„Það er meiri galdur að kunna að hætta en að byrja“
Þetta segir Knútur Bruun sem hefur byrjað oftar en flestir en jafnframt kunnað að hætta. Hann segir að í honum sé visst óþol en hann sé svo heppinn að eiginkona hans, Anna Sigríður Jóhannsdóttir, hafi úthaldið sem hann skorti og þau vinni mjög vel saman. Í lífi Knúts hafa verið fjórar konur, sú fyrsta var móðir hans, sú næsta eiginkona, svo vinkona og síðast eiginkonan Anna Sigríður. Knútur á þrjú börn en börn kvennanna sem hann hefur búið með eru honum öll mjög kær. „Það eru börnin sem eru framhaldslífið okkar. Þau bera genin okkar inn í framtíðina og erfiðast af öllu er að missa þau í einhverja vitleysu og freistingar sem eru um allt,“ segir Knútur sem hefur dregið lærdóm á langri ævi.
Knútur og Anna Sigríður búa í húsi við Hverfisgötu þar sem Bíó Paradís er líka til húsa en gengið er inn í heimili þeirra frá Laugavegi. Þar kúrir íbúð þeirra á milli gamalla húsa sem Reykvíkingar ganga fram hjá en hafa ekki hugmynd um portin þar sem fjöldi fólks býr eða hefur aðsetur. „Unga fólkið sem stýrir borginni núna er með allt aðra sýn en við sem eldri erum,“ segir Knútur. „Það á að fara að byggja risabyggingar í portinu sem mun auðvitað rýra gildi þess að búa hér en það þýðir ekki að ergja sig á því sem maður getur ekki haft nein áhrif á,“ segir hann og brosir. „Unga fólkið vill bílana í burtu og loka Laugaveginum sem mér þykir afleit hugmynd en nú eru nýir tímar.“ Knútur reynir af fremsta megni að sjá jákvæðar hliðar á hverju máli og segir að hann hafi fengið það viðhorf með móðurmjólkinni. „Mér þykir til dæmis mjög skemmtilegt að horfa hér í norðurátt því það er núna eins og maður sé staddur í stórborg þótt útsýnið sé nú minna en áður en byggingarnar risu. Í lífinu eru tvö mikilvæg atriði. Annars vegar er það heilsan og hitt er börnin. Auðvitað lenda allir í einhverju veseni um ævina en ef heilsan og börnin eru í lagi þá er hægt að leysa alla hluti. Það skiptir mestu máli að viðhorfið til lífsins sé rétt og að maður gangi jákvæður áfram veginn,“ segir hann. Knútur er sáttur við þau Bjarna Benediktsson og Katrínu Jakobsdóttur sem hann segir vera skynsamt yngra fólk sem sér kostina við að taka höndum saman frekar en deila.
Knútur byggði húsið á sínum tíma þar sem hann og Anna Sigríður búa núna, seldi tvær hæðir og þá var þar kvikmyndahúsið Regnboginn. Hann og vinur hans, sem byggði húsið með honum, seldu húsið en í hlut Knúts kom hæðin þar sem hann býr núna. Og nú er í húsinu Bíó Paradís og á einni hæð er Kvikmyndasjóður. Knútur er ekki tengdur Bíó Paradís á neinn hátt en gleðst yfir að tekist hafi að leysa úr vanda kvikmyndahússins.
Knútur og Anna Sigríður hafa starfað töluvert í ferðaþjónustu undanfarin ár á nokkrum stöðum, þ.e. í Reykjavík, Hveragerði, í Öræfum og á Akureyri. Þegar Knútur skildi við fyrri konu flutti hann til Hveragerðis og keypti eignina Hverhamar við Varmá. “Árið 1997 opnuðum við Anna Sigríður svo gistiheimilið Frost og Funa þar. Við rákum það í 15 ár og á endanum með 18 herbergjum.” Þar var nóg af heitu vatni svo Knútur gat sett upp heita potta og lúxus sem útheimti jarðhita. Árið 2001 kom partur af jörðinni Hof í Öræfasveit í sölu en þar hafði verið rekið hótel. Knútur og Anna Sigríður keyptu þennan hlut og ráku hótelið þar fram í maí 2017. Hótelið gekk vel og þar voru 38 herbergi þegar þau seldu hótelreksturinn en eiga áfram einbýlishús sem þau reistu á jörðinni. Nú er það hús komið í sölu og þau ætla að selja Hof endanlega frá sér. Þau hafa nú komið sér fyrir með rekstur á Akureyri þar sem þau keyptu hús með þremur íbúðum í gamla bænum. Anna Sigríður er ættuð frá Akureyri og Knútur er stúdent frá Menntaskólanum þar í bæ og finnst hann alltaf hafa átt heima þar.
