Kynlíf hefur ekki síðasta söludag

Sumir vilja banna kynlíf aldraðara á hjúkrunarheimilum.

Sumir vilja banna kynlíf aldraðara á hjúkrunarheimilum.

Starfsmaður á hjúkrunarheimili gengur  inn á ógift par sem liggur saman nakið í rúminu. Kona í Iowa kvartar undan því að eiginmaður herbergisnauts hennar sem ekki býr á stofnuninni skríði upp í rúm til konu sinnar og þau stundi kynlíf.  Maður sem býr á sambýli fyrir heilabilaða káfar gjarnan á kvenkyns vistmönnum. Enginn veit hvort káfið er með samþykki kvennanna eða hvort maðurinn er að áreita þær kynferðislega. Á systurvef Lifðu núna, aarp.org, er fjallað um kynlíf eldra fólks á hjúkrunarheimilum. Lifðu núna þýddi og stytti greinina örlítið.

Gert kleift að stunda kynlíf

 Eftir að fjölmörg slík kynlífsmál á heimilum fyrir aldraða komust í hámæli í Bandaríkjunum vildu stjórnendur margra þeirra komast hjá málsóknum og öðrum óþægindum. Sum heimilin hafa því reynt að taka upp þá stefnu að vistmönnum sé gert kleift að stunda kynlíf í næði en þó þannig að kynlífið sé hættulaust og laust við misnotkun. Samkvæmt könnun AMDA, samtaka langveikra í USA, hefur  þó aðeins um fjórðungur mótað stefnu um kynlíf vistmanna  Um helmingur heimilanna ætlar að móta sér stefnu en óvíst er hvenær. „Um umönnun aldraðra gilda fleiri og strangari reglur heldur en um flesta aðra starfsemi, samt eru engar opinberar reglur um kynlíf aldraðra“ segir Gayle Doll, forstöðumaður Öldrunarmiðstöðvar Kansas og höfundur bókarinnar Sexuality and Long Term Care. Hún skilgreinir kynlíf vítt, allt frá hrósi til snertingar sem leiðir til samfara. „Fjölmargir stjórnendur elliheimila gera sér grein fyrir að kynlíf er eitthvað sem fólk hugsar mikið um og að heimilin eigi að gera fólki það kleift að stunda kynlíf“ segir hún.

Þörf fyrir snertingu

Aðdráttarafl, faðmlög, daður, snerting og já kynlífssambönd, ekkert af þessu hefur síðasta söludag. Félagsleg tengsl og mannleg snerting hjálpa til við að forða fólki frá þunglyndi og einmannaleika sem ellin og líf á stofnunum getur valdið“ segir Ken Robbins prófessor í háskólanum í Wisconsin-Madison. Meira en helmingur vistmanna á elliheimilum í Bandaríkjunum þjáist af Alzheimersjúkdómi eða öðrum vitrænum glöpum samkvæmt upplýsingum frá Alzheimersamtökum Bandaríkjanna. „Sumt fólk sem þjáist af elliglöpum getur orðið hömlulaust,“ segir Robbins.“Í tilviki eins tiltekins heilabilunarsjúkdóms getur hömluleysi komið í ljós löngu áður en rökhugsun bilar,“ bætir hann við. „Ef sá hinn sami býr á stað þar sem lítið er við að vera gætu hann eða hún verið að leita að einhverju sem mætti hlakka til á hverjum degi. Eins og til dæmis hressilegt spjall við nýja herramanninn í matsalnum eða daður við dömuna á herbergi 206“.

Mamma sem kynvera

En getur fólk sem getur ekki séð um einföldustu fjármál eða er jafnvel málstola samþykkt að stunda kynlíf? Eða er kynlíf líffræðileg þörf eins og þörfin til að nærast? Unaðsleg list sem enn er hægt að njóta?  Hver er það svo sem á að ákveða hvað er öruggt og viðeigandi kynlíf, spyr Doll, forstöðumaður Öldrunarmiðstöðvarinnar í Kansas. Paramyndun á elliheimilum er sjaldnast einkamál parsins. Makar sem enn búa heima sem og fullorðin börn taka oft ákvarðanir fyrir einstaklinginn á elliheimilinu. Margir þola illa að sjá mömmu fyrir sér sem kynveru og oft er það svo að fjölskyldan eru ósammála um hvað það er sem einstaklingnum er fyrir bestu. „Oftast er það fjölskyldan sem gerir mál úr hlutunum ef þeim líkar ekki það sem á sér stað“ segir Doll.

Kærður fyrir kynferðislega misnotkun

Henry Rayhons, var dreginn fyrir rétt, ákærður fyrir að hafa sængað hjá konu sinni.

Henry Rayhons, var dreginn fyrir rétt, ákærður fyrir að hafa sængað hjá konu sinni.

Dapurlegt atvik átti sér stað á elliheimili í Iowa árið 2014.  Þá var fyrrum þingmaðurinn Henry Rayhons, þá 79 ára, ákærður fyrir að misnota eiginkonu sína kynferðislega en starfsmenn heimilisins töldu að sökum Alzheimerssjúkdóms væri konan fullkomlega ófær um að veita samþykki fyrir samförum. Dætur konunnar af fyrra hjónabandi voru á sama máli. Konan dó viku áður en eiginmaðurinn var ákærður en í yfirlýsingu frá fjölskyldu hans sagði: „Að ákæra eiginmann fyrir þann glæp að viðhalda hjónalífi með eiginkonu sinni á elliheimili er órökrétt, ónáttúrulegt og afar meiðandi.“ Réttað var yfir Reyhons en kviðdómur lýsti hann saklausan.

