Dr. Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar:
Við hjónin tilheyrum hinni svo kölluðu ’68 kynslóð. Þetta var kynslóð kaldastríðsáranna sem gerði uppreisn gegn ógninni sem stafaði af kjarnorkuvopnum og hernaðarbrölti Bandaríkjamanna í Víetnam.
Þetta var líka kynslóðin sem gerði uppreisn gegn stöðnuðum hugmyndum um samskipti kynjanna og gaf hefðbundnu mynstri ástarsambanda langt nef: Trúlofanir fóru úr tísku og algengt varð að ungt fólk væri í óvígðri sambúð og ætti saman börn án þess að óttast refsivönd samfélags og kirkju. Flestir létu pússa sig saman fyrir rest, en stór kirkjubrúðkaup með öllu tilheyrandi urðu fátíðari, en borgaralegar giftingar æ vinsælli.
Við hjónin hófum óvígða sambúð í New York haustið 1977. Eftir tveggja ára sambúð var ég sannfærð um að maðurinn minn væri sá eini rétti og bað hans. Hann tók þeirri umleitan vel og urðum við strax ásátt um að brúðkaupið yrði eins lítið og látlaust eins og unnt var. Giftingin yrði borgaraleg, það yrðu engir hringar og enginn blómvöndur, enginn sérsaumaður brúðarkjóll, ekkert slör né brúðarskór. Það yrði engin veisla heldur, en í hennar stað færum við út að borða með foreldrum okkar að kvöldi brúðkaupsdagsins. Engir aðrir en foreldrar okkar og nánasta fjölskylda áttu að fá að vita af brúðkaupinu.
Í framhaldi af þessu höfðum við samband við vinkonu okkar, sem var fyrst kvenna til að gegna embætti borgardómara, og báðum hana um að pússa okkur saman að morgni afmælisdags Reykjavíkurborgar þann 18. ágúst 1979, en hann bar upp á laugardag það ár.
Þegar við komum til landsins þriðjudaginn 14. ágúst tilkynntum við foreldrum okkar um giftingaráformin og sögðum þeim að við vildum ekkert tilstand. Móðir mín, sem hafði þegar gift fjórar af fimm dætrum sínum, tók áformunum vel, en tengdamóðir mín varð ekki sátt fyrr en við féllumst á að halda smá eftirmiðdagsboð fyrir nánustu fjölskyldu eftir giftinguna og varð það raunin.
Helgina á eftir fórum við í brúðkaupsferð upp á Hellisheiði. Maðurinn minn var gamall skáti og hafði dvalið löngum stundum í skátaskála á heiðinni og vildi kynna mig fyrir fegurð og leyndardómum Hellisheiðarinnar. Til fararinnar fengum við lánaðan mosagrænan Lada-jeppa tengdaföður míns. Við vorum þó ekki tvö á ferð, því yngri bróðir mannsins míns, nýbakaður mágur minn, slóst í för með okkur. Við tjölduðum tveimur tjöldum við rætur Hengilsins og gengum síðan upp á tind hans í blíðskaparveðri og nutum hins fagra útsýnis þaðan til allra átta. Eftir það gengum við yfir í Reykjadal og böðuðum okkur í heita læknum, en þar var enginn annar en við og fuglinn fljúgandi.
Við héldum heim á leið síðla sunnudags, en þegar við vorum að koma niður af heiðinni festist fararskjótinn okkar, Ladan mosagræna, í forarpytti og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir komumst við hvorki lönd né strönd. Okkur til láns birtist skjótt vígalegur jeppi sem stoppaði og reyndist eigandi hans vera gamall félagi mannsins míns úr Flugbjörgunarsveitinni. Hann var með spil á jeppanum fína, krækti í Löduna og dró hana upp úr pyttinum, og komumst við því heim á leið. Fljótlega kom í ljós að grind Lada-jeppans hafði skekkst við þessa aðgerð og upp frá því þurfti að beita lagni við að loka hurðum hans.
Eftir brúðkaupsferðina okkar hef ég alltaf borið hlýjar tilfinningar til Lödu-jeppa, og hið sama á við um heimaland Lödunnar, Rússland. Eftir að ég fór til Sovétríkjanna árið 1971, þá rétt átján ára gömul, hef ég verið alæta á allt sem rússneskt er. Ég lauk til dæmis nýlega við lestur bókarinnar Farewell Mama Odessa eftir rússnesk-bandaríska rithöfundinn Emil Draitser.
Emil Draitser var einn af þúsundum Gyðinga sem fluttust frá Sovétríkjunum til Bandaríkjanna í lok sjöunda áratugar síðustu aldar, rúmum áratug áður en Sovétríkin liðuðust í sundur. Bók Emils fjallar um þessa flutninga og þá þrautagöngu sem hann og landar hans þurftu að þreyja á leið sinni til fyrirheitna landsins, Ameríku.
Í bókinni kemur fram að áður en Emil Draister fluttist til Bandaríkjanna skrifaðist hann á við frænda sinn, sem bjó í Los Angeles. Sá síðarnefndi var ötull við að kynna Emil fyrir undrum Ameríku og þar á meðal lýsti hann fyrir honum bílasýningu sem hann hafði farið á í Los Angeles. Hann hélt því fram að bílar gegndu hlutverki ástmeyja í lífi bandarískra karlmanna. Því til staðfestingar fór hann mörgum orðum um hvernig léttklæddar þokkadísir hefðu daðrað bæði við bíla og kúnna á bílasýningunni.
Hann nefndi það líka að á bílasýningunni hefðu ekki aðeins verið bandarískar glæsikerrur, heldur líka rússneski bíllinn Zhiguli. Hann bætti því við að nafni Zhiguli-bílsins hafi verið breytt og á Vesturlöndum héti hann Lada. Rússnesk yfirvöld höfðu gert sér grein fyrir því að nafn rússneska fjallabeltisins Zhiguli höfðaði lítt til girndar Bandaríkjamanna á konum, en þeir töldu að nafnið Lada mundi hrífa, en Lada er heiti á slavneskri gyðju ástar og fegurðar. Nafnbreytingin hafði þó ekki tilætluð áhrif. Fyrir Bandaríkjamönnum var nafnið Lada framandlegt og þeir gátu engan veginn tengt þennan kassalaga, kraftlitla jeppling við kynþokka kvenna og fáar ef nokkrar Lödur hafa sést á ferð á hraðbrautum Los Angeles.
Þó að ég geti vel fallist á að hvorki nafn né útlit Lada-jeppa hafi mikið sexappíl, þá er ég sannfærð um að rússnesk yfirvöld völdu rétt þegar þau gáfu henni nafn gyðju ástar og fegurðar. En þeirra mistök voru að nota nafn ástar- og fegurðargyðjunnar Lödu til að höfða til girndar karla á konum, þeir hefðu betur markaðssett hana sem farartæki ástar og fegurðar fyrir nýgift hjón á leið í brúðkaupsferð.