„Það er auðvitað bjánalegt að eiga íbúðir úti um allt svo við erum markvisst að fækka þeim,“ segir Knútur sem segist öðrum þræði hafa verið svolítill braskari í gegnum tíðina. „Við ætlum að búa hér í Reykjavík fyrst og fremst og hugsa um eignina á Akureyri sem við höfum verið með í ferðamannaleigu. Það er auðvitað gífurleg lægð í ferðamennskunni núna og mjög gott að vera ekki að reka stór hótel eða vera skuldum vafinn. En það birtir til um síðir,“ segir hann bjartsýnn.
Hefur komið víða við
Knútur er lögfræðingur að mennt og var hæstaréttarlögmaður lengi vel en sérhæfði sig í höfundarétti síðar.
Knútur er mikill áhugamaður um myndlist og hefur stutt við bakið á listamönnum sem hann hefur haft trú á. “Það verkefni hefur ekki gefið af sér peninga en ómælda ánægju,” segir Knútur.
Hann rak Listmunahúsið í Lækjargötu 2 í 10 ár sem hann segir hafa verið skemmtilegt tímabil og gefandi. “Einn af þeim listamönnum sem ég sýndi myndir eftir er Jóhanna Kristín Yngvadóttir sem er einn af okkar fremstu listamönnum frá níunda tug síðustu aldar,” segir Knútur. “Ég sá myndir eftir hana á sýningu í SÚM við Vatnsstíg þar sem ung stúlka sat yfir. Ég lét stúlkuna hafa nafnspjald mitt og bað hana um að koma því til þessa mikla listamanns með þeim skilaboðum að ég vildi gjarnan sýna myndir hennar í Listmunahúsinu. Þetta var þá listamaðurinn sjálfur sem ég hélt að væri stelpa að sitja yfir myndum,” segir Knútur. Þau Jóhanna Kristín urðu miklir vinir eftir þetta og Knútur studdi við bakið á henni alla tíð. Jóhanna Kristín lést 37 ára gömul og á síðasta ári gaf Knútur út bók um hana og verk hennar til að halda minningu um mikinn listamann lifandi. Knútur hefur líka gefið út bók um Arnar Herbertsson sem er fullorðinn maður sem málar stórkostlegar myndir og fáir vita um. Þessar bækur hefur hann gefið út í samvinnu við bókaútgáfuna Dimmu og þar er hann titlaður bakhjarl og þykir mikið vænt um þann titil, mun vænna en hæstaréttarlögmannstitilinn
Knútur var einn af stofnendum Myndstefs sem eru höfundaréttarsamtök myndhöfunda en það eru arkitektar, ljósmyndarar og fleiri félög myndhöfunda.
Heimili Knúts og Önnu Sigríðar ber vott um mikinn áhuga á list þar sem verk eftir mikla listamenn prýða veggi og má nefna Nínu Tryggvadóttur, Karl Kvaran og marga fleiri. Þar má líka sjá verk eftir Óskar Magnússon sem Knútur segir að hafi verið mikill „alþýðulistamaður“ en hann var eiginmaður Blómeyjar Stefánsdóttur og þau bjuggu í litlu húsi á Hellisheiði við nauman kost.
Vill búa til eitthvað nýtt
Knútur segist hafa afar gaman af að búa til ný verkefni en fer iðulega að leiðast þau eftir einhvern tíma og fer þá frá þeim og lætur aðra um að halda áfram. „Þá er kominn tími til að búa til eitthvað annað,“ segir þessi lifandi maður sem er nú orðinn 84 ára gamall en er hvergi nærri hættur.
Sólveig Baldurdsóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.