Stofnanaleg og persónuleg hlutdrægni

„Oft líta starfsmenn hjúkrunarheimila fyrir aldraða, kynlíf vistmanna hornauga og mörgum finnst slík háttsemi viðbjóðsleg“, segir Doll. Stjórnendum þykir oft einfaldast að láta annað hvort eins og kynlíf vistmanna sé ekki til eða að þeir reyna að hefta það. Í máli þar sem karlmaður, vistmaður á elliheimili í Minnesota, káfaði á sex konum brugðust stjórnendur elliheimilisins ekki við með því að kanna hvort káfið hafi verið með samþykki kvennanna,  heldur með alsherjarbanni við hvers konar kynferðilegri háttsemi eins og snertingu, kossum og nekt. Yfirvöld brugðust við með að sekta heimilið fyrir það að vanrækja að tilkynna um hugsanlega misnotkun og einnig fyrir skort á stefnumörkun og þjálfun starfsmanna. „Það er ekki hægt að ákveða að ekkert megi gerast“ segir Robbins og bætir við að það verði að meta hvert tilfelli fyrir sig.

 Reglur um kynlíf

Margir sem reka vistheimili fyrir aldraða líta nú til Hebrew Home at Riverdale í New York, sem fyrirmyndar, en það elliheimili varð fyrst í Bandaríkjunum til að taka upp reglur um kynferðislega tjáningu vistmanna árið 1995. Brautryðjendastarf og hugmyndir starfsmanna þar leiddu til breytinga eins og nýrra skilgreininga á heildarummönnun vistmanna. Reglurnar ganga útfrá því að gamalt fólk hafi enn kynhvöt og þörf fyrir snertingu. Heimilið gerir skýran greinarmun annars vegar á sambandi og hins vegar á glæpsamlegri háttsemi eins og misnotkun eða óviðeigandi kynferðislegri hegðun. Elliglöp eru ekki álitin sjálfsögð ástæða til að tálma sambandi.  Elliheimili í Bandaríkjunum notast við eina af tveimur meginreglum þegar ákveðið er hvað telst kynferðislega óviðeigandi, segir Evelyn Tenenbaum, prófessor í lögum. Hún segir að algengast sé að nota svokallaða „staðgöngudómgreind“ en þá er reynt að líta til þess hvernig einstaklingurinn hefði gert áður en hann tapaði andlegum kröftum sínum, til dæmis hvernig hann hefði brugðist við kynlífi utan hjónabands. Hin meginreglan er að sögn Tenenbaum sú að gera það sem er vistmanninum fyrir bestu en það er sú stefna sem siðfræðingar og sérfræðingar í vitglöpum aðhyllast. Samkvæmt því er komið fram við vistmanninn þannig að honum líði sem best óháð fyrra gildismati hans og þá er jafnframt tekið tillit til þess að elliglöp geta einnig valdið miklum breytingum á persónuleika.

Alzheimerssjúklingar mynda sambönd

Fólk myndar ný sambönd, sama á hvaða aldri það er.

Fólk myndar ný sambönd, sama á hvaða aldri það er.

Ekki er óalgengt að Alzheimerssjúklingar myndi hlýlegt og gott samband við annan vistmann og gleymi jafnframt maka sínum sem ekki býr á elliheimilinu. Tenenbaum tekur til dæmi um samkynhneigðan mann sem hefur alla ævi verið „inni í skápnum“ en tók upp samband við einstakling af sama kyni eftir að hann fór að fá elliglöp. Hann virðist ánægður en það sama er ekki hægt að segja um konu hans og börn sem nú eru ráðvillt. Hvað gerist þegar hagsmunir þess sem þjáist af vitglöpum fara ekki lengur saman við hagsmuni annara fjölskyldumeðlima? „Því miður verðum við að hlýða fjölskyldunni“ segir Simmonds hjá Trilogy elliheimilinu. „Kannski er það ekki rétt fyrir vistmanninn en fjölskyldan hefur lögin sín megin og ábyrgðin er einnig oft þeirra“. Á Hebrew Home heimilinu er sama starfsfólk látið annast sömu vistmennina. Þannig geta starfmennirnir kynnst gamla fólkinu mun betur, jafnvel þeim sem ekki geta lengur tjáð sig munnlega, og eru mun betur i stakk búnir til að meta hvort samþykki sé til staðar fyrir kynlífi. Á einhverjum heimilum er hjónum boðið uppá hjónarúm frekar en tvö einstaklingsrúm og „truflið ekki“ skilti sett á hurðir. Vistmenn fá aðgang að viagra, sleipiefnum, klámblöðum og erótískum kvikmyndum. Starfsmönnum er kennt að berja að dyrum og bíða áður en þeir ganga inn.

Meiri þjálfun starfsmanna

„Aðeins klukkustundar langur fyrirlestur getur gert kraftaverk í málum sem áður voru talin algjört tabú“ segir Doll. Eftir að hún hélt kynningu um kynlíf aldraðra meðal starfsmanna elliheimilis  kom það henni á óvart að starfsmaður óskaði þess að hún kæmi aftur og fræddi starsfólkið um málefni lesbía og homma.  Á Sonata elliheimilinu í Flórída er nýlega farið að þjálfa starfsfólk til að greina hvort einstaklingur sé hæfur til að gefa samþykki sitt fyrir sambandi og kynlífi. Að draga fjölskylduna inn í umræðuna hjálpar til. Þá er fjölskyldunni sagt frá því hvaða stefnu heimilið hefur varðandi kynlíf og sambönd vistmanna. „Það getur verið gagnlegt komi slíkar aðstæður upp síðar, segir Simmonds. „Það þýðir þó ekki að samtalið gagnist öllum, sambönd og kynlíf vistmanna geta verið áfall fyrir hvaða fjölskyldu sem er, en fræðsla er það besta sem við getum gert í stöðunni,“ segir hann.

Ritstjórn júní 26, 2015 13:01