Tengdar greinar

Lífeyriskerfið mjög stórt miðað við landsframleiðslu

Vilhjálmur Bjarnason, viðskiptafræðingur og eitt sinn þingmaður, hefur skrifað margar greinar um lífeyrismál og er fróður um þau. Hann segir áríðandi að fólk hugsi snemma um lífeyrismál sín og að hver einstaklingur beri ábyrgð á eigin lífi þegar til kastanna kemur.
Nú hefur oft verið haldið fram að við séum með besta lífeyriskerfið á Vesturlöndum. Er það svo, erum við með besta kerfið, eins og oft er haldið fram?
„Það er aldrei hægt að tala um besta kerfið en erum við með kerfi sem stendur undir væntingum og skuldbindingum lífeyrisþega. Það er í raun það sem þetta snýst um. Okkar kerfi er mjög stórt miðað við landsframleiðslu. Eignir lífeyrissjóða eru u.þ.b. 175% á af landsframleiðslu, eða tæplega tvær landsframleiðslur til í eignum og af því eru um 40% í erlendum eignum. Það er talið að Holland standi betur og sé með betur fjármagnað kerfi en við en svo er náttúrlega spurnig um hvernig aldurssamsetningin er í þjóðum þegar verið er að bera þetta saman. Það er enn verið að hlaða í okkar kerfi og bæta við inngreiðslum og þar með skuldbindingum, þannig að það er ekki svo slæmt að eiga vel fjármagnað lífeyriskerfi, en ekki þannig að yngri aldurshópar greiði fyrir eldri aldurshópa í gegnumstreymiskerfi.

Konur oft án lífeyriseignar eftir skilnað
Dregið hefur verið verulega úr makalífeyri þannig að konur, sem missa maka sinn eru verr settari en áður, en á móti er atvinnuþátttaka kvenna mikil og hefur aukist að sögn Vilhjálms. Hann segist alltaf staldra við tvo hópa þegar kemur að lífeyrismálum, konur í ákveðnum hópum og öryrkja.
„Þegar ég hef verið að fara í gegnum lífeyrismál og lífeyriskerfi staldra ég alltaf við þessar spurningar: Hverjir eru verst settir? Og eru einhverjir hópar utan við þetta kerfi? Það eru hópar, sem standa illa, og það eru öryrkjar sem aldrei hafa haft tök á að afla sér lífeyrisréttinda og einnig konur sem fara seint á vinnumarkað og sömuleiðis konur sem koma út úr skilnaði jafnvel án lífeyriseignar, sem eiginmaðurinn aflaði á meðan sameiginlegum heimilisrekstri stóð. Þessar konur hafa farið svolítið illa út úr skilnaði. Lífeyriseignin, sem er skilyrt er peningaleg eign heimilisins. Öryrkjar eiga að njóta bóta almannatrygginga en það má spyrja; er nóg gert þar? Ég segi nei. Þar er veikleiki og ég held að það sé vegna þess að málefnum vinnandi fólks og málefnum öryrkja er blandað saman í umræðu um lífeyrismál og það er rétt að staldra við með þennan hóp sérstaklega og aðstoða hann. Hjá öryrkjum er bara ein leið og hún er að hækka bætur. Hjá konum er alltaf til lausn. Atvinnuþátttaka kvenna er sífellt að aukast þannig að þetta vandmál er að þurrkast út smám saman.“
Hvað með hópa sem fara seint út á vinnumarkaðinn eins og marga námsmenn?
„Það er reiknað með að fólk fari á vinnumarkaðinn 25-30 ára en langt nám á að skila sér í tekjum en það gerir það ekki alltaf. En fólk er ábyrgt fyrir sínu líferni og lífeyrissjóði og þá vaknar spurning um þessi lágmarksframlög í lífeyrissjóð, sem eru sett í lög. Það mætti leysa það með því að setja ekkert hámark á fólk, að það hefði heimild til að afla sér viðbótarlífeyrisréttinda fyrir utan samtrygginguna og til tryggja sér góð lífeyrisréttindi. Það er lágmark að allir afli sér viðbótarlífeyris en það er stundum samningamál hvað það er mikið. Þannig að þessi leið er til staðar en viðkomandi verður að fara hana sjálfur. Á sama tíma er fólk á starfsaldri að koma sér þaki yfir höfuðið. Eitt er það að framlag fyrirtækja til lífeyrismála er lögbundið lágmark, stundum er hægt að semja um meira en hvað varðar hlut launþegans, þá er hann að semja við sjálfan sig. Hann getur t.d. greitt meira í þann lífeyrissjóð sem hann borgar í og þannig hámarkað sína möguleika.“

