Konur og eldra fólk fara oftar á fyllerí

Konur í aldurshópunum, 51–66 ára og 67–79 ára, hafa aukið áfengisdrykkju frá árinu 2007. Konur og eldra fólk virðist vera að auka svokallaða  ölvunardrykkju.  Þetta er meðal þess sem kemur fram í Talnabrunni Landlæknisembættisins. Í Talnabrunni var skoðuð breyting á áfengisneyslu Íslendinga á aldrinum 18–79 ára og stuðst við gögn úr rannsókninni Heilsa og líðan Íslendinga frá árunum 2007, 2009 og 2012. Sérstaklega er skoðuð áfengisneysla einu sinni í mánuði eða oftar og ölvunardrykkja einu sinni eða oftar í mánuði á síðustu 12 mánuðum. Meðal þess sem kemur fram er að lítillega dregur úr áfengisneyslu karla á aldrinum 67 til 69 ára árið 2012.

Fleiri karlar en konur drekka

Niðurstöður rannsóknarinnar Heilsa og líðan Íslendinga sýna að fleiri karlar neyta áfengis einu sinni í mánuði eða oftar heldur en konur. Á þetta við um öll árin. Árið 2012 drukku 56 prósent landsmanna einn eða fleiri áfengan drykk á mánuði. Athygli vekur að konur í elstu aldurshópunum, 51–66 ára og 67–79 ára, hafa aukið áfengisdrykkju frá árinu 2007. Á sama tíma dregur aðeins úr drykkju karla á sama aldri.

Fimm drykkir við sama tilefni

Ölvunardrykkja er jafnan skilgreind þannig að viðkomandi hafi drukkið fimm áfenga drykki eða fleiri við sama tilefni. Ekki virðist vera mikil breyting í tíðni ölvunardrykkju milli áranna 2007, 2009 og 2012. Ölvunardrykkja er algengari meðal karla heldur en kvenna. Árið 2012 höfðu rúmlega 27% karla orðið ölvaðir einu sinni í mánuði eða oftar á móti tæplega 14% kvenna.

Ekki svo stórvægilegar breytingar

Þegar á heildina er litið virðast litlar breytingar hafa orðið á áfengisneyslu frá árinu 2007 til ársins 2012. Þó má sjá örlitla niðursveiflu í könnuninni árið 2009 og má ætla að um áhrif efnahagshrunsins sé að ræða. Þegar Íslendingar neyta áfengis virðast langflestir drekka 1–3 sinnum í mánuði. Helsta breytingin sem lesa má úr þessum gögnum er að árið 2009 dró úr drykkju, það er fækkun meðal þeirra sem segjast hafa drukkið að minnsta kosti einn áfengan drykk einu sinni eða oftar á síðastliðnum 12 mánuðum. Minni áhrifa efnahagshrunsins virðist gæta á ölvunardrykkju, það er þá sem drekka 5 eða fleiri áfenga drykki í sama skipti. Karlar drekka mun meira en konur í öllum aldurshópum þó má greina þá breytingu að konur og eldra fólk virðist vera að auka ölvunardrykkju. Hægt er að lesa greinina á vef Landlæknisembættisins hér.

 

 

Ritstjórn nóvember 2, 2015 13:12