Læknirinn fór að vinna á kassanum

Viltu fá kvittunina? Flemming Rosleff spyr að þessu á milli  6 sinnum og 600 sinnum á dag, þar sem hann situr við kassann  hjá Irma verslunarkeðjunni í Vanlöse og afgreiðir viðskiptavini.

Starfaði sem læknir og sjúkrahúsforstjóri

Viðskiptavinirnir eru mjög hrifnir af þessum 74 ára kassamanni og hafa valið hann „Elskulegustu kassadömu Danmerkur“, í keppni sem tímaritið Hjemmet efnir árlega til. „Ég hlakka til að vakna á morgnana og fara í vinnuna“, segir Flemming. En þjónustulund hans stafar ekki af því að hann hafi reynslu af verslunarstörfum.  Fyrir sjö árum kvaddi Flemming Rosleff sinn gamla vinnustað, þar sem hann hafði starfað lengi, bæði sem læknir og sjúkrahúsforstjóri. Hann valdi hins vegar að sækja um aðra vinnu, hjá Irma versluninni í hverfinu þar sem hann býr, í stað þess að fara á eftirlaun.

Hlakkar til að mæta í vinnuna

„Þar sem mér fannst ekki lengur eftirsóknarvert af vera móður og másandi í vinnunni, datt mér í hug að það gæti verið skemmtilegt að sjá, hvernig sambandið við viðskiptavinina gengur fyrir sig í venjulegri matvörubúð“, sagði hann í samtali við danska Ríkisútvarpið. Flemming sér ekki eftir að hafa skipt á læknastarfinu og vinnunni á kassanum þar sem hann skannar vörur og afgreiðir viðskiptavini. „Þessi vinna kemur mér sannarlega fram úr á morgnana og ég hlakka til að hitta viðskiptavinina, segir hann.  Og hann er ekki eini Daninn  sem er kominn á eftirlaun, sem hefur  valið að halda áfram að vinna, í stað þess að halla sér afturábak í sófanum og taka því rólega á eftirlaunum. Samkvæmt rannsókn Samtaka iðnaðarins í Danmörku eru tvöfalt fleiri eftirlaunamenn á vinnumarkaði núna, en fyrir tíu árum.

Þeim fjölgar sem vilja vinna áfram

Árið 2018 völdu 86.000 einstaklingar, sem voru orðnir 65 ára  að halda áfram að vinna þó þeir gætu farið að taka út eftirlaunin sín. Þetta eru 43.500 fleiri en gerðu það fyrir 10 árum. Flemming Rosleff situr svo sannarlega ekki aðgerðarlaus, því hann rekur sitt eigið ráðgjafafyrirtæki með kassavinnunni í Irma og er þar að auki að vinna á heilsuræktarstöð.

Fyrirmynd fyrir eldra fólk

Flemming varð kassa-maður 67 ára og nú hefur hann kynnst bæði fjölskyldulífi og smekk viðskiptavinanna í Irma. Hann mælir með vinnu á kassa fyrir eldra fólk. „Ég vil gjarnan vera fyrirmynd fyrir eldra fólk sem er að nálgast eftirlaunaaldurinn. Það hugsar kannski að nú sé gott að setjast í stól og slappa af. Sem læknir vara ég menn við að gera það, segir hann og hlær. Þar sem hann hefur langa starfsreynslu sem læknir, er hann stundum spurður ráða á kassanum, um hvað hægt er að gera við neglur sem vaxa niður eða um önnur heilbrigðisvandamál. Honum finnst það samband sem hann hefur við viðskiptavinina, gulls í gildi.  Ég hef meira samband við fólk hér á kassanum, heldur en ég hafði sem læknir. Læknisstarfið kenndi mér hins vegar að vera í sambandi við hvern og einn í mjög skamman tíma í senn og þurfa að leggja á minnið áhyggjur fólks eða gleðiefni, þannig að ég gæti haldið samtalinu áfram næst þegar ég hitti það. Ég held að þessi starfsreynsla nýtist vel á kassanum.

Hreppir hann titilinn aftur?

Auk þess að leggja sig eftir þörfum viðskiptavinarins hefur hann tekið upp ákveðna aðferð við að brjóta saman kassakvittnir. Hann brýtur þær vandlega tvisvar sinnum, þannig að þær passi vel í peningaveskið. Hvort þessi ákveðna þjónusta á eftir að tryggja honum aftur titilinn „Elskulegasta kassadama Danmerkur“ kemur fljótlega í ljós, þegar hún verður valin á næstunni. Flemming vonast til að geta bætt þessum titli enn á ný við ferilskrána.

 

 

Ritstjórn maí 14, 2019 06:49