Karlar sem fara á eftirlaun oft með lítið félagslegt net í kringum sig

Að sjá fram á endalok virkrar þátttöku á vinnumarkaði getur verið áskorun fyrir mörg okkar, það getur verið erfitt að sleppa tökunum, takast á við nýja rútínu og jafnvel byggja upp og viðhalda félagslegum tengslum.

„Oft eru það við karlarnir sem höfum veikt félagslegt net í kringum okkur og við erum ekki jafn duglegir við að viðhalda sambandi við fólk, og konurnar. Við höfum oft lagt meira uppúr vinnunni en samskiptum við aðra. Konur eru svo almennt virkari í að viðhalda félaslegum tengslum en við“ , segir Friðrik Guðmundsson markþjálfi, en hann leggur sig sérstaklega eftir vinna með fólki sem er að sjá fyrir endann á starfi á vinnumarkaði. Hvernig það vill haga lífinu á efri árum og rækta það sem hugurinn stendur til.

Að hringja í gamlan vin og fara í kaffi

Meðal verkefna sem Friðrik fékkst við í markþjálfanáminu var að vinna með einstaklingum, við að skipuleggja lífið þegar að eftirlaunum kemur. Eitt verkefni var áhugi á að bæta samskipti við fjölskyldumeðlimi og endurnýja vinskap við gamla félaga. Með aðstoð markþjálfa var meðal annars  farið yfir mikilvægi þessa fyrir viðkomandi og  sett upp markmið og vörður. „Niðurstaðan var hringja í gamlan vin og fara með honum í kaffi. Það þarf oft ekki meira en það til að boltinn fari að rúlla“, segir Friðrik.  „Hljómar einfalt en það er oft erfitt að koma sér að verki og oft þarf hjálp og réttan ásetning til að koma sér af stað“.

Yngra fólk nýtir sér markþjálfun meira en eldri kynslóðin

Friðrik telur að fólk sé almennt ekki duglegt við það að skipuleggja lífið þegar kemur að starfslokum og forðist oft að horfast í augu við þess tímamót. Þar geti markþjálfi komið til aðstoðar en vinna með honum sé unnin á jafningjagrundvelli, en snúist ekki um að veita ráðgjöf. Þjálfunin felist í að hjálpa fólki að gera sér grein fyrir hvert það vill stefna og hvað sé mikilvægt, með því að spyrja það réttu spurninganna. „Það ættu allir að geta notfært sér þessa leið og  yngra fólk er töluvert að nýta sér hana. Eldri kynslóðin er hins vegar ekki að gera það. Þegar ég fór í markþjálfanámið opnaðist fyrir mér nýr heimur og ég sá hvað þetta er áhrifamikið tæki. Við förum inní eftirlaunaaldurinn með ýmsar hugmyndir, svo kemur að þessu og þá fyllumst við kvíða. Hvernig er best að snúa sér? Með því að ræða málin við markþjálfa er hægt að setja sér markmið, ákveða leiðir að því  og þá nær fólk árangri“, segir hann. „Svo getur það verið niðurstaða úr samtalinu að fólk leiti til viðeigandi sérfræðinga ef um slíkt er að ræða. Þetta getur allt verið hluti af verkefninu“.

Hvað er mikilvægast og hvers vegna?

„Fólk sem er komið að sextugu hefur kannski ákveðið að hætta að vinna, eða minnka við sig,  en er svo hikandi við að taka skrefið. Þá þarf að finna út úr því hvað það er sem stoppar það af“ segir Friðrik. „Sem betur fer er fólk á þessum aldri yfirleitt við góða heilsu og getur gert svo margt. En hvað er það sem er mikilvægast fyrir hvern og einn og hvers vegna? Það eru dæmigerðar spurningar sem er hægt að fara með til markþjálfa“. Friðrik segir dæmi um fólk sem langi til að fara að stunda skapandi skrif, eða til að taka meira frumkvæði. Sumir vilji halda sér virkum og halda tengslum við ákveðna hópa í kringum sig. Það geti kannski snúist um uppkomin börn, barnabörn eða jafnvel fyrrverandi maka, þar sem menn vilji ef til vill ná meiri sátt. Að vinna með markþjálfa getur hjálpað fólki að skilja hismið frá kjarnanum, finna hvar hjartað slær og setja sér markmið og vörður að þeim“.

Heimsborgari kominn af alþýðufólki

Friðrik er fæddur á Seyðisfirði og bjó þar þangað til hann  fór í framhaldsskóla í höfuðborginni eins og svo algengt var. Hann hefur mestan sinn starfaldur unnið við sölu og innleiðingu á hátæknibúnaði fyrir matvælavinnslu. Þetta hefur leitt til búsetu og dvalar erlendis til lengri og skemmri tíma, til dæmis í Noregi, Póllandi, Rúmeníu og Ítalíu og auk þess til ferðalaga til yfir 50 landa bæði í  tengslum við störf og á eign vegum. Má því segja að Friðrik sé heimsborgari, kominn af alþýðufólki. Hann lauk nýverið grunnnámi í markþjálfun frá Profectus og stefnir á frekara nám á því sviði. „Ég vil nýta þessa þekkingu mína, ásamt reynslu, til að vinna með einstaklingum sem eins og ég, eru farnir að sjá fyrir endann á störfum á vinnumarkaði og farnir að huga að þriðja æviskeiðinu“, segir Friðrik.

Þeir sem hafa áhuga á að fá Friðrik til að fara yfir tækifærin á efri árunum með sér, geta haft samband við hann í gegnum Facebook síðuna „Friðrik – Markþjálfun“ eða í gegnum netfangið fgud@simnet.is.

 

Ritstjórn mars 22, 2023 07:00