Lífsgleðin erfist

Fjórðungi bregður til fósturs segir í Íslendingasögunum en ýmislegt bendir til að það sé heldur meira en svo. Ný norsk rannsókn sýnir að rekja má 30% þess sem skapar mönnum lífsgleði og hamingju til erfða. Þá verða sjötíu prósent þeirra viðhorfa til í uppeldinu. Ef foreldrar þínir voru glaðir og jákvæðir eru ansi góðar líkur á að þú brosir framan í heiminn líka. Undanfarin ár hafa vísindamenn fundið sterk tengsl milli hamingju og vellíðanar manna og þeirra viðhorfa sem þeir temja sér.

Flestir telja að þetta glaðlynda fólk sem eilíflega virðist fullt af lífþorsta og gleði sé svo heppið í lífinu að það mæti aldrei neinu mótlæti en svo er alls ekki. Þótt utan frá líti út fyrir að sumir séu hamingjusamari en aðrir stafar það af því að þeir virðast hafa meiri getu til að hugsa jákvætt en almennt gerist en ekki hinu að lífið sé því léttara en öðrum. Rannsókn sem gerð var við Háskólann í Ósló og sýnir að hversu ánægð við erum með lífið sýnir að svo er. Í rannsókninni var skoðað hvernig erfða- og umhverfisþættir stuðla að lífsánægju og þar með hvaða hlutverk persónuleiki okkar leikur í því.

Niðurstaða norsku rannsóknin er að erfðaþættir skýri um 30 prósent af mismuninum en umhverfisþættir skýra um 70 prósent af breytileikanum. Meðal persónueinkenna sem stuðluðu að aukinni hamingju voru félagslyndi, virkni, hversu opið fólk var og af hve miklu æðruleysi það tókst á við erfiðleika.

Hamingjuþjófar

Þeir eiginleikar sem helst spilltu lífshamingju voru kvíði og þunglyndi. Fjandskapur gagnvart öðrum, lítil skipulagshæfni og varnarleysi höfðu mun minni áhrif á lífsgleðina og voru þess vegna ekki skilgreindir hamingjuþjófar af rannsakendum. Fleiri jákvæðir þættir ýttu undir hamingju en þeirra á meðal voru hlýja og traust. Það kemur sennilega ekki á óvart að margir þættir hafa áhrif á hamingjutilfinningu og hvernig okkur líður með sjálf okkur. Persónuleiki og erfðir eru aðeins nokkur púsl í mun stærri og flóknari mynd.

Hver og einn skilgreinir gott líf á sinn hátt en þrátt fyrir það hafa rannsóknir varpað ljósi á  fjölda sameiginlegra þátta sem fólk upplifir að séu mikilvægir þegar kemur að því að mæla eða meta hamingju. Fólk þarf að finna til ánægju, hún er nokkurs konar grunntilfinning til að byggja ofan á tilgang eða merkingu með lífinu. Til að fólki finnist það hamingjusamt þarf því einnig að finnast það hafa einhvers konar hæfni eða getu á tilteknu sviði og hafa tækifæri til vaxtar og til að nýta þá hæfileika. Jákvæðar tilfinningar gagnvart umhverfi sínu og sínum nánustu og almennt góð tengsl við aðra eru sömuleiðis ákveðin undirstaða.

Flestir veigra sér við að takast á við neikvæðar tilfinningar og reyna að forðast þær í lengstu lög en það tryggir þeim ekki aukna hamingju. Þvert á móti virðist að hæfilegur skammtur af neikvæðni geri það að verkum að menn upplifi frekar gleði þegar vel gengur. Það eru þessar andstæður í lífinu sem kenna fólki þakklæti fyrir það sem það hefur og hið góða sem því hlotnast. Þegar fólk kemst á efri ár eykst tilhneiging þess til að líta yfir farinn veg og reyna að meta hversu vel það hefur lifað lífi sínu. Þá hefst einnig oft endurskoðun á fyrri gildum og verðmætamat kann að breytast mjög.

Hreysti og hamingja

Mörg máltæki og orðtök fjalla um hversu mikilvæg góð heilsa er hamingju fólks. Hún getur vissulega skapað mönnum mikil lífsgæði en hún er ekki úrslitaatriði hvað varðar ánægju þeirra með lífið. Margt fólk er glímir við heilsubrest er engu að síður mjög lífsglatt. Allir ganga í gegnum tímabil í lífi sínu þar sem þeir eru óánægðir og líður illa. Það geta verið krefjandi aðstæður og erfiðleikar sem mæta þeim og gera það að verkum að áhyggjur eru að sliga þá og depurð sækir að. Kvíði og óöryggi hafa líka mikil áhrif á líðan. Þá kemur þrautseigja fólki mjög til góða en sumir hafa mikla hæfni til að þreyja erfiða tíma, horfa fram á við og efla með sér fullvissu um að þetta muni líða hjá og eitthvað betra bíði.

Hvað getum við gert til að auka hamingjuna?

Þótt sumir kunni að hafa sterkari tilhneigingu til óhamingju en aðrir frá erfðafræðilegu sjónarmiði er ýmislegt sem við getum gert til að breyta því. Við getum margt gert til að skapa okkur meiri lífsgæði, auka ánægju okkar og þar með lífshamingju.

  • Myndaðu tengsl. Leggðu þig fram við að skapa góð sambönd við aðra og leyfa þeim að þróast. Sýndu þakklæti og leyfðu þér stíga skrefið og þora að tengjast öðrum.
  • Vertu meðvitaður um líðan annarra. Taktu eftir litlu hlutunum í fari þeirra og sýndu þeim tillitssemi. Lærðu núvitund eða hugleiðslu og stundaðu hana til að skapa meiri hugarró. Láttu ekki hraðann í samfélaginu buga þig veldu viljandi að staldra við og vera til staðar í núinu á hverjum degi.
  • Vertu virkur. Líkamleg hreyfing er mikilvæg bæði til að halda heilsu, auka framleiðslu gleðiboðefna í líkamanum og til að skapa félagsleg tengsl. Gerðu eitthvað nýtt eins oft og þú mögulega getur eða haltu áfram að gera eitthvað sem gleður þig og gefur þér orku.
  • Haltu áfram að læra. Vertu forvitin/n, skoðaðu heiminn og lærðu eitthvað nýtt.
  • Gefðu af þér. Það getur verið mikil gleði í því að gefa af sér og hún getur líka verið smitandi. Taktu þátt í sjálfboðavinnu eða ræktaðu fólk í umhverfi þínu sem þú veist að þurfa á stuðningi að halda.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.