Lífeyrismál – lofað og svikið á víxl

Stefán Ólafsson.

„Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, er mjög viðkunnanlegur maður. En það er lítið byggjandi á loforðum sem hann gefur lífeyrisþegum. Ég minnist þessa ekki að nokkur íslenskur stjórnmálamaður hafi lofað eldri borgurum umtalsverðum kjarabótum og svikið þau loforð jafnhratt aftur. Fyrir kosningar 2013 sendi Bjarni bréf til allra eldri borgara og sagðist ætla að afnema tekjutengingar ellilífeyris. Það var ansi stórt loforð – sem aldrei var efnt,“ segir Stefán Ólafsson prófessor í grein á heimasíðu sinni. Í greininni rekur hann loforð sem sjálfstæðismenn hafa gefið en svikið. Stefán segir: „Ég sá í fjölmiðlum fyrir skömmu að Bjarni Benediktsson segist nú ætla að hækka frítekjumark vegna atvinnutekna fyrir eldri borgara, upp í 100 þúsund krónur. Það er kynnt sem mikil framför. Stór sigur sem í vændum sé. Í fjárhagsáætlun fráfarandi ríkisstjórnar Bjarna Ben. til næstu 5 ára var gert ráð fyrir að það myndi taka 5 ár að hækka frítekjumarkið aftur upp í 100 þús. (eða um 90% af því sem það var í desember sl.). Kanski menn lofi því nú í kosningavímunni að gera þetta á skemmri tíma! Þetta virðast forystumenn Sjálfstæðisflokksins telja miklar framfarir. Þeir rýra kjörin fyrst og lofa svo að bæta um 90% af því aftur á næstu 5 árum (hækka frítekjumarkið upp í 100 þúsund í stað 109 þúsunda). Hvers virði eru loforð þess sem hefur boðið eldri borgurum upp á aðra eins hringekju loforða og svika og Bjarni Benediktsson hefur gert síðan 2013?“ Í lok greinarinnar spyr hann svo hvort ellilífeyrir sé að hækka um þessar mundir. „Hinar auknu skerðingar lífeyris TR vegna annarra tekna, sem tóku gildi um síðustu áramót, voru réttlættar með því að verið væri að hækka lífeyri TR umtalsvert. Og vissulega hækkaði lífeyririnn fyrir marga. Þannig fara Sjálfstæðismenn yfirleitt að í velferðarmálum: þeir hækka með annarri hendinni en lækka um leið með hinni! Ef lífeyrisgrunnurinn er hækkaður þá skerða þeir meira á móti vegna annarra tekna – svo eldri borgarar og öryrkjar fái ekki of mikið út úr kjarabótinni! Þannig hefur þetta oft verið.Óskertur lífeyrir almannatrygginga (það sem þeir fá sem ekki hafa aðrar tekjur umfram 25 þús. kr. á mánuði) var hækkað í 280 þúsund um áramótin síðustu (fyrir einstakling sem býr einn; fyrir skatt). Nú er svo talað um að á næsta ári hækki þessi lífeyrir TR í 300 þúsund – og er það sögð mikil hækkun. En er það sérstaklega mikil hækkun? Þeir sem hafa fylgst með vita að verið er að láta óskertan lífeyri almannatrygginga fylgja lágmarkslaunum á vinnumarkaði. Á þessu ári og svo aftur á því næsta. Verið er sem sagt að leyfa samsvarandi hækkun á lífeyri og varð á lægstu launum í kjarasamningunum. Er það eitthvað sérstaklega metnaðarfullt fyrir eldri borgara?“ Grein Stefáns í heild er hægt að lesa hér.

Ritstjórn október 4, 2017 12:33