar rannsóknir með læknum og öðrum vísindamönnum á sviði taugavísinda, orku og hugsana, á því til dæmis hvernig hugsanir og tilfinningar hafa áhrif á efnislíkamann. Ég er svo heppin að vera í litlum hópi sem hefur áhuga á fræðum dr. Joe og við hittumst einu sinni í viku í hugleiðslu og búin að gera í tvö ár.

Hugleiðsla þýðir að við leiðum hugann en hann ekki okkur. Eðli hugans er að hugsa en við getum lært að kyrra hann, valið styðjandi hugsanir og leyft hinum að líða hjá. Þannig brjótum við upp hugsanaferli og breytum lífi okkar til hins betra. Þetta er meðal annars það sem ég hef verið að vinna að en slysið og ómældur tími sem ég hafði allt í einu svo mikið af veitti mér tækifæri til að vinna mjög markvisst að því að sjá enn betur hversu geysilega mikilvægt það er fyrir okkur að hugleiða,“ segir Jóhanna.

Gott að dvelja í augnablikinu

Jóhanna með Katrínu og Jóhanni á Ítalíu í sumar.

Fyrst um sinn þurfti Jóhanna á hjálp að halda við allar athafnir sem hún fékk frá fjölskyldu sinni og vinum. „Það var auðvitað mjög erfitt,“ viðurkennir hún. „Batinn kom hægt og sígandi, stundum voru skrefin eitt áfram og þrjú aftur á bak, og þá varð ég nú svekkt. En þetta mjakaðist þó og þegar einhver lítil skref náðust varð ég svo glöð og fann fyrir hvatningu til að gera enn betur.

Þegar maður lendir í svona slysi áttar maður sig á því að lífið er ekki gefið, það er svo viðkvæmt og dýrmætt að við megum ekki gleyma að fara vel með það. Mér finnst líka svo mikilvægt að fólk átti sig á því hvað við þurfum að hlúa vel að líkamanum okkar, hvort sem er í gegnum mat, hreyfingu eða andlega iðkun, því allt vinnur þetta saman. Breytingarnar sem ég er mjög glöð að upplifa eftir bataferlið er að ég dvel mun meira í augnablikinu og er lítið að velta fyrir mér framtíðinni en það gerði ég miklu meira áður. Ég finn alla daga fyrir þakklæti fyrir því sem ég hef og byrja hvern morgun á að breiða út faðminn, þakka fyrir daginn sem ég fæ og segi „þetta verður frábær dagur“. Ég segi miklu oftar já við því sem mér býðst og er spennt að takast á við skemmtilegan dag. Svo er kannski stóra breytingin að ég er mun þolinmóðari og vanda mig betur við það sem ég er að gera,“ segir Jóhanna og brosir eins og sól.

Aftur farin að ganga á fjöll

Jóhanna er aftur farin að ganga á fjöll en læknir og sjúkraþjálfari voru búnir að hvetja hana til að vera duglega að hreyfa sig og hún tók þau ráð mjög alvarlega. Henni þótti hún vera tilbúin í lengri göngur í fyrra og fór þá í 5 daga göngu í dásamlegu umhverfi á Ítalíu. Henni var verulega létt að geta það því útivera í náttúrunni er sannarlega stóra ástríðan hennar. Jóhanna var svo bjartsýn að í sumar fór hún með manni sínum og frönskum vinum í 200 km göngu á 8 dögum, líka á Ítalíu, en þá segist hún hafa ofgert sér. „Ég veit núna að ég hef ekki sömu orku og áður og er enn að vinna í að sætta mig við það. Ég verða að gera hlutina á mínum forsendum miðað við getuna eins og hún er í dag en ekki hvernig hún var fyrir slys. Ég finn vel að ég stífna verulega í hnénu, bæði við mikla hreyfingu og setur. En ég er þess fullviss að ég væri ekki komin svona langt í batanum ef ég hefði ekki verið svona dugleg að hreyfa mig.“

Jákvæðnin orðin neikvæðninni yfirsterkari

Með ömmu Hönnu í hesthúsinu. Nú lætur Jóhanna vera að fara á bak en nýtur samvista við hesta sína, sér í lagi með barnabörnunum.

„Ég finn að ég hef ekki kjark til að fara á hestbak aftur eftir slysið en það er bara allt í lagi, ég er búin að fá að upplifa það á svo skemmtilegan hátt og get nefnilega gert svo margt annað,“ segir Jóhanna bjartsýn. „Mig langar aftur á gönguskíði í vetur, ég þarf bara að læra að detta upp á nýtt og svo kaupa mér hjól,“ segir þessi duglega kona sem var einmitt að koma úr einni fjallaferðinni með vinafólki þegar viðtalið var tekið, þremur árum eftir að fótleggur hennar var dæmdur ónýtur. „Ég fer á fjöll núna á mínum forsendum en fylgi samferðafólki ekki endilega eftir á toppinn. Það besta er að mér er nákvæmlega sama,“ segir Jóhanna og brosir breitt.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.