Jólagjafir og kosningaloforð

Gullveig Sæmundsdóttir

Gullveig Sæmundsdóttir fyrrverandi ritstjóri skrifar:

Hvernig sem á því stendur hrekk ég alltaf við þegar ég átta mig á hve stutt er til jóla. Aðeins nokkrar vikur og ég hef ekki leitt hugann að neinu jólastússi. Jú, ég er búin að kaupa miða á jólatónleika. Annað er það nú ekki. Nýlega sat ég með ungum sonarsyni og flakkaði milli stöðva í sjónvarpinu í leit að barnaefni. „Ekki þetta,“ sagði sá stutti. „Nei, heldur ekki þetta. Þessi mynd er rosalega leiðinleg. Þessi er bara fyrir smábörn.“ Þannig héldum við áfram stutta stund þangað til kappinn sagði loks: „Jú, amma. Þetta langar mig að horfa á.“

Og hvað skyldi svo „þetta“ hafa verið sem drengnum hugnaðist að horfa á? Auglýsingar á allskonar leikföngum! Sem betur fer er bannað að vera með slíkar auglýsingar innan um barnaefni í íslensku sjónvarpi enda stöðin sem féll svona líka vel í kramið erlend. „Amma, svona langar mig í jólagjöf. Líka svona. Þetta fæst i Tojsaros. Ég hef séð mynd af þessu.“ Þannig hélt drengurinn áfram í hvert skipti sem barnaefnið var rofið með auglýsingum. Auðvitað notaði amman tækifærið og benti á að maður gæti ekki fengið hvað sem er og allt þetta dót kostaði sitt. Það kostaði líka peninga að æfa fótbolta og matur væri mjög dýr. Ekki veit ég hvort þessi predikun ömmunnar hefur haft eitthvað að segja en hún reyndi samt sitt.

Þegar ég fylgist annars vegar með loforðum stjórnmálaflokkanna fyrir kosningarnar og hins vegar óskalistum þjóðarinnar verður mér hugsað til unga mannsins fyrrnefnda. Auðvitað hvarflar ekki að mér að óskalisti landsmanna sé jafn draumórakenndur og óraunsær og sá sem ungi maðurinn átti sér. Við verðum hins vegar að horfast í augu við að það er ekki hægt að uppfylla allar þarfir okkar, vonir eða væntingar og breytir engu í því sambandi ríkisstjórn hvaða flokka mun taka við að loknum kosningum. Áherslur flokkanna eru ólíkar en niðurstaðan verður alltaf sú að ekki er hægt að uppfylla nema hluta þeirra væntinga sem menn eiga sér. Það er líka ljóst að hér verða tveir eða fleiri flokkar við stjórn eftir kosningar og málamiðlanir verða gerðar.

Kosningaréttur er mjög dýrmætur og mikilvægt að menn noti hann. Ég er ekki sátt við allt sem minn flokkur gerir en ég greiði honum atkvæði mitt af því að ég treysti forsvarsmönnum hans best til þess að forgangsraða í þágu mikilvægustu málefnanna og stefnumál hans eru nær mínum lífsviðhorfum en stefnumál annarra flokka.

 

Gullveig Sæmundsdóttir nóvember 6, 2017 08:38