Gott að greiða niður fasteignalán
Vilhjálmur mælir með að fólk taki út séreignasparnað, skattfrjálsan og skilyrtan, til að greiða niður fateignalán ef það getur, það komi sér vel síðar á ævinni að eiga skuldlausa fasteign, það sé mikilvægt að fólk búi í sæmilega skuldlausri eign þegar kemur að því að taka út lífeyri og hafi ekki íþyngjandi afborganir.
„Stundum er fólk að búa sér til lífeyri í frjálsum sparnaði með því að pína sig til að greiða fasteignalán og lækka greiðslubyrðina. Það er ein leið í lífeyrismálum og þegar ég ræði við minn helsta sérfræðing í lífeyrismálum þá segir hann að það skilji á milli lífeyrisþega sem búa í eigin húsnæði og svo þeirra sem leigja, að það skipti sköpum fólk eigi sitt húsnæði skuldlaust þegar á lífeyrisaldur er komið. En það er enginn sem segir að í lífeyrismálum sé til ein rétt leið og hún getur líka breyst í tímans rás.
Frjálsi sparnaðurinn er skattaður óskaplega en þegar fasteignalánin eru greidd niður er í raun verið að fara fram hjá fjáreignasköttum, þannig að sá sparnaður er ábatasamur.
Svo má kannski líka segja í ljósi þess hvernig fasteignamarkaðurinn hefur verið að ef fólk er búið að tryggja sér sína fasteign þá ætti það kaupa sér aukasteypu vegna þess að söluhagnaður af steypu er ekki skattlagður eins og af fjáreign. Húsaleiga er í raun mjög lág, miðað við gjöld af fasteignum og fórnarkostnað, þó svo að leigjendur kvarti yfir hárri húsaleigu.“

Hvað finnst þér um þau réttindi sem fólk ávinnur sér, mættu þau vera betri?
„Réttindi eru náttúrlega alltaf í hlutfalli við það sem þú greiðir, þau byggjast á innborgunum, iðgjöldum, ávöxtun eigna, lífslíkum og örorku, eftir að þú hefur borgað inn í viðkomandi sjóð. Ef lífeyrissjóður ávaxtst betur en upphaflegar forsendur sjóðsins, þá bætir sjóðurinn við þessi útreiknuðu viðmiðunarréttindi eða skerðir þau eftir atvikum, já t.d. ef þeir fara í einhverjar vitleysisfjárfestingar eins og að kaupa hlutabréf í flugfélögum,“ segir Vilhjálmur og brosir kankvíslega. „Lífeyrissjóður verslunarmana hefur nokkrum sinnum verið að bæta í réttindi sjóðsfélaga og einhverjir fleiri sjóðir hafa gert það sama.“

Heimilin berskjölduð ef annar makinn fellur frá
Mælirðu með að fólk kaupi sér líftryggingu hjá lífeyritryggingafélögumog hver er ábyrgð fólks þegar kemur að lífeyrismálum?
„Það er líka spurning með frjálsar líftryggingar, að heimilin standa berskjölduð ef annað fellur frá. Er líftrygging til fyrir einhverjum hluta skulda þegar verður röskun á högum? Þetta er ekki ódýr leið en ég tel að fólk eigi að fara hana. Við hvaða aldur er skynsamlegt að hætta að kaupa líftryggingu? Iðgjöld hækka með aldrinum. Er makalífeyrir eins hár og hann var? Þarna verður fólk að hugsa um sín mál sjálft. Það er bara annað dæmi sem fólk á við sig en þá er skynsamlegt að sá aðili tryggi sig sem meiri tekjumissir verður hjá.“

Viðbótarlífeyrir eins og bankabók
Vilhjálmur segir að frjáls sparnaður sé alltaf mikilvægur fyrir fólk vegna þess að hann veiti fólki sjálfsögð réttindi.
„Þegar fólk er komið á lífeyrisaldur, eða um 60 ára, þá er viðbótarlífeyrir dálítið eins og bankabók og hægt að ganga að honum með mánaðarfyrirvara en það kemur þá til skattlagningar. Þá er spurning hvernig á að skattleggja þann þátt. Á að skattleggja lífeyristekjur og launatekjur eins? Það sem mælir með því að lífeyristekjur séu skattlagðar lægra en launatekjur er einkum tvennt. Lífeyristekjur eru upprunalega að mjög litlu leyti launatekjur, þær eru ávöxtun og ef þú horfir á þetta frá löggjafarvaldinu þá er það þannig að sparaður ríkisins af lífeyriseign er augljós á tvo vegu, Það koma engar greiðslur frá almannatryggingum til lífeyrisþega, og ef viðkomandi verður ófær um að hugsa um sig og er vistaður á dvalarheimili þá borgar hann að verulegu leyti þessar lífeyristekjur til hjúkrunarheimilisins og það er töluverð upphæð sem ríkið þarf þá ekki að greiða með þeim einstaklingi. Ég hef stundum spurt um jafnræði þeirra sem eru á hjúkrunarheimilum og sú umræða er ekki alltaf birtingarhæf.“

