Kynlíf er stór hluti af lífi flestra öll fullorðinsárin. Þótt sumt ungt fólk telji að það hætti eftir vissan aldur er langt frá því að svo sé og margir eldri borgarar lifa ánægjulegu og fjörugu kynlífi. Áslaug Kristjánsdóttir kynfræðingur sendi nýverið frá sér bókina Lífið er kynlíf. Hún starfar við það að veita fólki ráðgjöf um hvernig bæta megi kynlífið og hún segir ekkert því til fyrirstöðu að kynlífið batni með árunum.
Stundum finnst manni umræðan í samfélaginu á þann veg að halda mætti að kynlíf væri bara fyrir ungt og fallegt fólk. Í bók þinni Lífið er kynlíf kemur þú inn á að hver og einn getur komið eins og hann er og notið sín í nánd og samskiptum. Hins vegar virðumst við oft eiga erfitt með að finna sjálf leiðina til þess að það megi verða. Hvað stendur
helst í veginum?
„Það er örugglega margt sem truflar. Ég held að umræða um kynlíf og allt sem því fylgir sé of einhæf og kynfræðsla er takmörkuð,“ segir hún. „Eins og ég kem inn á í bókinni tel ég að það þurfi samfélagslegt átak til að breyting verði á. Bókin er mitt innlegg í þá breytingu. Fyrir margt fólk er hjálplegt að hugsa kynlíf út frá heilbrigði. Hvað ertu að gera fyrir þitt kynheilbrigði? Ef svarið er ekkert, þá er ólíklegt að það dafni. Það að vera kynvera er partur af því að vera manneskja og því þarf að sinna eins og öðru.
Rannsóknir sýna að minnsta kosti að kynlíf er ekki bara fyrir ungt og fallegt fólk. Fólk stundar kynlíf langt fram eftir aldri og elsti hópurinn í rannsóknum er áttatíu ára og eldri. Eitthvað hægir kannski á og athafnir breytast með aldri en löngunin eftir nánd og ást breytist lítið.“
Lausnin að vera meira skapandi
Að tala saman og treysta makanum er grundvöllur góðra samskipta, líkamlegra jafnt sem andlegra. En oft festist fólk í einhverju fari og allt verður leiðigjarnt. Er einhver einföld leið til að komast út úr slíku?
„Já, í rauninni er leiðin einföld en samt einhverra hluta vegna vandrötuð. Lausnin er að vera meira skapandi, taka áhættur og prófa eitthvað nýtt. Viðjar vanans eru öruggar en of mikið öryggi í kynlífi tekur lífið úr því. Til þess að kynlíf dafni til lengri tíma þarf hvoru tveggja öryggi milli fólks og áhættur eða ævintýraþrá. Hvert par er svo ólíkt þegar kemur að áhættum. Þá reynir á samskiptahæfni til þess að finna hvað er nógu mikil nýjung án þess að fara fram úr sér. Ég hitti stundum fólk sem hefur farið fram úr sér í ævintýraþrá og kemur þá óöruggt til mín. Við vinnum þá saman úr því og alla jafna er minni hætta á ferð en fólkinu fannst í fyrstu. Við förum öll stundum fram úr okkur en það veldur sjaldan langtímaskaða. En ætli þau sem reyna ekki neitt nýtt séu ekki hrædd við það að misstíga sig og halda að það hafi of alvarlegar afleiðingar. Það þarf að eiga við í kynlífinu líkt og lífinu að það má gera mistök í parsambandi.“
Væntingarnar þvælast fyrir
Flest höfum við einhverjar væntingar til ástarinnar og kynlífsins. Er til í dæminu að það flækist fyrir okkur í raunveruleikanum og skemmi fyrir?
„Heldur betur, stór partur af minni vinnu sem kynlífsráðgjafi snýr að væntingastjórnun,“ segir Áslaug. „Fólk hefur hugmyndir um hvað á að gera og hvernig það stendur sig í kynlífi. Þessi hugmynd um að standa sig í kynlífi er mér oft hugleikin. Ég hef ekki enn fundið staðalinn fyrir því hvað er staðið og hvað er fallið í kynlífi út frá vísindalegum rökum. En fólk almennt hefur skýra hugmynd um þetta og oftar en ekki upplifir það að það sé ekki að standa sig.
Pör hafa líka oft á tíðum ólíkar hugmyndir um hvað sé nógu gott kynlíf. Þegar par nær ekki að samþætta það svo sanngirni sé gætt á báða bóga þá veldur það almennt óhamingu og skemmir fyrir.
Við fáum hugmyndir um ástina og kynlíf alls staðar að, úr fjölmiðlum, bókmenntum, myndefni og list. Stundum er þar sýnd raunsæ mynd en oftar en ekki er hún ekki í takt við raunveruleikann. Enda er margt skemmtiefni gert til þess að leyfa okkur að flýja raunheima og inn í fantasíur. Rómantík og kynlíf eru því oft ekki í takt við raunveruleikann í því sem við sjáum og lesum.“
Feta sig hægt til baka eftir þurrkatímabil
Í langtíma parasamböndum er koma tímabil þar sem nándin situr á hakanum og það getur verið erfitt að koma til baka úr slíku. Sumir beinlínis hætta að stunda kynlíf. Áttu einhver ráð til opna á það aftur eftir slík þurrkatímabil?
„Almennt hef ég séð það virka besta að koma hægt en örugglega til baka úr slíkum tímabilum. Það er óráðlegt að segja fólki að fara að stunda kynlíf einu sinni á dag í 30 daga og þá komist allt í lag. Ein var tíðin að þetta ráð fékk mikla dreifingu en það var að sjálfsögðu ekki fagfólk sem mælti með þessu,“ segir hún. „Til þess að komast úr þurrkatímabili þarf að hafa einbeittan vilja og ásetning. Gefa sér tíma og tengjast aftur á þeim hraða sem hentar. En of hægt gengur yfirleitt ekki. Ég fer yfir mismunandi snertingar í bókinni og snertingaþjálfun eins og ég kalla það. Það eru góð verkfæri til þess að koma sér aftur af stað.“
Þú veitir fólki ráðgjöf og hjálpar því að finna aftur neistann í samskiptunum. Eru öll sambönd þess virði að bjarga þeim?
„Nei, líklegast ekki. Þegar neistinn er alveg farinn er yfirleitt ekkert hægt að gera í því. Kynfræðingar og kynlífsráðgjafar kunna ótal ráð til þess að bæta og gera samband og kynlíf ánægjulegra en við getum ekki fengið fólk til þess að verða ástfangið. Það er eitthvað sem býr þar að baki sem mannlegur máttur fær ekki stjórnað. Ef neistinn er lítill en samt til staðar má alveg reyna.
Fólk sem hefur ekki verið tengt lengi en langar og finnur enn fyrir að það sé skotið eða ástfangið á sér von. Skotið og ástfangið eru lýsingar á neistanum sem ég heyri oftast. En ef fólk langar ekki lengur að sofa hjá maka og langar ekki að langa það þá er kynlífs sambandinu oftast lokið. Að mínu viti er það ekki stór dómur í dag að sambandi ljúki. Sum sambönd renna sitt skeið og örugglega eru fleiri mælikvarðar á gæði sambanda en lengd,“ segir hún að lokum en í bókinni kemur fram að með árunum verða margir betri í að tjá langanir sínar og þekkja líkama sinn orðið mjög vel og þá getur kynlífið blómstrað.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.