Þorsteinn Víglundsson, fráfarandi velferðarráðherra og þingmaður Viðreisnar skrifaði eftirfarandi grein um lífeyrismál í Kjarnann
Íslenska lífeyriskerfið er í fremstu röð í alþjóðlegum samanburði. Hvort sem horft er til þátta á borð við nægjanleika lífeyrissparnaðar, eigna lífeyrissjóða sem hlutfalls af landsframleiðslu eða kostnaðar við rekstur kerfisins. Kerfið byggir á þeirri einföldu hugsun að hækkandi meðalaldri þjóðarinnar verði aldrei mætt með öðrum hætti en að hver kynslóð beri ábyrgð á eigin lífeyri í gegnum söfnunarkerfi. Gegnumstreymiskerfi, líkt og einkennir lífeyriskerfi flestra Evrópuríkja í dag, lendir óhjákvæmilega í vandræðum eftir því sem þjóðir eldast og fækkar á vinnumarkaði í hlutfalli við ellilífeyrisþega. Sé tekið mið af mannfjöldaspá Hagstofunnar má ætla þeim sem eru starfandi á vinnumarkaði í hlutfalli við ellilífeyrisþega muni fækka úr 6 á móti 1 í dag í 3 á móti einum á næstu 4 áratugum.
Hvernig stendur þá á því að ýmsir stjórnmálaflokkar og raunar einnig nokkrir forystumenn verkalýðshreyfingarinnar hafi allt á hornum sér þegar kemur að íslenskum lífeyrissjóðum? Í það minnsta þrír flokkar af þeim átta sem eiga fulltrúa á þingi í dag hafa það á stefnuskrá sinni að grípa inn í lífeyriskerfið með einum hætti eða öðrum og jafnvel snúa frá söfnunarkerfi yfir í gegnumstreymiskerfi að hluta, þvert á það sem flestar nágrannaþjóða okkar eru að gera.
Það þarf ekki að kafa djúpt til að sjá að það stendur ekki steinn yfir steini í röksemdafærslum þessara flokka. Það eru einkum þrjú atriði sem gagnrýnd eru og ég ætla að fjalla í stuttu máli um hvert þeirra.