Láglaunakonur einna verst settar
Ef við tökum vinnandi fólk þá eru láglaunakonur, sem eru einar einna verst settar og ekkert betur settar en þeir sem aldrei gerðu neitt í sínum lífeyrismálum, þarna er ákveðið óréttlæti. Ef við höfum óskertan lífeyri til allra þá þarf að hækka tekjuskatt eða tryggingargjöld en þeir sem fá mest út úr þeirri viðbót eru þeir sem nú búa við mestu skerðingarnar vegna þess að þeir hafa góðan lífeyri og hverju erum við bættari þá? Var ráðist í þetta afnám skerðinga til að bæta réttindi fyrrum hæstaréttardómara eða láglaunakvenna? Og báðir fá jafnmikið út úr þessari réttarbót, sem mér finnst ekki réttarbót, og af hverju á að hækka tryggingargjald hjá vinnandi fólki sem er að basla við að koma sér þaki yfir höfuðið. Þannig að viðkomandi ber alltaf ákveðna ábyrgð á eigin lífi.“
Nú eru margir að taka út lífeyri fyrir 70 ára aldur, hvað ráðleggur þú fólki að gera í því sambandi?
„Fólk tekur út gjarnan lífeyri við 65-70 ára aldur og miðað við skerðingu sem er 7% á ári í Lífeyrissjóði verslunarmanna þá ertu eins settur miðað við það að lifa til 80 ára ef þú hefur tekið út lífeyri frá 67 ára. Fram til 80 ára ertu í ávinningi, eftir þann tíma ertu í tapi. Spurningin er – hvað viltu? Hvað geturðu eytt miklu eftir áttrætt? Hver og einn verður að gera þetta upp við sig. En þegar kemur að viðbótarlífeyri er fólk tregt til að taka hann út. Finnst skatturinn hár og skyldulífeyririnn dugar kannski en viðbótarlífeyririnn erfist ef fólk notar hann ekki. Á að bæta lífeyrisréttindi barnanna? Svari hver fyrir sig.“

Aðflutt fólk og réttindi þess
„Það sem er nýtt fyrir okkur er aðflutningur fólks, sem ekki hefur réttindi, og þar við bætist að fólk fær stundum foreldra til sín, sem hafa heldur engin lífeyrisréttindi. Miðað við það sem ég hef heyrt frá fólki sem starfar við útlendingamál þá er þetta ekki eitthvað, sem menn vilja bæta fyrst. Og það má spyrja, er siðferðileg skylda til að bæta rétt þessa fólks sem aldrei hefur lagt neitt til, ber ég skyldu til að hugsa um náungann úr öllum álfum?
Fasteignamarkaðurinn myndi t.d. standa vel undir náttúrlegri fjölgun en þegar kemur svona mikill aðflutningur þá springur hann. Heilbrigðiskerfi, skólakerfið og lífeyriskerfið standa ekki undir þessu.“
Umræða um lífeyrisjóðsmál er nokkuð áberandi núna, bankar eru með kynningar o.s.frv. Hefur almenningur hugað nægilega að þessum málum og t.d. ákveðnir hópar, sjálfstætt starfandi aðilar, listamenn o.fl.?
„Sjálfstætt starfandi fólk hefur líklega alltaf reynt að koma sér undan og mér er sagt að fátæktarvandi í sumum sveitarfélögum sé ekki fátækt verkafólk heldur sjálfstæðir atvinnurekendur, sem borguðu aldrei í lífeyrissjóð. Það er sérkapituli og þá kemur að því sem ég segi gjarnan að maðurinn ber ábyrgð á sínu lífi. Hann getur ekki krafist þess að einhver annar ábyrgist hans velferð, ekki nema að mjög takmörkuðu leyti. Fólk verður að hugsa um sín mál og lífeyrismál eru mál til áratuga en ekki nokkurra mánaða.“

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna

Ritstjórn ágúst 30, 2024 07:50